Drottning íslenskra fréttaskýringa - þar sem iðulega er vitnað til ónefndra heimildarmanna - Agnes Bragadóttir - virtist ekki alveg sátt við mig í Silfri Egils í dag.
Ástæða óánægju hennar var sú að ég sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með þann mæta mann Þorstein Pálsson fyrir að hafa ekki svarað afdráttarlaust með jái eða nei fyrirspurn Karls Th. Birgissonar um það hvort Þorsteinn hafi orðið vitni að samtali Styrmir Gunnarssonar - hins vandaða ritstjóra Morgunblaðsins - við Kristin Björnsson um "yfirvofandi tíðindi" hjá Baugi tiltekinn dag.
Herðubreið heldur því fram að upphaf Baugsmálsins megi rekja til Morgunblaðsins og áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum - og að ritstjóri Morgunblaðsins hafi vitað af aðgerðum gegn Baugi fyrirfram. Einnig að Þorsteinn Pálsson hafi orðið vitni að slíku samtali Styrmis og Kristins Björnssonar.
Nú hef ég enga skoðun á því hvernig málavextir voru - en tel þá staðreynd að Þorsteinn Pálsson hafi ekki svarað spurningu ritstjóra Herðubreiðar með jái eða nei - hafi orðið til þess að ýta undir grunsemdir almennings um að eitthvað sé til í staðhæfingum Herðubreiðar. Það vita það allir að vandaður og heiðvirður maður eins og Þorsteinn Pálsson myndi aldrei segja beinlínis ósatt. En hann svaraði hvorki já - né nei!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)