Er HB Grandi að gera grín að Vopnfirðingum - eða er þeim alvara?
23.1.2008 | 21:46
Man ég það ekki rétt að HB Grandi hafi boðað mikla uppbyggingu á Akranesi fyrir ekki svo löngu síðan? Hvar standa Skagamenn nú með 100 ára fyrirtækið sitt?
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las bjartsýnislega frétt frá fyrrum sveitungum mínum á fréttavefnum Vopnafjörður.is þar sem sagt er frá göfugum fyrirætlunum HB Granda á Vopnafirði. Vonandi standa þeir við orð sín fyrir austan - þótt þeir hafi illilega gengið bak orða sinna á Akranesi.
En fréttin hljóðar svo:
"Í dag var boðað til borgarafundar í tilefni hugmynda sem Grandamenn eru með í samandi við nýja fiskmjölverksmiðju á Vopnafirði. Héldu þeir kynningu á 1000 tonna verksmiðju ásamt mjölgeymslum sem taka um 10 þúsund tonn af mjöli. Ef af verður eru þetta gríðarlegar framkvæmdir en áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í vor og ný verksmiðja verði tekin í notkun í maí 2009:
Það sem verður byggt:
Verksmiðjuhús verður endurnýjað og stækkað. Stór hluti búnaðar í verksmiðjunni verður endurnýjaður. 2. Mjölsíló verða flutt frá Reykjavík og endurbyggð á Vopnafirði. 3. Gert verður ráð fyrir að hægt verði að fjölga sílóum seinna. 4. Byggð verður mjölskemma sem tengist mjölsílóum 5. Byggt verður flutningskerfi (dragari) að mjölsílóum.Byggt verður flutningskerfi (dragari) fyrir mjöl til skips (útskipun)."
Ímynd Íbúðalánasjóðs afar sterk!
23.1.2008 | 09:54
Ímynd Íbúðalánasjóðs er afar sterk enda er um og yfir 80% Íslendinga jákvæður gagnvart sjóðnum. Ég er ánægður með þessa niðurstöðu sem fram kemur í viðhorfskönnunum sem Capacent Gallup gerði í desember, annars vegar meðal fasteignakaupenda og hins vegar meðal almennings.
Ég er stoltur að sjá þessa jákvæðu niðurstöðu hjá Íbúðalánasjóði þar sem ég starfaði af lífi og sál í 8 ár og mér líður vel að skilja við sjóðinn í svo góðru stöðu, nú þegar ég hef skipt um vettvang og hafið störf hjá Spesíu, eigin ráðgjafafyrirtæki.
Það eykur enn ánægjuna að sjá að matsstuðull sem mælir jákvæðni var 4,1 meðal fasteignakaupenda, en 4,0 meðal almennings. Báðar niðurstöðurnar eru hærri en hæsta gildi sem mældist í sértækum ímyndarkönnunum Capacent á árinu 2007, en þar var hæsta gildi 3,9 og meðaltalsgildið 3,8.
Í báðum skoðanakönnunum kemur fram mjög skýr vilji fólks fyrir því að Íbúðalánasjóður starfi áfram í óbreyttri mynd og hefur hlutfallið aldrei áður verið svo hátt. Meðal fasteignakaupenda vill 87,4% óbreytta starfsemi en það hlutfall var 82,8 % í desember 2006. Í almennu könnuninni var þetta hlutfall 85,5% í desember 2007 á móti 74,2% í desember 2006.
Því miður er ekki víst að stjórnvöld geti rekið Íbúðalánasjóðs áfram í óbreyttri mynd - þótt þau vildu - því líkur eru á að Eftirlitsstofnun EFTA muni þrengja eitthvað að möguleikum Íbúðalánasjóðs til að þjóna hlutverki sínu - möguleikum sem reyndar eru allt of takmarkaðir í dag.
Hámarkslánið í dag er einungis 18 milljónir þegar það ætti að vera 24 milljónir miðað við fyrri viðmið félagsmálaráðuneytis á sama tíma og úrelt viðmið við brunabótamat hamlar mjög möguleikum sjóðsins að lána þeim sem eru að kaupa minni íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.
Þá hefur sjóðnum ekki verið gefin heimild til að lána myntlán þótt ljóst sé að vextir sjóðsins á slíkum lánum yrðu til muna lægri en vextir bankanna.
Það er nefnilega athyglisvert að í skoðanakönnunum kom fram að 42,6% þeirra sem telja sig munu festa kaup á íbúðarhúsnæði á næstu misserum telur sig muni taka íbúðalán í erlendri mynt. Þá kemur fram að 38,7% þeirra sem endurfjármögnuðu íbúðalán sín á árinu 2007 tóku slík lán í erlendri mynt samanborið við 9,7% í könnuninni í desember 2006.
![]() |
Um 80% ánægð með Íbúðalánasjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)