Slysagildran á Kjalarnesi og slæmt ferðaveður

Þegar ég heyri tilkynningar um að ekki sé ferðaveður þá leitar hugurinn einatt upp á Kjalarnes þar sem oft blæs hressilega og umferðin er þung. Þar skapast mikil hætta í slæmu skyggni og hálku enda liggur Vesturlandsvegurinn þröngur og dimmur í jaðrinum á byggðinni. Þar liggja einnig fjölmargir stórhættulegir afleggjarar að Vesturlandsveginum þar sem umferð er afar þung og hröð.

Reyndar þarf ekki slæmt veður til þess að skapa óásættanlega hættu á umferðaslysum á Kjalarnesi. Það er ekki síður hætta í góðu veðri þegar ökumenn aka greitt og umferðin er þung. Þá má sjá börn og unglinga sem leið eiga yfir Vesturlandsveginn skjótast á harða hlaupum rétt á meðan aðeins lengist bilið á milli bílana.

Ég fæ reyndar hnút í magan við tilhugsunina. Þarna hafa orðið slys og við viljum ekki fleiri slík.

Þá er ég kominn að kjarna málsins.

Það verður að grípa til aðgerða á þessum kafla Vesturlandsvegarins áður en við upplifum enn eitt stórslysið.

Samgönguráðherra verður að setja þennan vegakafla í forgang, fela Vegagerðinni að hanna strax tvöföldun Vesturlandsvegarins á þessum slóðum og það þannig að greið leið verði undir - eða yfir Vesturlandsveginn fyrir gangandi vegfarendur við þéttbýliskjarnann - og umferð inn á Vesturlandsveginn skapi ekki stórhættu eins og hún gerir í dag.

Það verður að laga til á þessum slóðum - þrátt fyrir blankheit.

Ég veit að þetta verður ekki gert strax á morgun - það þarf lengri tíma til að hanna framkvæmdina og byggja upp góðan og öruggan 2x2 veg þar sem umferðaöryggi er tryggt.

En í millitíðinni - strax í sumar - er hægt að gera minni úrbætur við afleggjara við Vesturlandsveg - og að sjálfsögðu er unnt að skella upp göngubrú yfir Vesturlandsveg strax í sumar!

Ég skora því á  samgönguráðherrann að taka upp símann, hringja í Hönnu Birnu borgarstjóra til að tryggja hraðameðferð vegna þessara lagfæringa gegnum borgarkerfið - og hringja svo í Vegagerðina og fela þeim að klára málið hratt og örugglega.

Kjalnesingar eiga það skilið.


mbl.is Ekkert ferðaverður á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Það er skrítið með þessa Stundarbraut af hverju er ekki hægt að byrja við Hvalfjarðargöngin og leggja hana í Gufunes það er eingin ágreiningur um þann hluta. Það er eins og alltaf sé verið að búa til ágreining til að þurfa ekki að gera neitt. Þetta kalla ég að þæfa málin á röngum forsendum. 

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 3.3.2009 kl. 09:53

2 identicon

Tíð og mannskæð slys á Vesturlandssveginum á Kjalarnesi stafa flest af snörpum vindhviðum í norðanátt undan Esjunni.  Einfaldasta og ódýrasta lausnin tel ég að felist ekki endilega í milljarðaframkvæmd við tvöföldun vegarins, heldur í því markvissri ræktun skjólskóga í Esjuhlíðum Kjalarness og ræktun hraðvaxinna skjólbelta meðfram veginum. Fyrirmyndina má finna aðeins austar undir rótum Esjunnar: á Mógilsá. Þar gætir ekki lengur hvassviðris og sviptivinda undan Esjunni sem áður fylgdu norðanáttinni.

Skjól af skógi myndast ekki á einni nóttu - en einhversstaðar verður að byrja. Og nú er rétta efnahagsumhverfið til að huga að mannfrekum, atvinnuskapandi verkefnum, við metnaðarfulla ræktun skjólskóga á Kjalarnesi sem bæta munu lífgæði íbúa og umferðaröryggi vegfarenda um ókomna tíð.

Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 12:28

3 identicon

Það vantar einhverja vindbrjóta á þessu svæði, bæði á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Ég er alltaf drulluhrædd að keyra þarna og þarf stundum að beita mig hörðu til þess að leggja ekki skjálfandi á beinunum úti í kanti og fara hreinlega að grenja.

JS (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband