Víkingsblóðið rennur hraðar á aldarafmælinu!
21.4.2008 | 22:35
Víkingsblóðið rennur hraðar um æðarnar á aldarafmæli Knattspyrnufélagsins Víkings, en Víkingur á 100 ára afmæli í dag. Það flugu margar góðar minningar gegnum hugann þegar ég renndi gegnum Víkingsumfjöllun Morgunblaðsins í morgun, en þar var farið yfir helstu atriði í sögu félagsins.
Stór hluti þeirrar minningar er sífelld viðvera Ásgeirs og Láru - sem alltaf voru nærri. Sorglegt að Ásgeir fengi ekki að lifa 100 ára afmælið - en við fylgdum honum til grafar í haust.
Man ennþá stemmninguna og æsinginn í Höllinni 1975 þegar Víkingar urðu Íslandsmeistarar í handbolta í fyrsta sinn með ótrúlegum sigri á Val og hófu gullaldartímabilið í handbolta. Gleymi aldrei þegar Viggó frændi kastaðu sér í gegnum Valsvörnina - frá punktalínu - og gulltryggði forystuna og meistaratitilinn! Það var ekki aftur snúið eftir þann dagpart á pöllunum í Höllinni!
Skömmu síðar vannst fyrsti titillinn minn í handbolta - Reykavíkurmeistarar í 4 flokki. Brosið fór hringinn þegar ég tók við titlinum sem fyrirliði - og það bros skjalfest með svarthvítri mynd í Mogganum!
Ég átti forréttinda að fagna að fá að taka þátt í gullöldinni með Bogdan þar sem ég æfði og keppti með köppum eins og snillingnum Páli Björgvinssyni, frænda mínum Viggó Sigurðssyni, Þorbergi Aðalsteinssyni, Árna Indriðasyni, Sigurði Gunnarssyni, Ólafi Jónssyni, Kristjáni Sigmundssyni, Steinari Birgissyni, Ellert Vigfússyni sem voru nokkuð eldri - og svo með köppum sem lágu nær mér í aldri - Guðmundur Þórði Guðmundssyni, Gunnari Gunnarssyni, Heimi Karlssyni, Óskari Þorsteinssyni - og mörgum fleirum. Þetta voru frábærir tímar - en erfiðir - enda Bogdan enginn amatörþjálfari!
Einhversstaðar á ég gullpeninga fyrir Íslandsmeistaratitil og gott ef ekki líka Reykjavíkurmeistaratitil frá þessum tíma! Silfurpeninginn fyrir annað sætið í bikarkeppninni faldi ég lengi vel vegna svekkelsis yfir að hafa ekki klárað það dæmi.
Þá var ekki síður gaman í fótboltanum þar sem spilað var með algjöru Gull-Víkingsliði í yngri flokkum - liði sem síðar var grunnurinn að Íslandsmeistaratitlum Víkings í fótbolta. Undir stjórn Hafsteins Tómassonar - frábærs þjálfara - vann 3. flokkur Víkings alla leiki - nema einn - og þar af leiðir öll mót sem tekið var þátt í - bæði hér og erlendis!
Enda ekki slor lið:
Arnór Guðjohnsen, Lárus Guðmundsson, Heimir Karlsson, Aðalsteinn Aðalsteinsson - sem allir urðu atvinnumenn erlendis - Jóhann Þorvarðarson, Jóhannes Sævarsson, Gunnar Gunnarsson - sem valdi handboltann og var sem slíkur atvinnumaður - en hefði eflaust átt möguleika í fótboltanum líka. Ekki má gleyma Bjössa Bjartmarz - sem síðar varð algjör Víkingshetja! Það var ekki furða að maður valdi markið - með alla þessa snillinga með sér í liðinu. Ég hélt lengi vel að ég gæti ekkert sem útispilari í fótbolta - þar sem ég var alltaf að bera mig saman við þá langbestu!!!
Þá eru góðar minningar frá þjálfun yngri flokka í handbolta - bæði stráka og stelpna! Þar liggja einhverjir Íslandsmeistara- og Reykjavíkurmeistartitlar!
Ný fylgist maður bara með guttunum sínum í 6. og 7. flokki! Eldri stelpan hætt að spila fótbolta fyrir nokkrum árum - en hún varð þó Íslandsmeistari í 4.flokki B - fyrstu Íslandsmeistarar kvenna hjá Víking í fótbolta! Sú yngri segist bara ætla í dans - en hún er nú ekki nema 3 ára - með keppnisskap - svo ekki er öll nótt úti enn!
Já, Víkingsblóðið rennur dálítið hraðar um æðarnar í dag!
Til hamingju með 100 árin Víkingar!!!
![]() |
Víkingur á uppleið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íbúðalánasjóður lækkar vexti hóflega!
21.4.2008 | 11:00
Íbúðalánasjóður lækkar vexti íbúðalána með ákvæðum um uppgreiðslugjald hóflega og kemur þannig til móts við Seðlabanka og stjórnvöld sem óttast hafa mikla lækkun vaxta á lánum sjóðsins þar sem ávöxtunarkrafa íbúðabréfa í tveimur lengstu flokkunum hefur lækkað verulega á árinu.
Reyndar notar sjóðurinn tækifærið og hækkar áhættuálag vegna uppgreiðsluáhættu um 0.25% þannig að vextir lána án sérstaks uppgreiðslugjalds eru áfram háir! Það er reyndar eðlilegt frá áhættusjónarmiði þegar vaxtastig er hátt.
Sú ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs að fara ekki í útboð fyrr á árinu þrátt fyrir áætlanir um annað hafa orðið til að styðja við hávaxtastefnu Seðlabanka og stjórnvalda, en væntanlega hefur sú ákvörðun byggst á minni útlánum og betri lausafjárstöðu en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum Íbúðalánasjóðs.
Íbúðalánasjóður ákvað að taka verulega fjárhæð í HFF 24 sem er með miklu hærri ávöxtunarkröfu en lengri flokkarnir. Vægi þessa flokks í heildarávöxtunarkröfunni er 48,75% sem verður til þess að heildarávöxtunarkrafa tekinna tilboða er 4,75% sem þýðir að útlánavextir íbúðalána Íbúðalánasjóðs lækka einungis í 5,2%.
Ástæða þess að Íbúðalánasjóður hefur nú svigrúm til þess að taka tilboðum í þennan stutta lánaflokk er sú að sjóðurinn hefur staðið sig afar vel í áhættustýringu sinni þannig að fullkomið jafnvægi hefur verið á inn og útstreymi fjármagns. Því hefur sjóðurinn borð fyrir báru til að slaka örlítið á þessu jafnvægi til að leggja efnahagsstjórninni lið.
Íbúðalánasjóði hefði verið í lófa lagt að taka einungis tilboðum í lengri flokkunum - enda útlán hans fyrst og fremst til langs tíma. Allar forsendur hefðu því verið til þess að lækka vexti jafnvel niður í 5,00% - 5,05% miðað við fyrirliggjandi forsendur.
Íbúðalánasjóði bárust tilboð í íbúðabréf að nafnvirði 24,1 milljarður króna. Ákveðið var að taka
tilboðum í íbúðabréf:
HFF150224 að nafnvirði 3,9 milljarðar króna, vegin áv.krafa án þóknunar er
4,92%
HFF150434 að nafnvirði 2,5 milljarðar króna, vegin áv.krafa án þóknunar er
4,66%
HFF150644 að nafnvirði 1,6 milljarðar króna, vegin áv.krafa án þóknunar er
4,40%
Vegin heildarávöxtunarkrafa tekinna tilboða án þóknunar er 4,73% og 4,75%, með
þóknun.
Að viðbættu 0,45% vaxtaálagi á lán sem bera uppgreiðslugjald ef vextir lána Íbúðalánasjóðs verða lægri á uppgreiðslutímanum þýðir þessi niðurstaða 5,2% útlánavextir, en 5,7% á lánum sem ekki þarf að greiða uppgreiðslugjald við uppgreiðslu vegna hækkunar á innbyggðu uppgreiðsluálagi.
![]() |
Íbúðalánasjóður lækkar vexti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)