Framsókn missir mikla baráttukonu

Það er sorglegt að Marsibil Sæmundardóttir gat ekki hugað sér að vinna í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn við framgang pólitískra hugðarmála sinna. Það hefði verið gott ef borgarbúar hefðu notið starfskrafta Marsibilar sem leiðtoga og formanns nefnda eða ráða sem vinna að málaflokkum sem falla undir helstu baráttumál Marsibilar.

En það ber að virða tilfinningar Marsibilar sem nánast stóð ein innan Framsóknarflokksins - gegn samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Það er því skiljanlegt að Marsibil kjósi að segja sig úr Framsóknarflokkun við þessar aðstæður. En það er missir af þessari miklu baráttu og hugsjónakonu sem hefði getað haldið áfram í flokknum ef hún hefði viljað. En það kemur maður í manns stað. Það er mikið til af öflugu Framsóknarfólki sem getur tekið við keflinu.

Afstaða Marsibilar endurspeglar reyndar tilfinningar margra Framsóknarmanna sem líta á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ekki sem óskasamstarf. Hins vegar standa flokksmenn þétt að baki Óskars í samstarfinu, enda ljóst að annar kostur var ekki í stöðunni, hvað sem klækjastjórnmálamenn annarra flokka reyna að halda fram.

Flestir Framsóknarmenn létu því tilfinningar sínar ekki ráða för - heldur ákváðu að gera skyldu sína með því að tryggja Reykjavíkurborg starfhæfan meirihluta og vinna að framgöngu þeirra málefna sem flokkurinn stendur fyrir. Væntanlega munu baráttumál Marsibilar verða meðal þeirra málefna þótt hún hafi kosið að yfirgefa flokkinn.

Marsibil segir á meðal annars í yfirlýsingu sinni:

"Ákvörðunin er ekki auðveld þar sem ég á marga góða félaga í framsóknarflokknum - enda er þar eins og í öllum flokkum margt frábært fólk.  Ég er þakklát öllum þeim sem hafa unnið með mér þar og óska þeim velfarnaðar.

Ég legg áherslu á að þessi ákvörðun er ekki tekin með það að markmiði að skaða framsóknarflokkinn, heldur er ég tilneydd í þetta skref í þeirri stöðu sem komin er upp.  Ég mun áfram eins og hingað til, styðja góð mál, hvaðan sem þau koma - en sem betur fer er samstaða í borgarpólitíkinni um flest mál og ég vona að við sem vinnum að borgarmálum Reykvíkinga berum nú gæfu til að setja þau í forgang. Ég ítreka að ég mun ekki stunda tækifærismennsku og fella meirihlutann komi til þess að  Óskar Bergsson forfallist tímabundið. Slík tækifærismennska þjónar ekki hagsmunum borgarbúa.

Ég vona að Óskari Bergssyni, framsóknarflokknum og nýjum meirihluta í Reykjavík gangi vel að vinna saman að mikilvægum málefnum borgarinnar."


mbl.is Marsibil segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Hallur minn, er ekki orðið nokkuð fámennt í forystusveit flokksins í Reykjavík? Á rúmu ári hafa Jónína, Jón, Bingi og Anna horfið á braut auk Marsibil. Hvað gerið þið ef Óskar fer í fýlu líka?

Sigurður Hrellir, 18.8.2008 kl. 19:00

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Óskar þorir því ekkert, ekki miðað við hversu lúpulegur hann var þegar þau tilkynntu um samstarfið. Svo þarf Framsókn ekki mikið af fólki, miðað við fylgið.

Villi Asgeirsson, 18.8.2008 kl. 19:34

3 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Marsibil verðu að ráða sinni för. Við verðum að virða það, finnst mér alla veganna.

Kanski hefur hún séð að hún á ekki hheima lengur í Framsókn. Það er öllum leyfilegt að þroskast í sinni pólitík alveg á hvaða veg það er.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 18.8.2008 kl. 20:25

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

"sem nánast stóð ein innan Framsóknarflokksins - gegn samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn"

Við vitum báðir Hallur að þetta er ekki satt. Á fundi ykkar fyrir viku voru flestir mjög efins en spunameistararnir voru mjög harðir með samstarfi við Sjallana. Boð að ofan. Þetta skín líka í gegnum seinni hlutann á þessari færslu.

"Flestir Framsóknarmenn létu því tilfinningar sínar ekki ráða för"

Gaman að því!

Dofri Hermannsson, 18.8.2008 kl. 21:24

5 identicon

Ég óska þessum meirihluta til hamingju. Vonandi verður hann út kjörtímabilið.Því nóg hefur gengið á  í þessari borg okkar. Því nú þarf að taka á í fjármálum borgarinnar og láta verkin tala. Og vonandi láta þeir velfara málin vera í öndvegi til dæmis eldri borgara og öryrkja og svo eru svo mörg önnur mál sem brenna á okkur Reykvíkingum til dæmis umferðamál er ekki bara gott að fara að byrja á Sundabraut á þessu kjörtímabili. Svo skil ég ekki hvað Samfylkingin fær í skoðunarkönnun . Skyldi það vera að  unga fólkið í þessu landi viti ekki hvað við fáum fyrir álið okkar sem við framleiðum hér. Ég hef talað við mjög marga á mínum aldri það skilur ekki í unga fólkinu í landinu sem er á móti virkjunum . Það virðist vera að þriðja kynslóðin sé tekin við og haldi að allt sé í himnalaqi  að gera ekki neitt nema að kaupa þeirra listaverk .En með hvaða peningjum eigum við að kaupa að þessu listafólki ef engir peningar eru til . Því þau hafa stöðva orkulindirnar okkar og svo eigum við ekki að veiða fiskinn okkar .Það er komið eins með fiskinn okkar  og hvalinn það má ekki veiða hann. Hvað er að gerast í Sviss. ? Ef ég fengi að ráða þá myndi ég taka þessa umhverfissinna og senda þá á sjóinn og helst á einhvern saltfisktogara svo þeir geti verið þar í vinnu í 2 mánuði og lært að vinna. Með kveðju Hannes Helgason. P.S. Marsilbil hlýtur að sjá að sér því þar er góð kona sem kveður okkur en vonandi kemur hún aftur .En þetta er hennar mál það var ekki hægt að stofna Tjarnarkvarterinn því Ólafur ætlar að setja út kjörtímabilið ségir hann. . En svona er bara pólítíkin hún hefur ekkert breyst. Fyrir gefið ritvillur.

Hannes Helgason (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 22:08

6 Smámynd: Hallur Magnússon

Dofri!

Enn á ný undrar það mig hve vel þú þykist vita um hvað fram fer á innabúðarfundum Framsóknarflokksins. Hvaðan hefur þú þessar upplýsingar?  Ég veit að Marsibil er það heiðarleg að hún fer ekki að básúna um það sem fram fer á trúnaðarfundum Framsóknar.  

Ég var reyndar ekki á þessum fundi sem þú vísar til.

Hins vegar var alveg ljóst á fundi borgarmálaráðs Framsóknarflokksins, stjórnum Framsókanrfélaganna og fulltrúaráðsins - og annarra trúnaðarmanna - með Marsibil sl. föstudag - að þar var Marsibil sú eina sem ekki var sammála því að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn - enda enginn annar kostur í stöðunni - og alls ekki Tjarnarkvartettinn undir náð Ólafs F. Það veist þú mæta vel!

Á þeim fundi var afstöða Marsilbilar sýndur mikill skilningur - eins  og hún hefur sjálf sagt frá í fjölmiðlum.

En fyrst ég er kominn með þig á línuna á annað borð!  Hvaða nefnd ætlið þið að bjóða Marsibil?

Hallur Magnússon, 18.8.2008 kl. 22:26

7 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Óskar fer ekki neitt... hann er kominn miklu lengra en kosning og fylgi við hann gáfu tilefni til. Menn hætta ekki þegar þeir hafa náð langt af því aðrir hættu og eigin kjörþokki og hæfileikar dugðu ekki til. Hann er þarna af því margir hættu og fóru.

Þetta er eiginlega eins og óverðskuldaður happdrættisvinningur.... þegar búið var að henda vinningsmiðunum í ruslið.

Jón Ingi Cæsarsson, 19.8.2008 kl. 00:00

8 Smámynd: Óðinn Þórisson

Guðni Ágústsson var hlynntur þessu samstarfi og sér þarna tækifæri fyrir flokkinn eins og allir aðrir í Framsóknarflokknum nema Marsibil sem nú mun væntanlega í vikunni ganga til liðs við sf og vera í nefndum á vegum hennar.
En eitt er ljóst hennar tíma í pólitík er lokið.

Þetta samstarf þessara flokkar verður vonandi jafn happadrjúgt fyrir Reykvíkinga og það hefur verið fyrir Kópavogsbúa.

Óðinn Þórisson, 19.8.2008 kl. 08:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband