Hallkelsstaðahlíð heimabær íslenskra gæðinga og úrvals sauðfjár!
26.12.2008 | 15:40
"Okkar ræktunarmarkmið er einfalt, það er að rækta íslenska gæðinga" segir frænka mín Sigrún Ólafsdóttir bóndi í Hallkelsstaðahlíð á nýrri heimasíðu, en hún og eiginmaður hennar Skúli Skúlason voru að opna vefsíðuna http://www.hallkelsstadahlid.is/
Það er frábært framtak að opna heimasíðu til að kynna það sem þau eru að vinna að á þessum myndarlega bæ innst í Hnappadal þar sem er einn fallegasti staður á Íslandi!
Tamningar, hestarækt og sauðfjárbúskapur er lífsviðurværi fólksins í Hallkelsstaðahlíð. Reyndar er þar að finna nokkrar hænur, ketti, þar af einn grimman norskan skógarkött og hunda, þar af bæði íslensku og erlendu kyni.
En það eru ekki lengur kýr í dalnum en fáar kýr voru eins geðgóðar og hin frábæra Búbót sem mjólkaði og mjólkaði og mjólkaði. Kynntist henni vel þau ár sem ég var kúasmali í Hlíð.
Ekki má heldur gleyma því að Hlíðarvatn er afar gott silungsveiðivatn.
Sigrún og Skúli hafa tamið á annað þúsund hross gegnum tíðina, en þau eru þekkt fyrir afar góðar frumtamningar. Enda talar Sigrún hrossin til svona eins og hún getur talað til kallana hvar sem hún kemur - enda var hún varaþingmaður um skeið. Við hin misstum vænt landbúnaðarráðherraefni þegar hún ákvað að hætta í pólitík og einbeita sér að búrekstrinum.
Þá hafa þau staðið í hrossaræktun um langt árabil.
Sauðfjárræktin í Hallkelsstaðahlíð á sér langa sögu, en sá stofn sem nú er ræktað útaf á ættir sínar að rekja í Vestur- Barðastrandasýslu. Árið 1950 í kjölfar niðurskuðrar vegna mæðuveiki var sóttur nýr stofn meðal annars frá bæjunum Vesturbotni, Hvestu og Fífustöðum í Barðastrandasýslu.
Þennan stofn hafa svo bræðurnir Einar, Ragnar og Sveinbjörn Hallssynir ræktað með góðri aðstoð áhugasamra ættingja... - eins og segir á vefsíðunni.
Endilega kíkið á vefsíðuna www.Hallkelsstadahlid.is og fylgist með lífi og starfi íslenskra nútímabænda.
Sigrún og Skúli!
Til hamingum með síðuna!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.12.2008 kl. 21:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.