Íbúðalánasjóður ekki vandinn - heldur græðgisvæðing bankakerfisins 2004-2007

Stærsta vandamál heimilana eru ekki hófleg allt að 90% lán Íbúðalánasjóðs heldur yfirsprengd allt að 100% lán bankanna, bæði verðtryggð og gengistryggð, sem bankakerfið dældi út á árunum 2004-2006 án lánsfjárhámarka. Lán bankakerfisins voru óháð því hvort um fasteignakaup var að ræða eða ekki - hver sem var gat fengið 80% - 90% fasteignalán í banka til þess að fjármagna neyslukapphlaupið - meðan Íbúðalánasjóður lánaði einungis hóflega til kaupa eða bygginga á húsnæði.

Staða almennings gagnvart Íbúðalánasjóði nú er hins vegar vísbending um vandann - vanda sem á rætur í óhóflegri lántöku í bönkunum, verðsprengingu á fasteignum sem varð þegar bankarnir ruddust inn á íbúðalánamarkaðinn árið 2004 með 100% lán - þegar lánshlutfall Íbúðalánasjóðs var einungis 70% og brunabótamat takmarkaði lán Íbúðalánasjóðs.

Vandinn er ekki einungis óhófleg íbúðalán bankanna - heldur bílalánin, fellihýsalánin og sumarbústaðalánin sem bankarnir dældu út og þá gjarnan í erlendri mynt - lán sem nú eru að ganga af heimilunum dauðum. Þar er ekki við hófleg íbúðalán Íbúðalánasjóðs að sakast.

Hins vegar ættu menn að hafa í huga að í Íbúðalánasjóði eru rúmlega 50 þúsund lántakendur - þannig að ef beitt er hundaalókík Seðlabanka og ríkisstjórnarinnar um að allt sé í lagi af því að það er ekki "nema" 40% heimila sem séu yfirveðsett og því tæknilega gjaldþrota - þá er umsókn 1000 lántakenda Íbúðalánasjóðs um greiðsluaðlögun og frystingu lána afar góð staða miðað við efnahagsástandið og fjöldaatvinnuleysið sem við lifum við.

Þá ber að hafa í huga að hjá flestum lántakendum Íbúðalánasjóðs sem óska eftir frystingu - þá er það ekki Íbúðalánasjóðslánið sem er vandamálið - heldur stóraukin greiðslubyrði af bílalánum, fellihýsalánum og sumarbústaðalánum frá bönkunum.

Reyndar er það að einungis 1000 manns hafi sótt um greiðsluaðlögun sönnun þess að lán Íbúðalánasjóðs eru ekki vandamálið - ekki heldur stefna Framsóknarflokksins um 90% hófleg lán Íbúðalánasjóðs sem áttu að taka gildi vorið 2007 - ef efnahagsástandið leyfði það! Sú skynsamlega áætlun fauk út um gluggan í græðgisvæðingu bankakerfisins 2004 - þar sem ekki var hugsað um efnahagsástandið eins og Framsókn lagði megináherslu á í sínum tillögum.

Staðan í dag er þannig að tillögur Framsóknar um 20% leiðréttingu lána og 17 aðrar efnahagstillögur flokksins er eina raunhæfa leiðin út úr vandanum. Það veit Tryggvi Þór - enda styður hann Framsóknarflokkinn í þessum tillöguflutningi - þótt hann sé í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn!


mbl.is Yfir 1000 hafa sótt um greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil minna á að fjölmargir vöruðu við því þegar 90% lán Íbúðarlánasjóðs voru gerð að kosningaloforði Framsóknarflokksins 2003 að það myndi verða til að bankarnir færu í samkeppni á þessu sviði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ómar Ragnarsson, 5.4.2009 kl. 14:11

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Nei Ómar - það er alrangt!

Ekki gleyma því að bankarnir voru einungis með 5% af íbúðalánamarkaði - þótt þeir hefðu getað verið með miklu hærra hlutfall - meira að segja með óbeinni ríkisábyrgð!

Ég ræddi við forsvarsmenn allra bankanna sumarið 2003 vegna áætlana um innleiðingu hóflegra 90% lána - og það sjónarmið kom ALDREI fram hjá þeim!

Það var enginn sem varaði við bönkunum - einungis að það væri ekki rétt að gera þetta á þenslutímum. Þess vegna var ákveðið að stefna að innleiðingu 90% lána vorið 2007!!!

Enda hófu bankarnir ekki að nota þessa afsökun fyrr en það fór að líða á árið 2005 - og menn farnir að skamma bankanna fyrir óhóflega útlán og ábyrgð þeirra á þáverandi þenslu!

Hallur Magnússon, 5.4.2009 kl. 14:52

3 identicon

Sæll Hallur

Varðandi 20% leiðina þá er ég henni verulega andsnúin.

Ég skil ekki hvernig nokkur maður getur haldið því fram að 20% niðurfelling leysi vandann! Það hefur komið fram við útreikninga SB að slík niðurfelling BARA fyrir heimilin kostar ríkissjóð um 285 milljarða. Og hvernig ætti svo að greiða það? Ætli það gæti ekki orðið aukin skattbyrði eða hreint "hrun" á velferðar og/eða þjónustugeira hins opinbera. Er það sanngjarnt gagnvart þeim sem skulda EKKI? Ég er t.d. námsmaður og á eftir að eignast börn... er það sanngjarnt ofan á allt annað að ávísa reikningnum á komandi kynslóðir?

Svo er vitað að slík niðurfelling dettur "dauð" hjá mörgum - sums staðar dugar hún ekki til og þá þarf sértæk úrræði. Annars staðar er hennar ekki þörf vegna þess að fólk var forsjált - eða hefur næga greiðslugetu. Þess vegna finnst mér að þurfi að ráðast að rót vandans - sértæku úrræðin strax og þá greiðsluaðlögunarleiðin ágæt.

Varðandi fyrirtæki þá held ég að 20% leiðin sé leynt og ljós knúin áfram af þeim fyrirtækjum sem mestra hagsmuna hafa að gæta... Hvað með ónefnt flutningafyrirtæki sem fór svo illa með rekstur sinn að það greiddi út hundruðir milljóna í "árangurstengda" bónusa - þrátt fyrir "lóðréttan" hallarekstur.

Heimilin þurfa ábyrg stjórnvöld sem byggja á raunsæjum og sanngjörnum leiðum til lengri tíma - ekki flýtileið sem sökkvir okkur enn dýpra í skuldafen til framtíðar. Það þarf að vera hægt að treysta því að fólk í erfiðleikum leiti til stofnanna til að fá aðlögun - næga framfærslu og byrði í samræmi við það.

Auðvitað er þetta bara mín skoðun - planið er ekki að traðka á skoðunum annarra:)

Herdís (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 15:32

4 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

En Hallur hvað með samstarf Íbúðalánasjóðs og Spron með kaup á viðbótar-brunabótamati og þá viðbótarláni hjá þeim?

Af hverju fjallarðu ekki um það!

Það er rétt hámark Íbúðalánasjóðs var 90€ og miðaðist við hámark - en.... þú varst enn við störf hjá ILSþegar brúin á milli þeirra og Spron varð að veruleika!

Fjallaðu nú ýtarlega um það!

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 5.4.2009 kl. 15:39

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Herdís

Það er bara ekki rétt hjá Seðlabankanum að þetta kosti OKKUR eða RÍKIÐ 285 milljarða! Það er mergurinn málsins.

Málið er að það verði fjölskyldurnar og atvinnufyrirtækin sem njóti afskrifta lánanna - en ekki bankarnir.

Kynntu þér því tillögurnar okkar betur - og kíktu á Silfur Egils á netinu - þar var viðtal við hinn þekkt hagfræðing Micheal Hudson sem staðhæfir að þessi leið sé sú eina með viti.

Það sem snýr að fyrirtækjunum - þá er ákveðin hópur þeirra sem þessi aðgerð mun valda starumhvörfum - skilur milli lífs og dauða. Hins vegar eru sem betur fer afar mörg fyrirtæki sem eru vel stæð og vel rekin - og geta staðið undir skuldbindingum

En galdurinn er sá að með 20% niðurfellingu lána þessara fyrirtækja - þá eykst fjárhagsleg geta þeirra til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum - og endurreisa önnur sem glatast hafa vegna gjaldþrota annarra fyrirtækja.

Þeim aðiljum sem hafa sýnt það í rekstri að þeir eru hæfir til þess að byggja upp og reka atvinnufyrirtæki - þeir eru best til þess fallnir að endurreisa atvinnulífið.

Það er ekki rétt að fara leið Samfylkingar og VG að ríkisvæða illa stæð fyrirtæki - dæla peningum úr ríkissjóð í þau - miklu meira en þessa200 milljarða sem Seðlabankinn heldur fram að sé "kostnaður" við niðurfærslu leiðina - þannig að þau haldi möguleg áfram að tapa peningum.  Sú leið felur ekki í sér að vel rekin fyrirtæki geti byggt upp efnahagslífið og skapa ný störf.

Ég skil hins vegar efasemdirnar - ég hafði miklar efasemdir fyrst - en eftir að hafa skoðað efnahagstillögurnar ofan í kjölinn - þá sannfærðist ég um að þetta er rétta leiðin - eins og svo margir aðrir.

Hallur Magnússon, 5.4.2009 kl. 15:56

6 Smámynd: Hallur Magnússon

Alma

Viðbótarbrunabótamat gilti ekki um lán Íbúðalánasjóðs - svo það sé klárt. Samstarfið fólst í því að Sparisjóðirnir og Íbúðalánasjóður höfðu samstarf um afgreiðslu lána Íbúðalánasjóðs og viðbótarlána Sparisjóðanna sem komu á eftir lánum ÍLS - eins og öllum var og er frjálst að gera.

Íbúðalánasjóður hafði ekkert um viðmið Sparisjóðanna að gera. Það var þeirra mál eins og hinna bankanna. Reglur Íbúðalánasjóðs um afgreiðslu lána sjóðsins var skýr - þar takmarkaði brunabótamat útlánið - ekki "keypt" hækkað brunabótamat.

Til viðbótar má minna á að hámarkslán Íbúðalánasjóðs árið 2004 var 14,9 milljónir króna - en ótakmarkað hjá bönkunum. Þau lán ullu ekki þenslu.

Þá má minna á að heildarútlánastabbi Íbúðalánasjóðs lækkaði um nær 150 milljarða á tímabilinu 2004 - 2005. Sé ekki hvernig LÆKKUN útlána ÍLS á að geta verið þensluvaldandi!

Enda voru þau það ekki - þótt bankarnir og þeir sem handgengir voru þeim - þmt fjölmiðlamenn - hafi haldið því fram gegn betri vitund. Ekki heldur gleyma því að bankarnir eyddu tugum - ef ekki hundruðum milljóna  í áróður gegn Íbúðalánasjóði - áróðri sem byggði á hreinum ósannindum oft á tíðum!

Hins vegar gat

Hallur Magnússon, 5.4.2009 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband