Stöndum vörð um Íbúðalánasjóð

Stöndum vörð um Íbúðalánasjóð. Oft var þörf en nú er það þjóðarnauðsyn. Það er raunveruleg hætta á því að stjórnvöld geti skaðað Íbúðalánasjóð verulega með illa ígrunduðum aðgerðum sem ætlaðar eru til að aðstoða heimilin í landinu og til þess að aðstoða banka og sparisjóði.

"Íbúðalánasjóður" hefur verið lausnarorð forsætisráðherrans við öllu því sem viðkemur íbúðalánum og stöðu heimilanna í landinu. Víst er Íbúðalánasjóður öflugur og vel rekinn sjóður sem leikur lykilhlutverk í húsnæðismálum Íslendinga. En það er unnt að eyðileggja hann þótt viljinn sé góður.

Við skulum ekki gleyma Byggingarsjóði verkamanna sem var ofarlega í huga núverandi forsætisráðherra á sínum tíma, en Byggingarsjóður verkamanna var illilega gjaldþrota á sínum tíma þótt hann hafi ekki verið gerður upp.

Staða sjóðsins ógnaði reyndar opinbera húsnæðislánakerfinu, en neikvætt eigið fé sjóðsins var nætti 30 milljarðar króna á núvirði. Sjóðurinn hafði étið upp eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins, þannig að stofnfé Íbúðalánasjóðs byggðist einungis á eigin fé húsbréfadeildar þegar Íbúðalánasjóður hóf starfsemi 1. janúar 1999.

Hugmyndir um að öll íbúðalán bankanna og reyndar allra fjármálafyrirtækja landsins verði færð inn í Íbúðalánasjóðs. Það getur verið stórhættulegt og stefnt núverandi styrk og jafnvægi Íbúðalánasjóðs í hættu. Við megum ekki skaða það góða og sterka sem við þó höfum.

Reyndar skil ég ekki af hverju færa á íbúðalán ríkisbankanna yfir í Íbúðalánasjóð. Auðvitað eiga bankarnir að halda áfram um lánin.

Ég hef lagt það til frá degi eitt að ef íbúðalán banka og sparisjóða verði fært til Íbúðalánasjóðs þá ætti ekki að setja þau inn í núverandi sjóð, heldur inn í dótturfyrirtæki Íbúðalánasjóðs sem yrði í hlutafélag alfarið í eigu sjóðsins. Þar fari endurskipulagning lánasafnsins fram, mögulega með nauðsynlegu framlagi ríkisins til eigin fjár dótturfyrirtækisins.

Þegar frá líður gætu bankar og sparisjóðir komið að slíku hlutafélagi sem gæti þróast í að verða fjármögnunaraðili fyrir banka og sparisjóði án beinnar ríkisábyrgðar. Íbúðalánasjóður haldi hins vegar áfram starfsemi á núverandi grunni með beinni ríkisábyrgð - sterkur Íbúðalánasjóður þjóðarinnar.

Hugmyndir þessar ríma við áherslu og tillögu Mats Josepssonar formanns nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, sem vill að komið verði á fót eignasýslufélagi,  sem muni hafa það hlutverk, annars vegar, að styðja endurreisn stærri fyrirtækja sem gegna mikilvægu hlutverki í íslensku efnahagslífi og, hins vegar, að endurskipuleggja félög og bjarga verðmætum sem glatast ef félögum fara í þrot.


mbl.is Unnið að endurreisn kerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

 Miðað við þær afskriftir á lánapökkunum sem Nýju Bankarnir eru að taka frá Gömlu, sýnist mér að það ætti að vera grundvöllur til að færa íbúðarlán bankanna yfir til Íbúðarlánasjóðs með góðum afslætti.

 Við verðum að vona að menn passi sig á að gera einu fjármálastofnun landsins sem ekki er gjaldþrota, gjaldþrota líka.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 11.2.2009 kl. 13:10

2 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hallur - aldrei hef ég verið framsóknarmanneskja en hef alltaf virt þá ákveðni þeirra á sínum tíma að verja Íbúðalánasjóð!

En varðandi Byggingarsjóð Verkamanna þá held ég að þú sem talsmaður verðtryggingar verðir að skoða þann þátt varðandi ,,greiðsluþrot" Byggingarsjóðs Verkamanna.  Á þeim tíma þar sem Byggingarsjóður verkamanna byggði mikið af húsnæði og seldi, var lánskjaravísitala  mjög, mjög óhagstæð.  Þá var kaupgjaldsvísitala tekin af, svo ansi margir fóru illa út úr því.  Blómaár Byggingarsjóðs verkamanna - Verkamannabústaða voru árin 1975 til 1985 og þú átt að vita hvernig verðbólgan var þá.

Ég hef haldið því fram að sú húsnæðisbóla sem fór af stað í BNA og hér m.a., hafi kannski eitthvað með það að gera að veita eða veita ekki félagsleg lán til kaupa á þeirri grunnþörf mannsins að eiga skjól fyrir sig og sína.

Talað er um að markaðurinn í BNA hafi hrunið vegna undirmálslána til almennings.

Hefðu hlutirnir þar farið á þann veg, ef stjornvöld þar hefðu haft félagsleg úrræði til kaupa á húsnæði?

Pólitíkin gerir þig stundum svo skelfilega ómarktækan, sem mér finnst mikil synd!

Óska eftir því að þú svarir mér varðandi Byggingarsjóð Verkamanna, sem og húsnæðisstefnu BNA

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 11.2.2009 kl. 16:33

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég bara spyr.. hefur íbúðalánasjóður einhverja peninga undir höndum í dag ?

Hvernig get ég krafist þess að fá lífeyririnn minn greiddan út svo menn eins og Gunnar í VR séu ekki að vasast með minn pening ?

Óskar Þorkelsson, 11.2.2009 kl. 18:24

4 Smámynd: Hallur Magnússon

Alma.

Verðtrygging hefur ekkert að gera með gjaldþrot Byggingarsjóðs verkamanna.

Hallur Magnússon, 11.2.2009 kl. 19:25

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Hvað varðar undirmálslán í BNA - þá var verið að lána til fólks sem gat aldrei staðið undir lánunum - og þau lán sett í skuldabréfavöndla.

Það eru allar líkur á því að ef BNA lánin hefðu verið verðtryggð annuitetslán - þá hefði hrunið ekki orðið eins og það varð.

Ástæða hrunsins var að þegar vextir snarhækkuðu þá hækkuðu afborganir strax - verulega - svona svipað og gjaldeyrislánin okkar hækkuðu verulega þegar krónan féll.

Ef við værum með sambærilegt kerfi - þá væri afborgun af íbúðalánunumokkar ekki að hækka um einhver örfá prósent - heldur væntanlega milli 20 - 30 % strax

kv

Hallur

Hallur Magnússon, 11.2.2009 kl. 19:30

6 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hallur - ég trúi vart mínum eigin eyrum þegar þú segir að að skuldir Byggingarsjóðs Verkamanna hafi ekki á sínum tíma aukist í takt við allar aðrar hækkanir vegna vísitölu.

Bara sorrý - Ég spurði þig hvort þú hefðir haldið að ástand mála í heiminum, vegna undirmálslána væri sú sem nú er, ef BNA væru með félagslegt húsnæðismálakerfi?

Hefði það fólk sótt í fjármagn hjá hinum frjálsu aðilum á kjörum sem vitað var að það myndi aldrei ráða við.

Endilega svaraðu málefnanlega

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 12.2.2009 kl. 20:13

7 Smámynd: Hallur Magnússon

Alma.

Ástæðan fyrir gjaldþroti Byggingarsjóðs verkamanna var ekki verðtrygging. Ástæðan var sú að lán til að fjármagna útlán voru tekin á jafnvel 10% vöxtum - en endurlánin voru á 1% eða 2,4% vöxtum.

Ríkisframlag til niðurgreiðslu vaxta dugði aldrei fyrir mismuninum.

Undirmálslánin í BNA voru fyrst og fremst í félagslega húsnæðiskerfinu. Fannie Mae og Freddy Mac voru félagsleg húsnæðiskerfi.

Er þetta nægilega málefnalegt fyrir þig?

Hallur Magnússon, 12.2.2009 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband