Enn bullar prófessor Þórólfur - gegn betri vitund!
24.6.2008 | 19:15
Enn bullar prófessor Þórólfur Matthíasson - gegn betri vitund - um ástæður þenslu á húsnæðismarkaði! Hann tekur markvisst og meðvitað þátt í sögufölsun - þrátt fyrir að ég hafi ítrekað leiðrétt rangfærslur hans - og ekki fengið haldbær rök hans fyrir bullinu!
Hvers á Hannes Hólmsteinn að gjalda þegar fjallað er um óábyrg vinnubrögð í Háskólanum!
Í 24 stundum í dag gefur Þórólfur í skyn að óheft innkoma banka íbúðalánamarkað með ódýru erlendu lánsfé í ágúst 2004 hafi orðið vegna hækkunar lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs sem varð ekki fyrr en 5 mánuðum síðar!!!!!!!
Þórólfur segir:
"Þessari atburðarrás var hrundið af stað með hækkun veðhlutfalls Íbúðalánasjóðs í 90% af brunabótamati á miklum þenslutímum í hagkerfinu"
Þetta er alrangt.
Ég læt hér fylgja fyrir Þórólf - og aðra sem haldnir eru sömu þráhyggju og ranghugmyndum - bút úr grein minni í Herðubreið - þar sem farið er yfir hina raunverulegu atburðarrás:
"Innbyrðis samkeppni bankanna var samt afar hörð, enda voru bankar og sparisjóðir farnir að lána allt að 100% lán án hámarksfjárhæðar mánuðum áður en 90% lán Íbúðalánsjóðs til kaupa á hóflegri íbúð voru heimiluð með löggjöf frá Alþingi í desembermánuði 2004.
Áætlanir stjórnvalda höfðu miðað að því að innleiða 90% lán til kaupa á hóflegri íbúð áföngum í takt við efnahagsástand. Lokaskref innleiðingar yrði ekki fyrr en vorið 2007 þegar framkvæmdir vegna virkjanna og álvers á Austurlandi væri lokið svo fremi sem efnahagsástand leyfði!
Þetta vissu forsvarsmenn bankanna.
En þar sem bankarnir höfðu þegar tekið að lána allt að 100% lán og engin hámarkslán voru lengur í gildi voru engin efnahagsleg rök fyrir því að bíða með almenn 90% lán Íbúðalánasjóðs. Því tók sjóðurinn að lána slík lán í desembermánuði 2004."
"Íbúðalánasjóður og 90% lán hans ekki orsök þenslunnar!
Í þjóðmálaumræðu undanfarinna missera hefur Íbúðalánasjóður og tilkoma almennra 90% lána verið tiltekin sem orsakavaldur þenslu á fasteignamarkaði og í efnahagslífinu almennt. Því fer reyndar fjarri.
Eins og að framan greinir þá var ætlunin að innleiðingin yrði í takt við efnahagsástand og 90% markinu yrði náð vorið 2007 ef efnahagsástand leyfði. Sannleikurinn er hins vegar sá að vegna kröftugrar innkomu bankanna á íbúðalánamarkað og uppgreiðslna á lánum Íbúðalánasjóðs sem henni fylgdi þá lækkuðu heildarútlán Íbúðalánasjóðs úr 482 milljörðum 1. júlí 2004 í 377 milljarða þann 1.janúar 2006.
Slíkt getur varla verið þensluvaldandi.
Á sama tíma lánuðu bankarnir rúma 315 milljarða króna íbúðalánum sem að stórum hluta fór í neyslu og aðrar fjárfestingar en í húsnæði enda voru lán þeirra ekki einskorðuð við kaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis eins og lán Íbúðalánasjóðs.
Í umræðu um meint þensluvaldandi 90% lán Íbúðalánasjóðs gleymist að stór hluti lána Íbúðalánasjóðs höfðu alla tíð verið 90% lán og að stöðugur samdráttur hefur verið á raunverulegum 90% lánum Íbúðalánasjóðs allt frá miðju ári 2004!
Við stofnun Íbúðalánasjóðs árið 1999 kom til sögunnar nýr lánaflokkur til þeirra er voru undir skilgreindum tekju og eignamörkum svokölluð viðbótarlán. Þeim var hætt þegar Íbúðalánasjóður tók upp peningalán 1. júlí 2004.
Viðbótarlánin voru raunveruleg 90% lán þar sem brunabótamat skerti þau ekki. Um þriðjungur lánveitinga Íbúðalánasjóðs árið 2003 voru með viðbótarláni og voru því raunveruleg 90% lán.
Íbúðalánasjóður hóf hins vegar ekki að veita 90% lán að nýju fyrr en í lok árs 2004 þegar bankar höfðu lánað allt að 100% lán um nokkuð skeið. Lán Íbúðalánasjóðs takmarkast hins vegar af brunabótamati og lágri hámarkslánsfjárhæð og verða því sjaldnast 90% lán.
