Starfsánægja borgarstarfsmanna aldrei meiri!

Starfsánægja borgarstarfsmanna hafa aldrei verið meiri en nú þrátt fyrir afar erfiða tíma þar sem starfsmenn hafa þurft að taka á sig skerðingar á sama tíma og álag eykst. Þetta hlýtur að vera uppörvandi fyrir meirihlutann í borgarstjórn sem innleitt hefur ný og betri vinnubrögð í borginni - vinnubrögð þar sem leitað er eftir sem breiðastri pólitískri samstöðu.

Þetta hlýtur líka að vera uppörvandi fyrir minnihlutann sem á sinn þátt í að ná góðum árangri með því að hafa tekið útrétta hönd meirihluta Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna í borgarstjórn. 

Alls eru 90% starfsmanna Reykjavíkurborgar á heildina litið ánægðir í starfi samanborið við 83% í fyrra að því er fram kemur í niðurstöðum árlegrar viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar. Samtals segja 88% að þeim líði vel í vinnunni og 87% að góður starfsandi ríki á vinnustað þeirra. Alls segjast 94% starfsmanna tilbúnir til að leggja mikið á sig í vinnunni þegar þörf krefur.

 

Mannauðsskrifstofa Reykjavíkurborgarinnar sá um framkvæmd viðhorfskönnunarinnar í samvinnu við mannauðsráðgjafa á fagsviðum borgarinnar. Könnunin náði til 6.725 starfsmanna eða allra fastráðinna og flestra lausráðinna starfsmanna borgarinnar.  Alls bárust 5.174 svör og var því svarhlutfall 77 % sem er með því besta sem þekkist í könnunum af þessu tagi. 

 

Markmið viðhorfskönnunarinnar er annars vegar að draga fram viðhorf starfsmanna til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta og nýta niðurstöðurnar til að bæta árangur í starfsmannamálum.  Hins vegar er könnuninni ætlað að gefa borgaryfirvöldum, stjórnendum og starfsmönnum vísbendingar um stöðuna í þeim þáttum sem áhrif hafa á hvernig starfsmönnum tekst að veita góða þjónustu.

 

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, lýsti yfir ánægju sinni með niðurstöður könnunarinnar og bætti við að fyrst og fremst bæri að líta á þær sem sóknarfæri í mannauðsmálum hjá Reykjavíkurborg. „Þær eru vísbendingar um það sem vel er gert og það sem betur má gera til að bæta líðan starfsmanna enn frekar og þar af leiðandi þjónustu borgarinnar,“ sagði borgarstjóri. 

 

Hallur Páll Jónsson, mannauðsstjóri Reykjavíkurbogar, kvaðst sérlega ánægður með niðurstöðurnar ekki síst í ljósi þess að könnunin hefði verið gerð á sama tíma og stjórnendur og starfsmenn hefðu tekist á við mikla hagræðingu og sparnað í borgarrekstrinum.  

 

Sem dæmi um aðrar niðurstöður má nefna að 86% starfsmanna segjast bera traust til yfirmanns síns og 84% eru ánægð með samskiptin við næsta yfirmann sinn.   Alls eru 89% starfsmanna stoltir af starfi sínu og jafn margir hafa áhuga á að takast á við auknar áskoranir í störfum.  Alls 83% telja vinnustaðinn hafa góða ímynd.

 

Niðurstöðurnar verða kynntar fyrir starfsfólki á næstu dögum og vikum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Hallur það er aldeilis að þér þykir þetta merkilegt og túlkar vafalaust ykkur Framsóknarmönnum í hag af því þið eruð hækja fyrir Sjálfsætðisflokkinn. Ég get hinsvegar sagt þér að þetta er gjörsamlega marklaus könnun og gerð við mjög skringilega aðstæður. Við borgarstarfsmenn höfum gengið í gegnum verulegar kjaraskerðingar þar sem okkur var einfaldlega stillt upp við vegg. Menn þora almennt ekki að tjá sig í svona könnunum af því að þeir eru hræddir vð að vera "þefaðir" uppi og látnir gjalda þess. Framundan eru enn meiri kjaraskerðingar þar sem búð er að segja upp aksturssamningum. Þökk sé ykkur "hækur" íhaldsins. ÉG þori ekki að koma fram undir nafni en ég vinn hjá borginni. Blekið var varla þorfnað á ráðningarsamningi mínum þegar þessar skerðingar dynja yfir.

NN (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 16:32

2 Smámynd: Hallur Magnússon

NN

Þasð er einmitt merkilegt að þessi könnun var tekin einmitt í kjölfar skerðingar og sparnaðarvinnu.

Talandi um hækjur - þá þá veistu betur.

Hallur Magnússon, 16.5.2009 kl. 22:20

3 Smámynd: Hallur Magnússon

... og ágæti NN.

Þetta er árlæeg könnun - og "hræðslan" við að tjá sig því sama á milli kannanna. Sorrý - þessi rök þín ganga bara alls ekki :)

Hallur Magnússon, 16.5.2009 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband