Áfram, ekkert stopp í málefnum utangarðsfólks í Reykjavík!
12.2.2009 | 13:58
Mikill árangur hefur náðst í málefnum utangarðsfólks í Reykjavík á undanförnum mánuðum og á næstunni munu verða tekin afar mikilvæg skref í heilbrigðis- og félagsþjónustu utangarðsfólks á grunni stefnu Velferðarráðs Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks.
Þetta kom meðal annars fram á morgunverðarfundi samráðshóps um málefni heimilislausra í morgun.
Ég er stoltur yfir því að eiga þátt í þessi starfi á sama tíma og ég geri mér grein fyrir að mörg stór skref eru framundan, ekki hvað síst hvað varðar úrlausnir fyrir heimilislausar konur.
Meðal jákvæðra hluta sem unnið hefur verið að á undanförnu er opnun fjögurra smáhýsa fyrir utangarðsfólks þar sem fólkið hefur fengið varanlega búsetu, fjölgun plássa í gistiskýli, samningur við SÁÁ um allt að 20 búsetuúrræði með miklum félagslegum stuðningi, tilkoma iðjuþjálfunar fyrir utangarðsfólk á vegum Velferðarsviðs í dagsetri Hjálpræðishersins þar sem Velferðarsvið leggur til iðjuþjálfa í 1/2 stöðugildi, nýtt 1/2 stöðugildi hjúkrunarfræðings og nýtt 1/2 stöðugildi félagsráðgjafa sem sinna skulu utangarðsfólki á vettvangi - en gert er ráð fyrir að á næsta ári verði stöðugildin heil.
Þá kom fram að Velferðarráð hyggst koma á fót nýjum búsetuúrræðum fyrir konur næsta vetur og að í gangi sé greiningar og undirbúningsvinna vegna þess. Einnig kom fram að í undirbúningi er sérstök úttekt á stöðu ungs heimilislauss fólks til þess að undirbúa markvissa aðstoð við það þar sem erfiðlega hefur gengið að ná til þess hóps .
Í fréttum ríkisútvarpsins í dag var frétt um að heimilislausar konur með geðrænan vanda dagi uppi á geðdeildum Landspítalans sökum skorts á búsetuúrræðum í borginni. Þarna er sjónum beint að ákveðnum vanda sem verður að taka á, en í viðtali við deildarstjóra á sértækri geðdeild Landspítalans kom fram að nýgengi í hóp kvenna með geðrænan vanda og vímuefnavanda sé mikið og þörf sé á húsnæði og stuðningi við þennan ört stækkandi hóp.
Reyndar kom það skýrt fram á fundinum að verið er að vinna að málefnum utangarðskvenna hjá Reykjavíkurborg og að nú standi yfir á vegum Velferðarsviðs greiningarvinna og undirbúningsvinna fyrir ný búsetuúrræði fyrir konur sem gert ráð fyrir að verði tekið í gagnið næsta vetur.
Þrátt fyrir að fréttamaðurinn hafi setið morgunverðarfundinn taldi hann ekki ástæðu til þess að halda þessari vinnu Velferðarsviðs og áformum um ný búsetuúrræði fyrir konur til haga - né að draga fram þær mikilvægu úrbætur sem gerðar hafa verið í málefnum utangarðsfólks að undanförnu og þær mikilvægu aðgerðir sem koma til framkvæmda á næstu vikum.
Mér hefði þótt ástæða til þess að geta þess mikla jákvæða sem er í gangi í málaflokknum - en ekki einungis einblína á þau verkefni sem skemur eru komin - en eru þó í undirbúningi og vinnslu.
Svona er nú fréttamat fólks misjafnt!
En málefnið sem fjallað var um í fréttinni er mikilvægt og ástæða til að beina sjónum að því. Þar liggur mikilvægt verkefni sem þarf að leysa!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér að það er árangur af ykkar starfi og það lofar góðu framhaldið.Sérstaklega húsbíllinn,sem er spennandi og svo iðjan.Þetta er að þokast í rétta átt og það er spennandi að fylgjast með framhaldinu.Það var góður fundurinn í morgun.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 14:31
Takk fyrir þetta Birna Dís
Hallur Magnússon, 12.2.2009 kl. 14:33
Ég styð heilshugar þetta starf og áherslur á málefni okkar verst stöddu meðsystkina. Staða þeirra er bara svo slæm og kraftur þeirra svo lítill að öll bið er þeim afar erfið. Er ekki til nægt húsnæði, atvinnulaust fólk, fagþekking og reynsla ? Hver er vandinn til að leysa máli. Peningar? Ágreiningur hver eigi að borga brúsann. Á Íslandi er engin opinber ástæða til að fólk sé á götunni. Jafnvel þótt kreppa sé. Upp með ermarnar og leysið málin. Þið hafið viðhorfin og hugarfarið sem þarf. Ekki tefja málið með athugunum, nefndum og óþörfu málæði. Það er til allt sem þar klárið málið.
Baráttukveðja. jat
Jón Tynes (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.