Vilhjálmur smáfjárfestir og vortúlípanarnir!

Það er eins klárt og túlípanarnir spretta upp úr blómabeðunum á vorin að Vilhjálmur smáfjárfestir sprettur upp á aðalfundum stóru fyrirtækjanna með gagnrýnar spurningar og athugasemdir.

 

Það er jafn gott fyrir smærri fjárfesta að hafa svo einbeittan talsmann og Vilhjálm smáfjárfesta og það er gott fyrir sálartetur blómaunnenda að sjá túlípanana teygja sig á móti vorsólinni.

 

Á aðalfundi FL Group í dag stóð Vilhjálmur upp að venju og baunaði löngum spurningalista á stjórnendur fyrirtækisins. Ekki veit ég hvernig forsvarsmennirnir náðu að snúa sig út úr spurningaflóði Vilhjálms. En þeir höfðu þó haft vit á því að leggja fram tillögu um að lækka stjórnarlaun sín í fyrirtækinu um helming – svo Vilhjálmur þurfti ekki að ómaka sig í að leggja fram slíka tillögur.

 

Vilhjálmur smáfjárfestir neyddi nefnilega stjórn SPRON um daginn að lækka nefndarlaun sín um helming í kjölfar umræðu um ofurlaun stjórnarmanna í öðrum banka – Kaupþingi – þar sem nefndarlaunin voru margfalt hærri – en lækkuðu ekki.

 

Það er óeðlilegt að laun fyrir nefndarsetur í fjármálafyrirtækjum séu út úr korti, en ég er ekki viss um að til lengri tíma sé það skynsamlegt að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja séu á smánarlaunum miðað við þá lagalega ábyrgð sem þeir nú bera.

 

Mín persónulega skoðun er sú að ekki hafi verið ástæða til að lækka laun stjórnarmanna í SPRON. Þau voru hófleg fyrir lækkun – miklu lægri en þóknun annarra fjármálafyrirtækja. Þar var Vilhjálmur smáfjárfestir að hengja bakara fyrir smið.

 

En svona er lífið! Það er ekki alltaf dans á rósum – frekar en það er ekki alltaf ylur í túlípanabeðinu!


mbl.is Tap vegna AMR, Commerzbank og Finnair nam 38 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð uppbygging á Borgarfirði eystra!

"Sérstök gerð af ökutækjum sást í hóp út á Bökkum í dag, en þetta eru svokallaðir steypubílar. Þeir þóttu gríðarlega sjaldséðir á Borgarfirði allt fram á síðasta ár, en nú sjást þeir annað slagið hér í firðinum og er víst von á fleiri slíkum ökutækjum á næstu vikum samkvæmt áreiðanlegum heimildum. Þessir 3 bílar sem sáust voru að koma með fyrstu steypuna í grunninn undir mótelið sem hefur fengið vinnsluheitið Útskálar."

Svona hljómar frétt gamals nemanda míns á Borgarfirði eystra, Hafþórs Snjólfs Helgasonar, á skemmtilegum vef Borgarfjarðar eystra.

Hafþór er að lýsa hluta magnaðrar uppbyggingar á Borgarfirði eystra - þessarar stórkostlegu perlu á Austfjörðum.  Um þessar mundir er verið að byggja eitt hótel og eitt mótel á Borgarfirði eystra - sem ekki er svo ýkja fjölmennir staður. En þörfin er brýn - en ferðamenn heimsækja Borgarfjörð eystra í þúsundatali - en hafa ekki haft mikla möguleika á nútímagistingu.

Annars vegar er verið að breyta gamla frystihúsinu niðrá Eyri í heilsuhótel, Hótel Blábjörg og hins vegar er verið að byggja nýtt gistiheimili út á Bökkum, Mótel Útskála, með 20 herbergjum með baði.

Það er Angrímur Viðar Ásgeirsson, annar stóri bróðir söngfuglanna Magna og Aldísar, sem stendur fyrir byggingu Mótels Útskála, en fjölskyldan sú hefur verið viðloðandi ferðaþjónustu á Borgarfirði um langt árabil - voru í þeim bransa þegar ég starfaði sem kennari á Borgarfirði eystra 1992-1993.

Ásta og Kjartan eru að breyta frystihúsinu í hótel - og gallerí - Gallerí Clarissu - þar sem verður ýmisskonar handverk eftir Ástu - glerbrennsla og fleira.

Það eru ekki einungis mögnuð náttúrufegurð og frábærara gönguleiðir um Borgafjörð, Loðmundarfjörð og Víkurnar - sem draga ferðamenn að! Nei - Borgarfjörður er mikið menningarpláss þótt þar séu einungis 146 einstaklingar skráðir til heimilis.

Minna má á Kjarvalsstofu - og yfir sumarið eru uppákomur sem vert er að mæta á!

Tónlistarhátíðin Bræðslan er ein flottasta tónlistarhátíð landsins og Álfaborgarsjéns er árviss um verslunarmannahelgina!

Það er miklu fleira að sjá á Borgarfirði eystra!  Hér er hlekkur á upplýsingasíðu þeirra Borgfirðinga! 

Kæru Borgfirðingar!  Það er frábært að sjá kraftinn í uppbyggingunni. Gangi ykkur allt í haginn!


Bloggfærslur 11. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband