Umsókn um aðild að Evrópusambandinu skaðar ekki sjávarútveginn!

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu skaðar á engan hátt hagsmuni sjávarútvegsins, enda ljóst að það er unnt að semja um fiskveiðistjórnina í aðildarviðræðum.  Það er í alla staði hagsmunir Íslands að hefja nú þegar undirbúning að umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það er reyndar ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að hefja ekki nú þegar slíkan undirbúning.

Aðildarumsókn er nefnilega eitt. Innganga er annað.

Ástæða þess að ég sting niður penna öðru sinni í dag til að hvetja til undirbúnings aðildarumsóknar að Evrópusambandinu eru harkaleg viðbrögð andstæðinga Evrópusambandsins í athugasemdum við pistil minn "Undirbúum umsókn um aðild að Evrópusambandinu!"

Þar staðhæfa menn að ekki sé unnt að sækja um vegna sjávarútvegsins! Það er algjör firra því það er alveg ljóst að unnt er að semja um fiskveiðistjórnina.

Það eru fordæmi fyrir því að einstök lönd eða landssvæði haldi fullu forræði fyrir sjávarútvegnum. Má þar nefna Asoreyjar og Grænhöfðaeyjar sem dæmi. Ástæðan er sú að þessi landssvæði eru efnahagslega háð sjávarútvegi og floti Evrópusambandslanda hefur ekki veiðihefð innan lögsögunnar.

Það er ekki markmið ESB að gera einstök lönd eða svæði efnahagslega háð Brussel.  Þessvegna halda menn t.d. olíulindum, sjávarútvegi, skógrækt sbr Finnland og fleiru utan ESB ef þess er óskað í aðildarviðræðum.

Það verður aldrei hægt að tala sig niður á þá niðurstöðu sem við getum náð í aðildarviðræðum án þess að sækja um og láta á það reyna.  

Ég skal vera fyrsti maður til að greiða atkvæði gegn aðild að ESB ef ekki nást viðunandi samningar um sjávarútvegsmál og önnur atriði sem skipta okkur meginmáli. Hins vegar er ég nokkuð viss um að ég geti með góðri samvisku greitt atkvæði með slíkri aðild - þar sem ég tel okkur getað náð ásættanlegum samningum,

Reyndar er það ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að hafa ekki þegar undirbúið aðildarumsókn - í ljósi þeirra hagsmuna sem Íslendingar hafa af Evrópusambandsaðild - ef ásættanlegir samningar nást um sjávarútveginn.


Visir.is - fréttavefur eða fréttaannáll?

Mér sýnist visir.is vera að breytast í fréttaannál frekar en fréttavef. Í næstum því viku hefur ofarlega á forsíðu visir.is blasað við mér sama myndin af glæsilegum ungum þingmanni, Birki Jóni Jónssyni, ásamt fyrirsögn sem í marga daga hefur verið ljóst að er rangfærsla. 

Bak við fyrisögnina er sérkennileg umfjöllun Andra Ólafssonar fyrrum formanns ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði - sem ku vera blaðamaður á Fréttablaðinu. Samfylkingarmaðurinn fjallar í hneykslunartón um að þingmaðurinn - sem er afar öflugur bridgespilari - hafi tekið í spil um daginn.

Samfylkingarmanninum er frjálst að hneykslast á því að þingmaðurinn taki í spil - en ég get ómögulega séð ástæðu til þess að visir.is sem vill láta taka sig alvarlega sem fréttavefur - skuli breyta sjálfum sér í fréttaannál - og það lélegan fréttaannál - með því að hafa sömu "ekkifréttina" á áberandi stað í heila viku.  Jafnvel þó spilamennska þingmannsins hefði brotið í bága við lög - sem hún gerði alls ekki eins og alþjóð ætti nú að vita þótt Samfylkingarmaðurinn hefði viljað gefa annað í skyn - þá réttlætti það ekki þessa framsetningu "fréttavefjarins".

Hvað þá að halda inni allan þennan tíma fyrirsögn sem ekki stenst - eins og ítrekað hefur komið fram í öðrum fjölmiðlum. 

Það er alveg ljóst hvaða hvatir liggja að baki umfjöllunar Samfylkingarmannsins - en hvaða hvatir liggja þarna að baki hjá visir.is?

Annars skrifar Pétur Tyrfingsson skemmtilegan pistil á Eyjunni um fjaðrafokið sem saklaus - og lögleg - spilamennska þingmannsins unga og öfluga hefur valdið.

PS: Fréttaannállinn hefur verið fjarlægður af forsíðu visir.is - eftir amk. 5 daga veru. Kannske voru þetta bara mistök hjá visir.is. Ég kýs allavega að líta svo á.


Undirbúum umsókn um aðild að Evrópusambandinu!

Það er hagur okkar Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Það er ljóst. Þjóðin er að átta sig á því. Ríkisstjórnin á því að undirbúa umsókn að Evrópusambandinu. Til lengri tíma mun það verða til þess að auka stöðugleika í íslensku hagkerfi. Enda er krónan 20. aldar gjaldmiðill - en ekki gjaldmiðill fyrir 21. öldina.

Þeir sem óttast að við Íslendingar séum að afsala okkur fullveldi með slíkri inngöngu - verð ég að benda á að fullveldið fór með EES samningnum - hvort sem okkur líkar betur eður verr.


mbl.is Stuðningur við ESB rúm 55%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband