Athyglisverð umræða um húsnæðislið vísitölunnar
12.3.2007 | 22:03
Það var ekki meiningin að fyrsta blogfærslan mín snerist um húsnæðismál, en ég rakst á athyglisverða blogfærslu frá fyrrum skólabróður mínum úr MH, Eyþóri Arnalds, "Á húsnæði heima í neysluvísitölunni".
Umræðan um það hvort sú aðferð sem notuð er á Íslandi við að reikna húsnæðisliðinn inn í vísitöluna á fullkomlega rétt á sér. Sú aðferð sem beitt hefur verið varð til þess að verðbólga á Íslandi hefur að sumra mati mælst langt umfram það sem hún hefði raunverulega átt að mælast að þeirra mati. Afleiðingar þess hafa verið okkur Íslendingum erfiðar.
Fram hafa komið athyglisverðar hugmyndir um að þróun húsnæðisverðs verði tekin úr verðbólgumælingunni, en þess í stað verði miðað við þróun byggingakostnaðar og húsaleigu. Það er ekki svo galin nálgun, sérstaklega í ljósi þess að stórhækkun húsnæðisverðs á afmörkuðum "lúxussvæðum" eins og við heitar götur í 101 Reykjavík endurspeglar ekki húsnæðiskostnað miðlungs Íslendings. Hækkunin sú hefur hins vegar haft mikil áhrif á hækkun neysluvísitölunnar.
Þegar skipulagsbreytingar voru gerðar á húsnæðislánakerfinu árið 2004 var fyrirsjáanlegt að einhverjar breytingar yrðu á verðstrúktúr íbúða, þótt engum hafi dottið í hug að nýir 200 - 300 milljarðar dældust inn á lánamarkaðinn frá bankakerfinu á örfáum mánuðum og að hækkanir á húsnæðisverði yrðu svo miklar sem raun bar vitni.
Þrátt fyrir að sú innspýting fjármagns væri ekki fyrirsjáanleg - þá voru á lofti raddir um að rétt væri að taka húsnæðisliðinn út úr mælingu neysluvísitölunnar á meðan möguleg áhrif skipulagsbreytinganna gengju yfir - enda ekki raunveruleg hækkun á neysluverði almennings að ræða þótt íbúðaverð hækkaði - þar sem greiðslubyrði af hærri lánum sem nýtt voru til að fjármagna kaup á dýrari íbúðum en áður, hækkaði ekki endilega þar sem vextir og þar af leiðir vaxtabyrði lækkaði á móti. Þá hækkaði greiðslubyrði þeirra sem ekki voru að kaupa húsnæði ekki vegna hækkunar húsnæðisverð - fyrr en það hafði áhrif á vísitöluna!
Kannske höfðu þessar raddir rétt fyrir sér! Allavega á umræða um húsnæðisliðinn í neysluvísitölunni fullkomlega rétt á sér.
Svo er nú það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
...stigið létt inn í óðum stækkandi bloggheim!
12.3.2007 | 21:16
Ég er þeirrar gerðar að hafa skoðanir á flestu sem viðkemur þjóðmálum og finnst heilbrigð skoðanaskipti og vönduð umræða mikilvægur grunnur að þróun þess samfélags sem við búum við.
Vegna stöðu minnar sem starfsmaður opinbers fyrirtækis hef ég veigrað mér við að taka þátt í þeirri umræðu á mínum eigin persónulegu forsendum, enda legg ég áherslu á að vinna vinnunna mína faglega og koma fram fyrir fyrirtækið á forsendu þess óháð mínum eigin skoðunum.
Ég hef hins vegar ákveðið að stíga létt inn í óðum stækkandi bloggheim og koma mínum persónulegu skoðunum á framfæri þegar sá gállinn er á mér, ekki síst vegna þess að konan mín og börnin eru orðin leið á því að ég sé að rífast upphátt við sjónvarpið - eða fréttir og blogg á netinu
Þar sem margir tengja mig fyrst og fremst við vinnuna mína og það fyrirtæki sem ég starfa fyrir, þá vil ég biðja lesendur að hafa það ætíð í huga að ég er aldrei á blogginu sem opinber starfsmaður og málsvari þess fyrirtækis sem ég vinn hjá, heldur er um að ræða mínar eigin, persónulegu skoðanir.
Vonandi skripla ég ekki á skötunni í bloggskrifum mínum, en ef mér verður á, þá er það persónan Hallur Magg en ekki embættismaðurinn Hallur Magnússon sem heldur um pennann ...
Svo er nú það!
Kveðja
Hallur Magg
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fyrsta bloggfærsla
12.3.2007 | 11:19
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)