Kraftur náði til áhorfenda á Gimli Film Festival!
30.7.2009 | 22:35
Gimli Film Festival er kannske ekki það sama og kvikmyndahátíðin í Feneyjum - en Gimli Film Festival er samt virt kvikmyndahátíð í Kanada! Meðal kvikmynda sem sýnd var í Gimli þetta árið var hin frábæra og einlæga mynd Skagfirðingsins Árna Gunnarssonar "Kraftur" sem í ensku útgáfunni hlaut heitið "Kraftur, The Last Ride"
Kanadamenn - og væntanlega margir Vestur-Íslendingar - fengu því að sjá þessa skemmtilegu heimildamynd næst á eftir Skagfirðingum - því Árni sýndi "Kraft" á forsýningu í Skagafirð í vor við afar góðar undirtektir.
Í "Krafti" fylgir Árni Gunnarsson eftir þeim félögum Þórarni Eymundssyni tamningarmanni og úrvalsknapa og stórgæðingnum Krafti allt frá tamningu og þjálfun til heimsmeistaramóts íslenska hestsins í Hollandi - þar sem Kraftur - eðli málsins vegna - varð eftir þar sem úrvalshross íslensk sem taka þátt í heimsmeistarmóti eiga ekki afturgegnt til Íslands - ekki frekar en flestir Íslendingarnir sem fluttust til Kanada og settust að í Gimli fyrir um það bil öld síðan.
Ég er ekki mikill hestamaður - þótt ég hafi yndi af því að ríða út. Hef ekki þolinmæði að horfa á langar myndir um hesta. En ég hélt athyglinni yfir "Krafti" - eins og kanadísku áhorfendurnir. Þurfti meira að segja að berjast við tárin á köflum - eins og Kanadamennirnir - sem sumir létu þau samt renna.
Ástæðan einföld. Heimildarmyndin "Kraftur" er ekki bara mynd um hest og mann - heldur miklu meira. Tilfinningaþrungin mynd sem allir skilja sem einhvern tíma hafa þurft að sjá á eftir ástvini.
Ég hlakka til að sjá "Kraft" sýnda í kvikmyndahúsi hér heima - og er þess fullviss að myndin á eftir að ganga í sjónvarpsstöðvum um allan heim á næstu misserum og árum.
Hrun Michael Moore á Feneyjahátíðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.7.2009 kl. 01:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.