Rangfærslur á forsíðu Morgunblaðsins um lán Íbúðalánasjóðs

Það var sláandi að sjá rangfærslur á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Rangfærslur sem ég sé ekki hvort eru Morgunblaðsins eða ASÍ.

Á forsíðunni er tafla þar sem sett eru upp dæmi um 25 milljón króna 100% lán frá Íbúðalánasjóði.

Vandamálið er bara að hámarsklán Íbúðalánasjóðs er 20 milljónir og sjóðurinn hefur aldrei lánað 100% lán.

Við fyrstu sýn virðist þetta smámál - en ef það er sett í samhengi við alvarlegar ranghugmyndir sem margir hafa um meintan þátt Íbúðalánasjóðs í þenslu áranna 2004-2006 - þá horfir málið öðruvísi við.

Á þeim tíma voru það bankarnir sem lánuðu óhófleg lán - allt að 100% af markaðsvirði eigna og án hámarkslánsfjárhæðar. Óhóflegur austur lánsfjár frá bönkunum inn á íbúðalánamarkaðinn á ekki hvað sístan þátt í bankahruninu og núverandi ástandi efnahagslífsins.

Íbúðalánasjóður var hins vegar með hófleg hámarkslán og eftir að bankarnir höfðu boðið óheft allt að 100% íbúðalán af markaðsvirði - hóf Íbúðalánasjóður að bjóða hófleg lán allt að 90% af verði íbúðar - sem reyndar náðist sjaldnast þar sem lánið takmarkaðist af brunabótamati og lágri hámarksfjárhæð.

Reyndar áttu 90% lán til kaupa á hóflegu húsnæði ekki að hefjast fyrr en vorið 2007 - ef efnahagsástandið leyfði - en þar sem bankarnir höfðu þegar sprengt allt efnahagslíf í loft upp með allt að 100% láni án hámarksfjárhæðar - skipti 90%  lán Íbúðalánasjóðs engu til eða frá efnahagslega.


mbl.is Með húseignir í mínus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem er ótrúlegt í dag að þessir blessuðu bankar sem rústuðu efnahag Íslendinga eins og frægt er orðið þá halda þeir í raun áfram....

Í dag ef þú ætlar að kaupa þér íbúð og ætlar að yfirtaka lánin sem hvíla á henni þá leyfa þeir þér að gera það en þú mátt bara yfirtaka 80% af upphæðinni!! Frábært fyrir þá sem eru að reyna að losna við eignirnar sínar! eða þannig......

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 09:43

2 identicon

Sæll Hallur 

Ekki treysti ég mér til að baka upp útreikninginn sem fram kemur í þessari frétt mbl.is, en ég sé hvergi minnst á íbúðalánasjóð. Kannski er búið að breyta fréttinni.

En hvað íbúðalánasjóð varðar þá er það mitt álit að sjóðurinn hefur ekki sinnt hlutverki sínu sem skildi í gegnum tíðina, og þess vegna áttu bankarnir greiðan aðgang að íbúðalánamarkaðnum.

En hvað hefði sjóðurinn getað gert betur?

Til dæmis lánað allt að fullt markaðsverð til fyrstu kaupa. Það er hægt að búa til vísitölu sem tæki mið af meðalverði 3-4 herbergja íbúðar mínus hæsta og lægsta verð, á öllum markaðssvæðum, það er að segja hvert sveitafélag er með sína vísitölu og lána samkvæmt henni að hámarki. Eftir fyrstu kaup aðeins 70% lán, að hámarki miðað við fyrrnefnda vísitölu.

Þessi lán væru ekki til lengri tíma en 30 ára og væru á jöfnum afborgunum, ekki jafngreiðslulán eins og nú tíðkast.

Ég tel að jafngreiðslulánin séu einn hluti af vandamálinu og er handviss um að skuldir heimilinna væru eitthvað lægri ef lán á jöfnum afborgunum væru reglan en ekki undantekningin. Leyfi mér jafnvel að fullyrða að álagning á fasteignir væri lægri ef öll lán til kaupa á þeim væru á jöfnum afborgunum. kv, Toni     

Toni (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 09:55

3 identicon

Hversu lengi eigum við, samfélagið, að gera ráð fyrir að það sé allt í lagi að fólk hagi sér eins og fífl í fjármálum og grenji svo ívilnanir og „fyrirgreiðslur“ frá ríkinu þegar allt er komið í vaskinn: Hverjum heilvita manni dettur í hug að taka sér 100% lán fyrir húsnæði og það í þokkabót ekki einu sinni lán á fyrirsjáanlegum kjörum heldur einhver svona fjárhættuspilalán sem annað hvort eru tengd myntkörfum eða tengt vísitölum í landi sem hefur áratugum saman búið við háa verðbólgu?

Það eru þrír kostir í stöðunni:

1) Banna fólki að eiga fé eða versla með eignir = Ekki raunhæft.

2) Ætla flestu fólki almenna skynsemi en leyfa græðginni/heimskunni að losa þeim sem eftir eru við það fé sem það kann ekki að fara með = Kaldur raunveruleikinn, heimur hinna fullorðnu.

Og það skal enginn DIRFAST að segja í mín eyru aumingja þetta fólk sem tók 100% myntkörfulánin hafi neyðst til að kaupa eignir á slíkum kjörum. Fyrst að ég, mín kona og börn höfum getað þreyjað þorrann í gegnum þessa eignabólugeðveikina án þess að taka þátt í þessum hrunadansi þá hefði þetta fólk alveg getað kyngt græðginni og leigt hóflegar kjallaraíbúðir á meðan það SAFNAÐI (kannast einhver við þetta orð lengur?) sér fyrir útborgun.

Leigjandi (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 09:58

4 identicon

Ætli sé hægt að fara í skaðbótamál gegn bönkunum og þeim sem komu okkur í þetta ástand.

Tók sjálfur 80% lán hjá íbúðalánsjóði og átti ca. 15% í útborgun og þurfti um 5% frá bankanum til að fjármagna restina.

Núna hafa láninn og sérstaklega frá bankanum hækkað óhóflega mikið vegna hækkunar á vöxtum og verðbæturnar hafa einnig mikil áhrif.

Þess vegna sem almennur borgari sem tók ekki þátt í þessu óhóflega sukki þ.e. á ekki nýjan bíl og ekki flatskjá og fl. veltir maður fyrir sér hvort hægt sé að fara í skaðabótamál gegn þeim sem urðu þess valdandi að ástandið sé svona slæmt.

Bjössi (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 10:02

5 identicon

Fráfær póstur "leigandi" . Segir blákaldann sannleikann !

Bara ef fleirri hefðu hugsað svona ! Græðgin og að vera einsog hinir kom mörgum í koll. Svo eigum við að borga brúsann !

 Nei takk

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 10:09

6 identicon

Ja hérna hér! Þvílík biturð og beiskja í fólki! Og það gegn blásaklausu fólki sem er að drulla á sig útaf lánum sem þeim var bent á að taka!!!!  Það var ekki ég sem tók stöðu gegn krónunni og lét hana hríðfalla eins og bankarnir gerðu vísvitandi!! Því er það ekki mér að kenna hvernig fór með mín myntkörfulán! Þetta hefur ekkert með græðgi að gera!

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 10:19

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sæll Hallur,

Veistu hvort hægt er að skila lyklinum þegar maður flytur út?  Ef ekki er hægt að selja húsnæðið nema með margra milljón króna skuld (húsnæði sem var aldrei veðsett yfir 80%) og maður hefur vinnu í útlandi og vill flytjast út, hvernig fer maður að?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.2.2009 kl. 10:52

8 identicon

Það er staðreynd að aukið aðgengi að lánsfé bæði hjá Íbúðarlánasjóði og bönkum hækkaði húsnæðisverð.  Þeir blésu út blöðruna sem núna mun springa með hvelli og 50-75% falli á húsnæðisverði á næstu mánuðum. Þegar við bætist gríðarlegt offramboð á húseignum, stórfellt atvinnuleysi og kjaraskerðing.  Íbúðarverð áður en hrunið kom var ekki í neinum tengslum við rauntekjur fólks.  Eins og undirritaður hef ótaloft bent á á fólk ekki að fá meira en 3 faldar árstekjur heimilis í heildarlán (bæðir hús, bíll og annað) þessar reglur voru virtar að vettugi. Fjármálakerfið hrunið og lánsfjárs og lausafjárskreppa.  Húsnæðismarkaðurinn er í raun botnfrosinn og í raun undarlegt að íbúðarverð er ekki þegar tekið að falla og hrynja.

Ef maður sér  egar maður sér á tölur fra Fasteignaskrá http://www.fmr.is/Markadurinn/Visitala-ibudaverds og maður skoðar vísitölu íbúðarverðs á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem fylgir á Excel skránni sést í raun margt athyglisvert.
Verð er nánast óbreytt frá 1994 til juni-ágúst 1998 þá er vísitalan 100, í júni 2005 nær vísitalan yfir 200 og ári seinna ágúst 2006 nær hún 300 og nær hámarki júní 2008 392 síðan hefur það lækkað smáræðis út 2008 en ég sé ekki tölur frá januar 2009.
Það er mjög raunhæft að verð fari niður í 1999 sem gæti þýtt 50%-75% verðfalli eigna.  Allar forsendur hruns eru til staðar, algjört frost er á markaðnum, gríðarlegt offramboð vegna þess að það hefur hreinlega verið byggt meira en þörfin er. Þetta kemur eins og sunmami bylgja og mun skolast yfir endurfjármagnaða banka og ennþá til að auka á vandræði fjármálakerfisins og ekki minnast á heimilin.

Spurningin er ekki hvort eða hvernig á að halda uppi verðinu.  Ríkið er að fótum fram getur nánast ekki fengið nein erlend lán nema á afarkjörum og á greinilge mjög erfitt með að endurfjármagna fjármálakerfið þ.á.m. bankanna og ÍLS fær ekki erlend lán.  Þeir sem keyptu í toppi og þurfa að selja í botni verða ristaðir.  Þetta hefur gerst í öðrum löndum 60% verðfall á eignum varð í bankakrsísunni í Noregi í kringum 1990 og minni á að Seðlabanki Svíþjóðar snöggfrysti hagkerfið með að hækka bindivexti í 200%  að vísu í stuttan tíma ásamt öðrum dramatískum aðgerðum.   Hvað gerist hér tekjur ríkisins eru áætlaðar um 400 miljarðar og útgjöldin 560 miljarðar (og gætu orðið mikið mikið hærri).  Það er verið að gera eitthvað fljótfærnislegt seðlabankafrumvarp til að reka Davíð úr Seðlabankanum....  Það er ekki verið að segja fólki að það verði ekkert við neitt ráðið þeir sem geta flotið flóta en hinir sökkva og verða gjaldþrota. 

Gunnr (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 11:00

9 identicon

Gott svar hjá leigjanda og að mörgu leiti rétt. 100% lán áttu eftir vill aldrei rétt á sér, hefðu allavega átt að hafa eitthvað þak. 

Hinsvegar er ekki hægt að setja þetta svona upp með verðtryggðulánin. Við sem tókum þau lán lítum til seðlabanka sem er með það hlutverk að halda niðri verðbólgu. Hann gefur upp verðbólgumarkmið 2,5%, en þar sem við erum skynsöm þá gáfum við okkur þann möguleika að verðbólgan gæti nú farið í 10% á slæmum tímum og sætti maður sig við það. Í dag er staðan allt önnur. 

Gengislánin hinsvegar voru aldrei lánuð 100% heldur max 80% ef ég man rétt. Margir tóku þau lán vegna ofurvaxta í landinu og hugsuðu sem svo að þó að krónan væri sterk þá mætti hún falla 30-40% án þess að þetta borgaði sig ekki, enda er höfuðstóllinn greiddur mun fyrr niður í þeim lánum en verðtryggðu þar sem höfuðstóllinn hækkar á hverju ári. Hinsvegar féll krónan talsvert meira en það en búist er þó við því að hún nái einhvertíma jafnvægi sem verður þá eitthvað í kringum þessi 30-40%. 

Mér finnst hinsvegar fáránlegt að það hafi aldrei farið athugun á því afhverju krónan varð alltof sterk. Hinsvegar um leið og hún fór að veikjast þá átti að setja nefnd á laggirnar til að skoða málið.

Það er líka vert að athuga að það hefur alltaf verið sú hugsun í landinu að það að leigja sé að kasta peningnum og að allir eigi alltaf að kaupa, annað sé bara rugl. Þannig er það nú oft þegar gömul tugga er tuggin lengi þá fer fólk að taka því sem heilögum sannleik. 

Það sem mér þykir þó verst við þetta allt saman er að við höfum tileinkað okkur í gegnum tíðina að hugsa í mánaðarafborgunum ekki í heildar útkomunni og sú hugsun virðist ekkert á leiðinni út. ASÍ og yfirvöld nota það einmitt sem gulrót að mánaðarafborganir hækka ekkert svo mikið af verðtryggðu lánunum og þess vegna eigum við bara að vera glöð með verðtrygginguna. Sorglegt.

Jón (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 11:02

10 Smámynd: Mama G

Hér koma fram ýmsir ágætir punktar, en sem 100% lántakandi get ég nú ekki kvittað undir það að það sé græðgi eða heimska að vilja búa börnum sínum og sjálfum sér varanlegt heimili og fjárfesta í því sambandi í blokkaríbúð.

Aðstæður eru mismunandi hjá fólki og á hverjum tíma gerir maður það sem maður telur vera skynsamlegast í stöðunni. Á sínum tíma var það skynsamlegast fyrir okkur að taka þessu 100% láni, enda hefur greiðslubirðin alltaf verið lægri en leiga alveg þangað til á þessu ári, mér sýnist hún vera um 10.000 meira á mánuði núna heldur en við værum að leigja.

Mínusstaða eða ekki breytir engu fyrir okkur þar sem við höfum engan hug á að flytja amk. næstu 5-10 árin. Við höfum engan beðið um að borga brúsann fyrir okkur, bara svo fólk viti það. Ég þarf enga niðurfellingu á mínar skuldir. Það eru ekkert allir bara í skítnum af því að þeir skulda einhverjar milljónir í íbúðunum sínum.

Mitt ákall, ef eitthvað, til ríkisstjórnarinnar er nú frekar að finna atvinnulausum eitthvað viðurværi, því svo framarlega sem maður hefur vinnu þá getur maður unnið sig út úr hlutunum. Við erum það lánsöm að vera ennþá bæði með okkar vinnu, enda má segja að kreppan komi hvergi við okkur nema á skattaskýrslunni, við lítum út fyrir að eiga ekkert nema bágt og skuldir þar

Gangi ykkur öllum vel með húsnæðismálin.

Mama G, 24.2.2009 kl. 11:19

11 Smámynd: Björn Finnbogason

Góð Mama G -you rock:-D  Fólk gleymir sér nefnilega oft í þessari umræðu um íbúðakostnað að hann er einmitt það!, =KOSTNAÐUR. 

Björn Finnbogason, 24.2.2009 kl. 11:41

12 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

þætti vænt um að heyra frá Halli?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.2.2009 kl. 21:00

13 Smámynd: Mama G

Anna, það er ekki hægt að skila lyklinum hérna á Íslandi og vera bara laus allra mála eftir það, sama hvort um er að ræða lán frá banka, ÍLS eða lífeyrissjóði.

Mama G, 26.2.2009 kl. 14:18

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Mama g...það eru átthagafjötrar!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.2.2009 kl. 14:43

15 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

....bíð enn eftir svari frá Halli"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.2.2009 kl. 00:05

16 Smámynd: Hallur Magnússon

Anna - fyrirgefðu - en mér yfirsást spurningin þín :)

"Veistu hvort hægt er að skila lyklinum þegar maður flytur út?  Ef ekki er hægt að selja húsnæðið nema með margra milljón króna skuld (húsnæði sem var aldrei veðsett yfir 80%) og maður hefur vinnu í útlandi og vill flytjast út, hvernig fer maður að?"

Því miður, þá er ekki hægt að skila lyklinum. Um er að ræða eign sem er veð fyrir viðkomandi láni. Ef þú hættir að greiða mun lánadrottinn ganga að eigninni - og mögulega kaupa hana á uppboði á verði sem gæti jafnvel verið langtum lægra en núverandi markaðsverð!

Mismunurinn á kaupverði eignarinna - og stöðu lánsins - er krafa sem lánadrottin á á þig.

Hjá Íbúðalánasjóði er ekki gengið að þér og öðrum eignum þínum en húsinu sjálfu.

Hjá öðrum er gengið að öðrum eignum þínum og þú sett í gjaldþrot.

Því miður þá er þetta svona.

Já, þetta eru átthagafjötrar!

Hallur Magnússon, 28.2.2009 kl. 09:28

17 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já ljótt er það...en þú færð þúsund þakkir fyrir greinargott svar!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.2.2009 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband