Framsókn: Alþingi samþykki þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við ESB strax!

Hinn ungi og öflugi þingmaður Framsóknarflokksins - Birkir Jón Jónsson - hefur aftur tekið af skarið í Evrópumálum. „Ég mun leggja fram þingsályktunartillögu í haust um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarviðræðna um Evrópusambandið” segir Birkir Jón í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Birkir Jón mun með þessu koma í framkvæmd stefnu Framsóknarflokksins um að ákvörðun um það hvort gengið verði til viðræða við Evrópusambandið verði tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þar með er hvorki Framsóknarflokkurinn né Birkir Jón að taka afstöðu til þess hvort ganga eigi í Evrópusambandið - slík ákvörðun verði ekki tekin fyrr en niðurstöður aðildarviðræðna liggi fyrir - enda verði sú ákvörðun einnig tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu!

Birkir Jón segir í frétt Viðskikptablaðsins:

 „Það kom skýrt fram að það væri hvorki lagalega né pólitískt hægt að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið,” en Birkir Jón Jónsson er einn nefndarmanna í Evrópunefndar ríkisstjórnarinnar sem fundaðu með embættismönnum í Brussel í vikunni.

"Þeir fundir sem við höfum átt hér hafa sannfært mig um að það sé algjörlega óraunhæft að taka upp evru án þess að ganga í ESB,” sagði Birkir Jón.

"Ég er enn sannfærðari um það en áður að það er ekkert annað í stöðunni en að hefja aðildarviðræður,” sagði Birkir og kvaðst telja slíkar viðræður eitt af brýnustu hagsmunamálum Íslands um þessar mundir, segir í frétt VB.

Það verður spennandi að sjá hvernig Alþingi bregst við þingsályktunartillögu Birkis Jóns. Samfylkingin mun að sjálfsögðu greiða henni atkvæði sitt ef sá annars ágæti flokkur meinar eitthvað með Evrópustefnu sinni.  Það gera 18 atkvæði.

Ég geri ráð fyrir því að þingflokkur Framsóknarflokksins mun allir styðja stefnu Framsóknarflokksins og greiða tillögunni atkvæði sitt. Það gera 7 atkvæði.

Jón Magnússon þingmaður Frjálslyndad flokksins mun greiða tillögunni atkvæði sitt ef hann ætlar ekki að víkja frá Evrópustefnu sinni - sem ég á erfitt með að sjá.   Gera má ráð fyrir að amk einn þingmaður Frjálslyndra muni fylgja honum.

Það ætti því að vera ljóst að 27 atkvæði með þingsályktunartillögunni séu trygg.

Ég trúi ekki öðru en þau Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson greiði atkvæði með tillögunni - Katrín af því að hún leggst ekki gegn lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu - og Árni Þór vegna þess að hann vill sjá niðurstöðu aðildarviðræðna.

Þá  eru komin 29 atkvæði.

Ég trúi ekki öðru en að nægilega margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins fylgi sannfæringu sinni og greiði atkvæði með tillögunni þannig að hún verði samþykkt!

Það eru því allar líkur á því að við göngum til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við eigum að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið vorið 2009!

Þökk sé frumkvæði Framsóknarmannsins Birkis Jóns Jónssonar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Hallur !!

Síðan hvenær hafa Sjálfstæðismenn sannfæringu?

G. Valdimar Valdemarsson, 25.9.2008 kl. 11:35

2 identicon

Ánægjulegt að siglfirðingurinn sé kominn á skoðun Samfó! En Hallur...er þetta ekki þvert á málamiðlunarsamþykkt Framsóknar um tvíkosningu? Sjá blogg mitt http://gislibal.blog.is/blog/gislibal/entry/645936/#comments

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 11:44

3 identicon

Það er skrýtið að nálgast þetta viðfangsefni með því að byrja á þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér vitanlega hafa t.d. hin Norðurlöndin, sótt um aðild, samið og borið samninginn síðan undir þjóðaratkvæði. Þegar sótt er um aðild þarf að leggja niður fyrir sig eftir hverju á að leita í samninaviðræðum - heitir á fínu máli Samningsmarkmið. Þó ég hafi tröllatrú á lýðræði þá á ekki að greiða þjóðaratkvæði um það að sækja um. Hins vegar á að greiða þjóðaratkvæði um samning og síðari breytingar á honum.

Gáfnaljósið (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 16:23

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er nú ekkert vit í að fara út í þjóðaratkvæðagreiðslu nema nokkur tryggt sé að niðurstaða hennar verði jákvæð. Ef það er líklegt að flestir vilji ekki í ESB þá þarf enga atkvæðagreiðslu, ef það er tvísýnt þá er of mikið í húfi að hún tapist. Ef það er nokkuð ljóst að meirihlutinn vill inn í ESB þá er fínt að fá það staðfest. En það má reyndar samt spyrja... ef það er hvort sem er meirihluti sem vill í ESB af hverju þá að skapa tvisvar þá ólgu og umrót sem fylgir svona.  Kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu er ekki málið, það er hins vegar það að þetta er heitt mál og klífur þjóðina í tvo parta, sennilega misstóra þó.

það stefnir allt í að við förum inn í ESB, þetta er bara spurning að þekkja sinn vitjunartíma.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 25.9.2008 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband