Þorleifi Gunnlaugssyni VG barst ekki tölvupóstur frá mér um Unglingasmiðjur
15.12.2008 | 21:01
Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi Vinstri grænna og fulltrúa þess flokks í Velferðaráði sendi fjölmiðlum um helgina tölvupóst sem 16 ára stúlka hafði sent fulltrúum í Velferðaráði, en stúlkan hefur notið þjónustu Unglingasmiðja á vegum Velferðasvið vegna áfalla sem hún hefur orðið fyrir.
Í bréfinu koma fram afar viðkvæmar upplýsingar um hagi stúlkunar. Þorleifur ákvað að senda tölvupóst stúlkunnar til fjölmiðla í pólitískum tilgangi, en láðist að má út nafn stúlkunnar.
Að mínu mati er það athæfi að framsenda fjölmiðlum tölvupóst 16 ára stúlku með persónulegum upplýsingum um hana og staðhæfingum sem greinilega byggja á misskilningi stúlkunnar um ákveðna þætti sem hún er að mótmæla, með öllu óafsakanlegt, jafnvel þótt nafn stúlkunnar hafi verið máð út.
Hins vegar hef ég skilning á því að Þorleifi hafi yfirsést að má nafn stúlkunnar út. Það breytir ekki að verknaðurinn var ekki við hæfi þótt nafn hefði ekki fylgt, en verður óafsakanlegur þegar nafnið slæðist með og ljóst er hvaða stúlku um er að ræða. Reyndar eru allar líkur að ef vilji hefði verið fyrir hendi, þá hefði verið unnt að rekja hver bréfritari er þótt nafnið hefði ekki fylgt.
Hafi stúlkan og foreldar stúlkunnar viljað að bréfið færi til fjölmiðla - en vert er að undirstrika að þegar barn hefur náð 15 ára aldri þá fær það samkvæmt barnaverndarlögum ríkan rétt til að tjá sig um mál er það varðar - þá hefði hún eða foreldrarnir sjálfir átt að koma því til fjölmiðla með tilheyrandi skýringum - en ekki fulltrúi í Velferðaráði! Það er í besta falli ekki við hæfi!
Ég var afar undrandi á því að Þorleifur skyldi framsenda tölvupóst sem fulltrúar í Velferðaráði fengu frá 16 ára unglingi - áfram til fjölmiðla í pólitískum tilgangi
Enn slegnari varð ég yfir því að Þorleifi hafi láðst að má út nafn stúlkunnar.
En fyrst Þorleifur valdi að gera þetta þá undraði það mig mjög að hann léti ekki fylgja svör þau sem ég hafði sent stúlkunni sem varaformaður Velferðaráðs í fjarrveru formanns, við spurningum sem hún spurði, leiðrétta ákveðinn misskilning sem fram kom í bréfinu og setja fram þau rök sem lágu að baki tillögu að breytingum á starfi unglingasmiðja.
Þessi svör mín - og svarpósta stúlkunnar - hafði ég sjálfkrafa sent á þá sem stúlkan hafði sent upphaflega póst sinn - það er fulltrúa í Velferðaráði.
Þorleifur hefur tjáð mér að hann hafi ekki fengið þessa pósta. Það staðfestist þegar póstsamskiptin eru skoðuð - einhverra hluta vegna fékk Þorleifur ekki svarskeytin eins og aðrir meðlimir Velferðaráðs. Væntanlega vegna þess að einungis nafn hans - en ekki netfang - var ritað í haus tölvuskeytisins með bréfi stúlkunnar og ég fékk sent með tölvupósti.
Ég gagnrýndi Þorleif á bloggi mínu fyrir að hafa ekki látið svör mín fylgja fyrst hann ákvað að senda tölvupóst stúlkunnar á fjölmiðla.
Sú gagnrýni mín var ekki réttmæt þar sem hann var ekki með svör mín undir höndum.
Ég bið Þorleif því afsökunar á því að hafa sakað hann um að hafa vísvitandi skilið svör mín eftir þegar hann áframsendi tölvupóst stúlkunnar. Það var greinilega ekki vísvitandi gert.
Hins vegar afsakar það á engan hátt framferði Þorleifs - að senda til fjölmiðla í pólitískum tilgangi persónulegt bréf 16 ára barns til fulltrúa í Velferðaráði.
EKki veit ég hvernig Þorleifur og Vinstri grænir ætla að taka á þessum alvarlegu mistökum. Það er þeirra mál.
En ég get fullvissað lesendur að ef um Framsóknarmann hefði verið að ræða - þá væri málið litið afar alvarlegum augum og við í borgarmálahóp Framsóknarflokksins myndum að minnsta kosti biðja fulltrúa okkar í sambærilegri stöðu að íhuga að segja af sér. Enda hefð að myndast í Framsóknarflokknum að flokksmenn taki ábyrgð á mistökum sínum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Facebook
Athugasemdir
Gott hjá þér að biðja hann afsökunar Hallur. Ég er búinn að lesa það sem þú hefur skrifað um þetta mál, mér finnst það afskaplega snúið. Stúlkan sendir ykkur öllum póst með ósk um að senda það til fjölmiðla. Er pósturinn ekki túlkað bókað sem erindi inn á fund ráðsins? Hvaða verklag gildir hjá ykkur, þarf ekki velferðaráð að fjalla um beiðnina og komast að niðurstöðu um meðferð beiðninnar og bóka það? Þannig að Þorleifur og Vg tóku bara beina vinstri beygju í óþökk ráðsins? Með þessum ótrúlegu afleiðingum. Munt þú hugsanlega sem fulltrúi Framsóknarflokks í ráðinu lýsa yfir vanhæfi á Þorleif í ráðinu?
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 21:10
Einar Áskelsson.
STÚLKAN BAÐ EKKI UM AÐ ÞETTA YRÐI SENT TIL FJÖLMIÐLA!
Hún sendi hins vegar afar persónulegan póst til fulltrúa í Velferðaráði þar sem hún lýsir ákveðnum áhyggjum sínum út af ákveðnum málum sem eru til meðferðar í ráðinu. Bréfið var ekki sent ráðinu formlega.
Þorleifur sendir þetta bréf stúlkunnar hins til fjölmiðla að eigin frumkvæði ekki að frumkvæði stúlkunnar og fjölskyldu hennar.
Ég mun ekki lýsa yfir vanhæfi Þorleifs. Vinstri grænir og Þorleifur verða að leggja mat á það sjálf hvort það sé eðlilegt að hann starfi þar áfram í kjölfar þessa.
Hallur Magnússon, 15.12.2008 kl. 21:39
Afsakaðu innilega miskilninginn Hallur. Hef greinilega ekki lesið nógu vel úr því ég túlkaði þetta þannig. En mig minnti að ég hafi rekist á það einhvers staðar (ekki hjá þér) að bréfið hafi verið sent með þeirra samþykki. Þá finnst mér málið vera enn alvarlega, eins og þú hefur verið að benda á. Gjörningur Þorleifs sem embættismanns er þá óskiljanlegur en mannleg mistök geta allt átt sér stað alls staðar. En ég skil varla að þið getið treyst manninum áfram, hvað þá aðrir Reykvíkingar. Vinstri Grænir taka þá vonandi á málinu.
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 21:50
Hallur! Ekki æpa svona! Það gerir málstað alltaf ótúverðugri.
Hlédís, 15.12.2008 kl. 22:08
Hlé-Guðm!!!
Ég skal reyna að blogga með aðeins lægri röddu.
Veit að Ármann vinur minn Jakobsson er þér sammála.
Hallur Magnússon, 15.12.2008 kl. 23:20
Ég myndi ekki skrifa meira um þetta. Þetta fer að verða persónulegt fyrir fjölskylduna
Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 23:22
Hallur! Eru ekki pólitískir fulltrúar bundnir af lögum um þagnarskyldu eins og starfsmenn velferðarráðs. Ég er hræddur um að starfsmaður ráðsins fengi pokann sinn fyrir svona háttarlag. Mér finnst að Þorleifur ætti að segja af sér sem fulltrúi í velferðarráði hann hefur brugðist trausti og siðferði sem verður að ætlast til af pólitískum fulltrúa í velferðarráði.
Jón Tynes (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 23:22
Guðrún.´
Sammála þér. Þetta hefði aldrei átt að komast í fjölmiðla yfir höfuð. Ég varð hins vegar að leiðrétta ásakanir mínar gagnvart Þorleifi.
Hallur Magnússon, 16.12.2008 kl. 07:18
Algerlega sammála Halli, það eina sem ég hef heyrt um þennan mann Þorleif Gunnlaugsson borgarfulltrúi Vinstri grænn, er þessu ömurlegu misstök sem menn eiga bara að hætta og hleypa öðrum að.Fylgist nokkuð mikið með borgarmálum og að maður heyri fyrst um hann núna er brandari, ég er ekki í framsókn og hef aldrei verið, en þetta mál á taka út úr umræðunni og hvað heitir hann aftur?? Já, Þorleifur!! einfalt bara hætta og snúa sér að öðru.
kv.
Steinar
Steinar Kristjánsson, 16.12.2008 kl. 08:12
Komdu sæll Hallur
Hef sett þetta inn að mestu á öðrum stað en endurorða og bæti við til að svara ýmsu í þínu máli. Mér rennur blóðið til skyldunnar þar sem umræddur Þorleifur er víst pabbi minn.
—
Svo enginn misskilningur sé um málið þá var atburðarrásin svona:
- á föstudaginn talar Þorleifur við stúlkuna og móður hennar. Þar sem honum fannst bréfið vera þess eðlis að það ætti erindi við fjölmiðla þá bað hann um leyfi þeirra til þess að senda það áfram. Þær samþykktu það eins og kom fram í yfirlýsingu þeirra : “Foreldrarnir vilja taka það skýrt fram að umrætt bréf hafi verið sent fjölmiðlum með samþykki dóttur þeirra og einnig þeirra samþykki og vitund. Þannig sé í engu við borgarfulltrúann að sakast.” Þau voru þó sammála um að Þorleifur myndi taka nafn stúlkunnar út.
- á laugardaginn fær Þorleifur símhringingu frá RÚV þar sem honum er m.a. sagt að bréfið hafi borist en að hann hafi gleymt að taka nafn stúlkunnar út á einum stað. Þegar upphaflega bréfið til fjölmiðla er skoðað sést klárlega að þetta eru mistök enda segir hann “Tek nafnið út”. Í framhaldi af þessari símhringingu frá RÚV talar hann við stúlkuna og móður hennar aftur og segir þeim frá þessum mistökum sínum og biðst að sjálfsögðu afsökunar.
Ég dreg engan dul á að það eru leiðinleg mistök af hans hálfu að hafa sent nafn stúlkunnar með bréfinu. En rétt skal vera rétt. Bréfið var sent með fullu samþykki og vitund foreldra og stúlku.
Þú segir að frumkvæðið hafi komið frá Þorleifi. Með því ertu að ég held að reyna að skjóta þeim rótum að þetta hafi ekki verið með leyfi stúlkunnar. Það er alls ekki rétt. Þú segir einnig í athugasemd að stúlkan hafi ekki beðið um að bréfið yrði sent til fjölmiðla. Það er í besta falli illa orðað hjá þér. Í versta falli er það einfaldlega lygi. Ég vísa þér aftur á að lesa yfirlýsingu sem stúlkan og foreldrar hennar sendu út vegna málsins.
Mistökin sem Þorleifur gerði voru mannleg og ekki sprotinn af neinum illvilja eða græsku enda hefur hann barist fyrir þessum málefnum af miklum heilindum. Það veistu þú að ég held mjög vel. Eða ættir að vita.
Ég er að sjálfsögðu ekki hlutlaus í málinu og gæti varla talist mannlegur ef ég styddi ekki minn eigin föður. Líklega má halda því fram með góðu móti að allt sem ég segi um málið sé markleysa. En ég vildi samt segja nokkur orð í viðbót.
Það er vel skiljanlegt að fólk sé reitt í því ástandi sem nú er uppi. Heilt land rambar á barmi gjaldþrots. Það er varla til það heimili í landinu sem hefur ekki stórskaðast á undanförnum mánuðum. Og það er vel skiljanlegt að reiðin beinist að stjórnmálamönnum. Þetta ástand er að mínu mati eldsneytið sem hefur drifið þetta mál sem hér er til umræðu.
Ég er mjög hlynntur því að stjórnmálamenn segi af sér ef þeir gera mistök eða brjóta af sér í starfi. En það hljóta að vera einhver mörk í því sambandi. Mistök eru mis alvarleg. Skaðinn sem hlýst af þeim og viljinn sem liggur að baki eru að mínu mati stærstu tveir þættirnir í því að ákvarða alvarleika mistaka og brota.
Af þessu leiðir að umrædd mistök voru að mínu mati alls ekki þessleg að þau ættu að leiða til afsagnar. Skaðinn var lítill sem enginn, viljinn góður og allir hlutaðeigandi styðja Þorleif áfram í sínu starfi, þ.m.t. stúlkan og foreldrar hennar.
Annars bið ég þig bara vel að lifa og óska þér og öðrum gleðilegra jóla.
Halli
Haraldur Ingi Þorleifsson (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 16:13
Ágæti Haraldur.
Áður en ég held lengra - þá vil ég undirstrika að ég tel að faðir þinn meini vel - hef aldrei efast um það.
En í þessu máli sýndi hann fullkomið dómgreindarleysi og fer langt yfir strikið.
Ekki gleyma því að á föstudaginn var fundur þar sem meðal annars var farið mjög ítarlega yfir málefni unglingasmiðjanna og farið nákvæmlega yfir kosti og galla þess að breyta núverandi fyrirkomulagi.
Bendi á að faðir þinn lagðist einn gegn breygingunum - en fulltrúar Samfylkingar og óháðra sátu hjá - ekki vegna þess að þau fylgdu ekki breytingunum - heldur vegna þess að þau vildu bæta fjármagni í verkefnið til þess að geta sinnt enn fleirum en unnt var og er að gera að óbreyttu.
Ég skil það sjónarmið - en því miður er fjárhagslega staða okkar þannig að það kanna að vera mikilvægara að nýta peningana annars staðar frekar en að auka þessa starfsemi að sinni.´
Á fundinum var lögð fram tillaga Samfylkingar og óháðra þar sem lagt var til að hækka fjárframlagið í verkefnið - en þó ekki með óbreyttu formi unglingasmiðjanna heldur breyttu formi. Þeirri tillögu var frestað fram yfir helgi til að skoða málið betur. Það hefði kannske verið ástæða til þess að sjá hvernig þeirri tillögu reiddi?
Það er ámælisvert að faðir þinn hafi haft samband við stúlkuna og fjölskyldu hennar með það að markmið að fá leyfi þeirra til að senda bréfið - sem sent var á hann sem fulltrúa í Velferðaráði - til fjölmiðla í greinilegum pólitískum tilgangi.
Gerir þú þér grein fyrir því að það hefði getað verið erfitt fyrir stúlkuna að neita slíku þótt hún væri þessu ósammála - í ljósi þess aðhún er einungis 16 ára og að tala við borgarfulltrúa og fulltrúa í Velferðaráði sem mögulega er að vekja henni vonir um að með slíku þá væri hún að koma í veg fyrir breytingar sem hún er á móti - þótt þær breytingar hafi reyndar engin áhrif á hana þar sem hún klárar sína dvöl í núverandni kerfi? Það þarf sterk bein til þess að stands gegn slíku - ef hún hefði viljað gerta það!
Faðir þinn hafði allar forsendur til þess að koma á málefnalegan hátt sínum sjónarmiðum á framfæri við fjölmiðla - enda hafði hann bókað um málið í Velferðaráði.
Ef fjölskyldan hefðiviljað að fjölmilar fengu skeytið - þá hefði fjölskyldan átt að senda það - ekki pólitískur borgarfulltrúi sem er að nota málið í pólitískum tilgangi - og í besta falli á gráu svæði!
Þú segir um mig: "Það er í besta falli illa orðað hjá þér. Í versta falli er það einfaldlega lygi." þegar ég segi að frumkvæði þess að faðir þinn fór fram á það við fjölskylduna að hann fengi að senda bréfið fjölmiðlum. Finnst þér þú ekki vera kominn á hálan ís? Ertu að segja að frumkvæðið hafi ekki komið frá föður þínum? Bað stúlkan um að bréfið yrði birt í fjölmiðlum?
Mistökin sem faðir þinn gerir - þótt af góðum hug hafi verið - eru mjög alvarleg! Hann er að beita fyrir sig persónulegu bréfi 16 ára stúlku - sem faðir þinn fer fram á að beita í pólitískum tilgangi í fjölmiðlum. Hann er að misbeita stöðu sinni sem fulltrúi í Velferðaráði til þess að fá 16 ára stúlku til að samþykkja að nota persónulegt bréfi hennar í pólitískum tilgangi á opinberum vettvangi.
Mér þykja slík mistök alvarlegri en mistök sem byggja á misbeitingu dauðra hluta. En það er mín skoðun.
Ítreka það sem ég sagði í niðurlagi þeirra athugasemdar sem þú vitnar til:
"EKki veit ég hvernig Þorleifur og Vinstri grænir ætla að taka á þessum alvarlegu mistökum. Það er þeirra mál.
En ég get fullvissað lesendur að ef um Framsóknarmann hefði verið að ræða - þá væri málið litið afar alvarlegum augum og við í borgarmálahóp Framsóknarflokksins myndum að minnsta kosti biðja fulltrúa okkar í sambærilegri stöðu að íhuga að segja af sér. Enda hefð að myndast í Framsóknarflokknum að flokksmenn taki ábyrgð á mistökum sínum."
Virði það við þig að þú viljir verja föður þinn á þennan hátt.
Mér finnst meira en níog komið af þessu máli á opinberum vettvangi og mun ekki ræða það frekar á bloggi mínu.
Hallur Magnússon, 16.12.2008 kl. 18:13
Smjörklípa, smjörklípa, smjörklípa.
Ertu ekki að gleyma aðalatriði málsins Hallur? Lokun Stígs og Traðar?
Ég á stúlku á Stíg - hefur þú átt ungling þar? Líklegast ekki. Því ef svo væri þá sæir þú líklegast hverstu gerræðislegt það er að loka þessum stöðum. Eða eins og þið segið - breyta fyrirkomulagi á starfseminni. Sem fyrir okkur sem eigum unglinga á Stíg og Tröð þýðir sama og lokun. Ég hef ekki áhuga á að fara nánar út í þessi mál hér í þessari athugasemd en ef þú vilt ræða málið nánar þá er ég í símaskránni.
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 17.12.2008 kl. 10:44
Sæll aftur Hallur og takk fyrir svarið
---
Byrjum á smá orðhengilshætti. Ég átta mig nefnilega ekki á því hvort þú sért viljandi að snúa útúr eða hvort þú hafir misskilið mig.
- Ég segi: "Þú segir einnig í athugasemd að stúlkan hafi ekki beðið um að bréfið yrði sent til fjölmiðla. Það er í besta falli illa orðað hjá þér. Í versta falli er það einfaldlega lygi."
- Þú segir hinsvegar og telur þig vitna í mig "Þú segir um mig: "Það er í besta falli illa orðað hjá þér. Í versta falli er það einfaldlega lygi." þegar ég segi að frumkvæði þess að faðir þinn fór fram á það við fjölskylduna að hann fengi að senda bréfið fjölmiðlum."
- Það sem ég sagði um frumkvæðið var hinsvegar eftirfarandi: "Þú segir að frumkvæðið hafi komið frá Þorleifi. Með því ertu að ég held að reyna að skjóta þeim rótum að þetta hafi ekki verið með leyfi stúlkunnar. Það er alls ekki rétt. "
Það sem ég var að benda á er að þegar þú segir "STÚLKAN BAÐ EKKI UM AÐ ÞETTA YRÐI SENT TIL FJÖLMIÐLA!" þá má vel skilja þá setningu þannig að hún hafi ekki viljað að bréfið færi til fjölmiðla. Það er í raun þannig sem ég held að flestir skilja þá setningu. Þessvegna segi ég um þá setningu að hún er í besta falli illa orðuð og í versta falli lygi.
Orðin um frumkvæðið voru hinsvegar ekki jafn blekkjandi en ég held að fjöldi fólks sem lesi þá setningu túlki hana einnig þannig að hún hafi verið send í óþökk stúlkunnar og foreldra hennar. Sem er eins og margoft hefur komið fram alls ekki satt.
Þetta vonandi leiðréttir misskilning þinn á því því máli.
---
En komum okkur að kjarna málsins.
Ef ég skil þig rétt þá er það alvarlega í málinu ekki að nafn stúlkunnar hafi fyrir mistök farið með bréfinu til fjölmiðla. Þitt mat er að mér skilst það að alvarleikinn liggji í því að Þorleifur hafi á einhvern hátt misnotað stúlkuna. Þetta þykir mér ansi alvarleg ásökun og ef rétt væri þá væri ég sammála þér. Hann ætti þá að sjálfsögðu að víkja.
Ég hef umgengist Þorleif í rúm 30 ár. Hann er vissulega fínn náungi og með sterkar skoðanir en mér vitandi hefur hann aldrei verið þeim persónutöfrum búinn að hann geti látið fólk gera hluti gegn sínum eigin vilja (mér vitandi hefur hann heldur aldrei viljað láta fólk gera neitt gegn sínum vilja en látum það liggja milli hluta.)
Sú afstaða sem þú tekur í þessu máli byggir sem sagt á því að Þorleifur hafi ekki bara fengið þessa stúlku til að gera eitthvað sem hún hafi mögulega haft eitthvað á móti heldur einnig að hann hafi í krafti stöðu sinnar geta snúið uppá foreldra stúlkunnar. Ekki bara í eitt skipti, þegar hann fékk leyfið, heldur síðan aftur, þegar þau sendu út yfirlýsingu um að þetta hafi verið með vitund þeirra og vilja.
Í þínum huga virðist þetta fólk allt saman vera viljalaus verkfæri Þorleifs. Ég verð að viðurkenna að ég hef hvorki hitt fólkið né haft af því aðrar spurnir en það sem komið hefur fram í fjölmiðlum en af því sem ég hef séð virðist bæði stúlkan og foreldrar hennar vera alveg fær um að gera upp sinn eigin hug til þeirra mála sem snerta þau á eins persónulegan hátt og þetta mál.
Ef þú veist til þess að þetta fólk sé á einhvern hátt vanhæft til að fjalla um eigin málefni þá væri gott að fá það fram. Ef ekki þá væri eðlilegast ef þú gerðir þeim ekki upp aumingjaskap.
Það hefur lengi verið baráttumál hjá þeim sem þurfa að nota velferðarþjónustuna að þeir fái aðgang að ákvarðanatöku. Slagorðið "ekkert um okkur, án okkar" hefur verið notað. Þegar kvótakerfið er til umfjöllunar þykir sjálfsagt að talsmenn LÍÚ hafi sig í frammi. Það eru ekki gerðar breytingar á lögum um lífeyrissjóði án þess að kalla til viðkomandi hagsmunaaðilar.
Það sama á að sjálfsögðu að eiga við um velferðarmál. Og líklega miklu frekar þar sem þarna er um að ræða þjónustu sem snertir fólk á mjög svo persónulegan hátt. Sumir virðast aftur á móti líta svo á að best sé að sérfræðingar og stjórnmálamenn stjórnist með líf þessa fólks algjörlega án þeirra aðkomu. Ég vona að þú sért ekki í þeim hópi.
---
Ég ítreka að lokum jólakveðjur og bestu óskir til þín og þinna
Halli
Haraldur Ingi Þorleifsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 17:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.