Tvístíft aftan hægra, hálft af aftan, fjöður framan vinstra!
8.2.2009 | 00:03
Tvístíft aftan hægra, hálft af aftan fjöður framan vinstra!
Þannig er nú eyrnamarkið mitt - sem reyndar hefur ekki verið notað um langt árabil - því ekki hef ég átt fé á fæti frá því á áttunda áratugnum. Þá átti ég reyndar kind sem ég fékk í sveitinni minni Hallkelsstaðahlíð fyrir vinnuna mína sem kúasmali og önnur viðvik.
Sumarhýran voru dilkar sem lagðir voru inn í Kaupfélag Borgfirðinga - lömbin undan kindinni minni henni Sollu. Þær krónur sem ég safnaði mér í kaupfélaginu brunnu upp í óðaverðbólgunni minnir mig - enda verðtrygging ekki komin til sögunnar.
Ástæðan fyrir því ég rifja þetta upp er sú að ég var að rekast á námsritgerð sem ég skrifaði í þjóðháttafræðikúrs þegar ég var í sagnfræði- og þjóðfræðináminu:
Hallur Magnússon. 1984. Um sauðfjármerkingar á Íslandi. Óprentuð námsritgerð í vörslu Þjóðminjasafns Íslands.
Reyndar var ritgerðin prentuð í Handbók bænda minnir mig - þannig hún er til á prenti! Hef alltaf séð eftir að hafa ekki látið prenta sérprent úr handbókinni. Geri það kannske einhvern daginn!
Ástæða þess að ég fékk áhuga á sauðfjármerkingum var sú að föðurbróðir minn - Einar Hallsson heitinn í Hallkelsstaðahlíð var einn allra fjárglöggasti maður Íslands - og safnaði markaskrám - mörkum afar gömlum og merkum. Hann vissi um öll nöfn allra á öllum bæjum alls staðar - fannst mér allavega - og þuldi þau upp eins og að drekka vatn. Vissi líka hverjir höfðu fengið mörk í arf frá hverjum.
Mitt mark - Tvístíft aftan hægra, hálft af aftan, fjöður framan vinstra - var í eigu langafa míns - Magnúsar Magnússonar.
Pabbi heitinn - Magnús Hallsson húsasmíðameistari - átti tvístíft aftan hægra, hálft af aftan, biti framan vinstra.
Ekki veit ég hversu lengi pabbi átti fé - en hann hélt að heiman 16 ára að nema smíðar - og bjó ekki aftur í Hallkelsstaðahlíð - heldur í Borgarnesi á námsárunum og síðar Reykjavík þar sem hann stofnaði fjölskyldu og bjó til dauðadags.
Meira um sveitina mína Hallkelsstaðahlíð - þar sem kornung frænka mín og fyrrum varaþingmaður Framsóknarflokksins á Vesturlandi Sigrún Ólafsdóttir ræður ríkjum með manni sínum - og föðurfólkinu mínu - er að finna hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:11 | Facebook
Athugasemdir
Ég átti sneitt aftan hægra og blaðstýft framan vinstra. Kveðja.
Eyþór Árnason, 8.2.2009 kl. 15:08
Er að velta því, í gamni mínu, fyrir mér hvernig túlka má markið þitt svona í pólitísku samhengi. Bráðabirgðaniðurstaðan er sú að sem miðjumaður ertu meira hallur til vinstri. Ég held að ekki verði dregin fjöður yfir það.
kv.jat
Jón Tynest (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 16:16
Undirrituð skráði hér til forna og 'kunni' svo til öll fjármörk á Vestfjörðum - of löng saga það ;)
Hef gaman af frásögn þinni, Hallur vegna þessarar gömlu 'þekkingar' !
Er markið þitt ekki oggulítið blóðugt? - Þó ekki sé það neitt í líkingu við alvöru soramörk. - hið frægasta þeirra mun víst: "þrífrifað í þrístýft og þrettán rifur ofan í hvatt"
Hlédís, 8.2.2009 kl. 16:29
Vildi ég ykkar eyrum á
undur og skelfing það er satt
þrírifað og þrístýft sjá
þrettán rifur oní hvatt
Þetta sagði skrattinn víst þegar hann leit yfir hóp íslenskra presta.
En jú, þótt þetta sé ekki soramark - þá er það dálítið blóðugt. Enda vorkenndi ég lömbunum í gamla daga þegar markað var!
Soramark allra soramarka var náttúrlega "afeyrt".
Það mark var í eigu Skálholtsbyskups - og síðar konungs.
Þannig gátu þessir herramenn gert tilkall til alls þess fjár sem þar sem mörk vöru ógreinilegt vegna mýbits eða hvers annars sem kunni að hafa laskað mörkin.
Hallur Magnússon, 8.2.2009 kl. 18:37
Hafði heyrt minnst á afeyrt, en það var nú ekki meðal vestfirsku markanna sem ég skráði á sínum tíma :) Markið á mínum bæ var undur létt og nett! Man það þó ekki lengur neitt nákvæmlega. Bóndinn er löngu látinn - hafði átt markið frá lokum 19. aldar er hann var ungur drengur.
Hlédís, 8.2.2009 kl. 18:52
... enda hafa soramörk verið bönnuð lengi
Hallur Magnússon, 8.2.2009 kl. 19:22
Ég hefði alveg trúað að markið þitt væri allt af bæði!
En........gangi vel í framboðsbaráttunni
EG (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 12:45
EG
Alltaf bæði! Sniðugt :)
En án gríns - þá var þetta eyrnamark andskotans. Vonandi er ég ekki svo ógnandi
Hallur Magnússon, 9.2.2009 kl. 22:19
"Aldrei má nú ekki neitt" sagði sú eina sanna kelling!
Bændur fá ekki einu sinni að skoða markaskrána og taka í nefið í friði fyrir ip-tölum
Hlédís, 9.2.2009 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.