Er Evrópusambandsaðild margfalt verðmætari en EES aðild?
9.2.2008 | 15:43
Aðild Íslendinga að Evrópusambandinu og að evrunni sparar íslenskum heimilum 50 til 100 milljarða á ári á meðan aðalforsendan fyrir EES samningnum á sínum tíma var 4 til 5 milljarða króna tollafríðindi á fiski. Þetta kom fram hjá Árna Páli Árnasyni eins öflugasta Alþingismanns Samfylkingarinnar á ráðstefnu norsku Evrópusamtakanna.
Það er alveg ljóst að íslenska krónan er ekki gjaldmiðill 21. aldarinnar eins og ég hef margoft bent á. Ef við viljum endilega halda í krónuna - þá skulum við skipta yfir í færeysku krónuna.
Þótt það sé ekki á dagskrá ríkissjórnarinnar - þá verðum við að taka afstöðu til þess hvort við viljum hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og taka upp Evruna. Það skaðar okkur að ýta þeirri umræðu og þeirri ákvörðun á undan okkur - eins og ríkisstjórnin virðist ætla að gera - þótt skýr vilji hafi komið fram hjá ráðherrum bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um að upptaka Evru sé æskileg.
Minni einnig á tímabærar vangaveltur hinnar öflugu framsóknarkonu Valgerðar Sverrisdóttur á sínum tíma um að skoða beri möguleika á þvi að taka upp Evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Geri ráð fyrir því að Valgerður sé sammála mér að við ættum að hefja aðildarviðræður ef ekki er mögulegt eða hagkvæmt að taka upp Evru einhliða - án þess ég viti það. Hún hafði myndugleik og hugrekki til að taka þá umræðu upp á sínum tíma.
Mín skoðun er nefnilega sú að hag okkar sé betur farið innan Evrópusambandsins - og að við eigum að hefja viðræður hið snarasta.
Ég áskil mér hins vegar rétt til þess í þessu máli sem öðrum að skipta um skoðun ef fram koma gild rök sem sýna framá að ég hafi rangt fyrir mér - en hingað til hafa þau ekki komið fram - ekki einu sinni hjá vini mínum og félaga Bjarna Harðarsyni.
Við megum ekki láta misskilið þjóðarsstolt flækjast fyrir okkur í þessu máli - frekar en öðrum.
Að þessum orðum sögðum held ég fullur þjóðarstolts á þorrablót með Hornfirðingum og gæði mér á hákarli og súrmeti eins og sönnum Íslendingi sæmir.
Írleg frétt um ræðu Árna Páls er að finna á Eyjunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Íslandsmeistaramótið í Hornafjarðarmanna!
9.2.2008 | 11:35
Íslandsmeistaramótinu í Hornafjarðarmanna lýkur í kvöld við upphaf þorrablóts Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þá fer fram úrslitaviðureign þriggja efstu manna úr undankeppni Hornafjarðarmannamótsins. Heimsmeistaramótið í Hornafjarðamanna er hins vegar haldið á Humarhátíð á Hornafirði í sumar.
Þorrablót Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu er haldið í 30. skipti eftir því sem ég kemst næst. Við hjónin mætum að sjálfsögðu ásamt hóp fólks sem - eins og við - vann í lengri eða skemri tíma á Hornafirði. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem við mætum hér í Reykjavík - 10 árum eftir að við fluttum frá Hornafirði aftur á mölina í Reykjavík - en þorrablótin fyrir austan voru stórkostleg og ógleymanleg. Þar varð ég meðal annars þess heiðurs aðnjótandi að verða umfjöllunarefni í annál þorrablótsins - þar sem þorrablótsnefndin gerði grín að þeim sem það áttu skilið!
Það er uppselt á þorrablótið í kvöld - en klukkan 23:00 hefst dansleikur - þar sem hljómsveit Hauks Þorvaldssonar leikur fyrir dansi - að sjálfsögðu. Á dansleikinn skilst mér að allir séu velkomnir - meðan húsrúm leyfir.
Á vef Þorrablóts Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu er að finna skemmtilegar orðskýringar er snerta þorrablót. Læt þér fylgja.
Þorrablót
Á Íslandi er siður að halda þorrablót í febrúar. Þorrablót er veisla, þar sem Íslendingar borða hefðbundinn íslenskan mat, drekka brennivín, syngja íslensk lög, kveða vísur og dansa gömlu dansana. Fyrstu þorrablótin voru haldin í kaupstöðum á Íslandi á nítjándu öld.
Harðfiskur er þurrkuð fiskflök af þorski, ýsu eða steinbít. Harðfiskurinn er rifinn og borðaður þurr, án þess að vera matreiddur á nokkurn hátt. Oft er borðað smjör með honum eins og með brauði.
Hákarl er venjulega óætur. En ef hann er grafinn niður í fjörusand í nokkra mánuði yfir veturinn, rotnar hann á sérstakan hátt og fær sterkt bragð, sem minnir á sterkan ost. Það er kallað kæstur eða verkaður hákarl. Íslendingum finnst hákarl góður með brennivíni.
Svið eru lambahöfuð, sem eru sviðin yfir eldi eða með logsuðutæki til þess að brenna burt ullina, og síðan soðin með salti. Mörgum finnast augun best, en mestur matur er í kjömmunum og tungunni.
Með þorramatnum er borin fram rófustappa, kartöflujafningur og flatrúgbrauð með smjöri. Það er ekkert grænmeti borið fram með þorramat, það er ekki íslenskur matur.
Á eftir dansa Íslendingarnir gömlu dansana með harmoníkuundirleik. Það er drukkinn bjór með matnum og brennivín. Þorrablótið stendur oft alla nóttina.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)