Bjarga bæjarstjóraskipti meirihlutanum í Kópavogi?
26.5.2009 | 21:14
Bjarga bæjarstjóraskipti meirihlutanum í Kópavogi?
Að óbreyttu munu Framsóknarmenn að líkindum neyðast til að slíta 19 ára meirihlutasamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi - því þótt einhverjir kunna að komast að þeirri niðurstöðu að bæjarstjórinn hafi ekki brotið lög með milljónagreiðslum Kópavogsbæjar til fyrirtækis dóttur hans - þá er það greinilegur dómgreindarbrestur, einhverjir myndu segja siðferðisbrestur bæjarstjórans að láta slíkt viðgangast.
Ný Framsókn líður ekki spillingu. Svo einfalt er það. Því bendir allt til meirihlutaslita í Kópavogi - nema Sjálfstæðismenn taki til í sínum ranni og geri annan mann á D-lista - Gunnstein Gunnsteinsson að bæjarstjóra í stað Gunnars Birgissonar - eins og ýjað er að á Eyjunni að sé inn í myndinni.
Með slíkri hrókeringu hafa Framsóknarmenn raunverulegt val í Kópavogi. Val um að halda áfram meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn fram að kosningum - enda ekki æskilegt að vera að róta með meirihluta síðustu mánuðina fyrir kosningar - eða val um að hætta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vegna dómgreindarbrests núverandi bæjarstjóra þrátt fyrir að hann víki.
Víki bæjarstjórinn ekki - þá hafa Framsóknarmenn í Kópavogi ekkert val. Þeir verða að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn - því Framsóknarmenn geta ekki liðið svo víðtækt dómgreindarleysi bæjarstjórans - hvað þá ef um siðferðisbrest er að ræða.
Reyndar ákváðu Framsóknarmenn í Kópavogi að láta Gunnar Birgisson njóta vafans og bíða niðurstöðu úttektar endurskoðenda bæjarins. Það var drengilegt á þeim tíma - en skiptir ekki öllu máli lengur. Dómgreindarleysið blasir svo við.
Reyndar eru endurskoðendur Kópavogsbæjar í ákveðnum vanda - því eftir því sem ég kemst næst þá er annar aðalendurskoðandi bæjarins fyrrum bókari Klæðningar. Ef svo er þá skiptir ekki máli hversu vönduð og góð úttekt þeirra verður - andstæðingar bæjarstjórans geta alltaf véfengt niðurstöðuna þótt það sé algjörlega að ósekju.
Mér finnst reyndar að ef þetta er rétt - þá eigi viðkomandi aðili að segja sig frá málinu vegna vanhæfis. Það væri heiðarlegast bæði gagnvart sjálfum sér og bæjarstjóranum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hallur .
Hvar hafið þið framsóknarmenn verið öll árin sem Gunnar Birgisson hefur verið með ykkur við völd í Kópavogi ?
Það er ekkert nýtt sem er að koma upp, Gunnar Birgisson hefur komið öllum vinum og vandamönnum á laun hjá opinberum aðilum eins oft og hann hefur getað gert ! þetta ættuð þið að vita verandi með honum við völdí Kópavogi ! Þú ert að reyna að segja að þið framsóknarmenn hafið bara fengið launin ykkar en ekkert haft annað að gera í bæjarstjórn Kópavogs !
Getur verið að einhver framsóknarmaður hafi fengið góðar greiðslur eins og vinir og vandamenn bæjarstjórans ?
JR (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 22:10
Jeremías Hallur minn.
Eins og það er gaman að lesa bloggið þitt þá geturðu gengið ansi langt með að réttlæta allt fyrir þér. Þú skilur til að varpa trúverðugleika á sjálfan þig þá verðurðu að hafa opin augu fyrir því að það gæti enn verið mikil spilling í framsókn þá þeir hafi yfirlýst annað. Þegar þú ert bæjarstjóri þá bara einfaldlega semur þú ekki við dóttir þína upp á 50 milljónir!! Já hún verður þá að fara í annað bæjarfélag. Hún verður bara að tapa á því að pabbi sinn sé bæjarstjóri. Til varnar spillingu. Það getur enginn vitað hvað hún veit með útboðsgögnin.
Allir venjulegir þenkjandi einstaklingar sjá þessa ógeðslega spillingu. Mér hefur boðið við Gunnari í mörg ár. Ég er kominn með nóg af þessari spillingu. Það bara á ekki að vera vafi á því að það sé spilling. Og það að Gunnsteinn taki við breyti öllu. Hallur hættu þessu bulli og sjáðu í gegnum þetta. Meirihlutaslit eru ill nauðsyn. Og ég er enginn stuðningsmaður vg eða samfylkingarinnar.
Jóhann Gunnar (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 22:33
Ágæti Jóhann.
Ég hef ekki dulið þá skoðun mína að ég tel að Framsóknarmenn eigi að slíta samstarfinu. Það er hins vegar ekki þarmeð sagt að allir Framsóknarmenn séu mér sammála.
Þetta blogg mitt er einungis greining á stöðunni.
Hallur Magnússon, 26.5.2009 kl. 23:06
Þú talar eins og Gunnsteinn og Gunnar Birgisson séu í sitt hvorum flokknum. Allir bæjarfulltrúar meirhlutans hljóta að bera ábyrgð á rekstri bæjarins. Ekki bara Gunnar Birgisson.
Það er því engin lausn að Gunnar stígi til hliðar og Gunnsteinn taki við.
Sigurður Haukur Gíslason, 27.5.2009 kl. 00:25
Gunnsteinn er Sigurðsson , ef þið meinið skólastjórann. Ómar er orðinn reyndur stjórnmalamaður hann býður.
Helga Kristjánsdóttir, 27.5.2009 kl. 02:07
Nei ´hann bíður
Helga Kristjánsdóttir, 27.5.2009 kl. 02:07
Hallur, eigum við ekki að bíða og leifa mönnum að skoða þetta mál - samstarf þessara flokka hefur gengið vel hér hjá okkur í Kópavogi Og er að mínu mati bara rétt að byrja - ég hef enga trú á því að Ómar hafi áhuga á einhverjum fölskum kvartett með vinstaliðinu -
Óðinn Þórisson, 27.5.2009 kl. 07:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.