Á árinu 2005 voru innan við 20% lána Íbúðalánasjóðs raunveruleg 90% lán og á árinu 2007 var hlutfallið innan við 1% útlána Íbúðalánasjóðs.
Íbúðalán bankanna tóku hins vegar ekki skerðingum af brunabótamati á sama hátt og lán Íbúðalánasjóðs og voru því raunveruleg 90% lán auk þess sem ekki var um að ræða hámarkslánsfjárhæð.
Því eru ákveðin líkindi til þess að tímabær en óhófleg innkoma banka á íbúðalánamarkað hafi valdið þenslunni en ekki Íbúðalánasjóður og svokölluð 90% lán hans."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:43 | Facebook
Athugasemdir
Það má kanski líka benda Þórólfi á að ÍLS lánaði eingöngu til kaupa á húsnæði meðan bankarnir lánuðu gegn verðmati frá fasteignasölum sem þýddi að þeir sem áttu nothæft veðrými í sinni eign gátu bætt við bíl og fellihýsi. Það skipti töluverðu máli. Hinsvegar tel ég hið besta mál að hætta að skerða lán vegna þess að brunabótamat sé ekki nægjanlega hátt. Ef menn vilja skerða lán þá er örugglega betri leið til þess heldur en að miða við brunabótamat. Reyndar hef ég lesið og heyrt í fjölmiðlum að ÍLS sé að taka áhættu með þessu. Hafa þeir sem halda þessu fram eitthvað athugað hver áhættan virkilega er? Hvað verða margir albrunar á íbúðarhúsnæði á ári á Íslandi?
Dagfinnur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 20:08
Áættan felst í því að lánin verða raunveruleg 80% lán en ekki þykjustinni 80% lán sem í rauninni eru td. 60% lán.
Hallur Magnússon, 24.6.2008 kl. 20:26
Þakka góðan fróðleik
Jón Aðalsteinn Jónsson, 24.6.2008 kl. 23:01
Guðjón.
Íbúðalánasjóður var ekki að elta einn eða neinn. Vaxtaákvarðanir hans eru gagnsæjar og fara eftir ávöxtunarkröfu á markaði hverju sinni. Sjóðurinn hefur lögbundið hlutverk. Hann getur ekki bara lokað sjálfum sér. Honum bar skylda til þess að lána þeim sem áttu rétt á lánum.
Hvað varðar Þórólf - þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem hann fer með rangt mál. Hann veit betur!
Af hverju ætli hann vilji hagræða sannleikanum á þennan hátt? Það er umhugsunarefni.
Hallur Magnússon, 25.6.2008 kl. 09:11
Ég tók þetta einmitt saman hérna
Gestur Guðjónsson, 25.6.2008 kl. 11:17
Merkilegt að flest allir hagfræðingar segja rætur þenslunar þær sömu en þeir einu sem halda öðru fram eru Framsóknarmenn sem vinna eða hafa unnið hjá Íbúðalánasjóð, og þeir eru ekki fáir...
IG (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 16:56
Íbúðalánajsóður er búinn að vera krabbamein í íslensku efnahagslífi í nokkuð mörg ár. Hann er uppspretta mikils ójafnvægis í verðmyndun á peningum. Ég held það væri ágætis hugmynd að láta sérfræðinga í hagfræði um að greina þessa stöðu frekar en að skrifa langa pistla um hluti sem þú hefur ekki fullan skilning á. Það væri líka fínt fyrst þú ert að skíta út orðspor Þórólfs að koma með dæmi þess að hann hafi haft rangt fyrir sér.
Það er staðreynd að uppspretta flest alls ójafnvægis í hagkerfum eru vegna íhlutunar og niðurgreiðsla hins opinbera. Þetta á við um fasteignamarkaðinn og landbúnaðariðnaðinn hér á landi.
IG (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 17:11
Viltu þá segja mér og rökstyðja afhverju ÍLS hefur verið krabbmein??? Þetta er svo mikil vitleysa í þér að þetta er í mesta lagi hlægilegt:-)
Hlynur Gudlaugsson (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 17:19
IG
Ég er ekki að "skíta út orðspor Þórólfs". Sé það að skitna sér hann um það sjálfur. Ég er einungis að benda á þá staðreynd að hann er ekki að segja satt. Hann hefur ítrekað haldið fram að atburðarrás árið 2004 hafi verið önnur og í annarri tímaröð en raunin var. Það er margoft búið að fara yfir það lið fyrir lið.
Í öðru lagi þá hefur ekki verið mikið af Framsóknarmönnum í vinnu hjá Íbúðalánasjóð - þótt forstjórinn sé Framsóknarmaður. Efast um að hlutfallið nái kjörfylgi flokksins.
Þegar forsendur hagfræðinga í upphafi eru rangar - þá eru líkur á að niðurstöður þeirra séu líka rangar. Ég skora á þig að benda á eitt atriði í grein minni sem ekki stenst.
Ég get bent á mörg tilfelli þar sem Þórólfur hefur farið rangt með tímalínur í atburðarráð árið 2004. Hann hefur ítrekað haldið því fram að Íbúðalánasjóður hafi hækkað lánshlutfall sitt í 90% áður en bankarnir komu inn á markaðinn. Hann er reyndar ekki einn um það Því miður er það rangt hjá honum og hinum - og þeir geta ekki snúið sig út úr því.
Ekki veit ég af hverju þú ert að ræða niðurgreiðslur hisn opinbera þegar þú talar um Íbúðalánasjóð. Einu niðurgreiðslur þar eru takmarkaður lánaflokkur til félagslegra leiguíbúða.
Guðjón.
Sjóðurinn hefur ekki lagaheimild til þess að hætta að lána um stundarsakir - þótt okkur kynni að finnast að hann hafi þær. Það er kjarni málsins. Það þarf þá að veita honum slíkar heimildir :)
Hallur Magnússon, 25.6.2008 kl. 18:18
Það er von að umræðan um þessa atburðarás sé heit, enda afar mikilvægt mál á ferðinni.
Ég er sammála þér Hallur um rétta tímasetningu atburða. Ekki dreg ég heldur í efa að tölur sem þú setur fram um hlutdeild ÍLS annars vegar og bankanna hins vegar í útlánum séu réttar.
Þó að Þórólfur gerist hugsanlega sekur um ónákvæmni í tímaröð atburða, þá er ég sammála greiningu hans að innkoma bankanna á markaðinn var að sjálfsögðu svar við fyrirætlunum stjórnvalda.
Það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum frá 2003 hvað stjórnvöld ætluðust fyrir, í samræmi við kosningaloforð Framsóknarmanna um 90% lán:
"Að haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki. Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis verði efldur." (Úr Stjórnarsáttmála 2003, sjá http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing/nr/138)
Það að ÍLS var ekki byrjaður að lána 90% er í raun aukaatriði, því að bankarnir vissu í hvað stefndi og viðbrögð þeirra urðu að koma inn á markaðinn af krafti.
Umræðan er því að mínu mati á villgötum þegar verið er að togast á um hvort ÍLS eða bankarnir eigi sökina. Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá þeim stjórnmálamönnum sem mörkuðu þessa stefnu og þeirri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks sem sat á þessum tíma.
ÍLS og bankarnir voru einingis að sinna sínum hlutverkum innan þess ramma sem lög og reglur setja þeim, þ.e. ÍLS að lána skv. reglum og fyrirmælum stjórnvalda og bankarnir að slást um hlut af kökunni á markaði.
Þegar bankarnir komu inn á markaðinn af fullum krafti brugðust þeir aðilar sem áttu að gæta hagsmuna almennings og þar er þáttur Seðlabankans stór. Hann gerði ekkert til að hefta gríðalegt innflæði erlends fjármagn, t.d. með því að beita bindisskyldu og öðrum tiltækum ráðum. Slíkt aukið peningamagn í umferð er einingis ávísun á verðbólgu og nú súpum við seyðið af þessari atburðarás.
Þessi heimatilbúni vandi, sem okkar ágæti hagfræðingur Jónas Haraldz hefur lýst sem miklu slysi í efnahagsstjórn, gerði það svo að verkum að íslenska hagkerfið stóð verulega höllum fæti þegar, lánsfjárkreppan skall á.
Hinrik Pálsson (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 01:48
Ágæti Hinrik.
Af hverju þurftu bankarnir að koma inn á þennan markað af þetta miklum krafti?
Bankarnir höfu ekki verið á þessum markaði. Þeir höfðu einungis 5% markaðshlutdeild - og höfðu haft um langa hríð möguleika á að setja lán sín á 1.veðrétt á undan húsbréfalánum ÍLS á millistórum og stærri eignum - og þannig notið óbeinnar ríkisábyrgðar. Þeir gerðu það ekki.
Vextir svokölluðu íbúðalána bankanna var á bilinu 8 - 9,5% - verðtryggt!
Ástæða 90% lána til kaupa á hóflegri íbúð var einmitt skortur á eðlilegum íbúðalánum bankanna - vegna fjarveru þeirra!!!
Við breytingar á húsbréfakerfinu yfir í peningalán var einmitt sérstaklega gætt að því að lán Íbúðalánasjóðs væru ekki hindrun fyrir mögulega innkomu bankanna. Unnt var að greiða up plán ÍLS án kostnaðar hvenær sem er - einmitt þess vegna!
Í viðræðum við bankanna var jafn ljóst að ef bankarnir kæmu inn á markaðinn á 2.veðrétt á eðlilegum kjörum - þá yrði ekki ástæða til að hækka hámarkslán ÍLS - bankarnir gætu komið inn á þennan markað með heildstæð lán á milli eignir og stærri eignir - og þróunin gæti orðið sú að almenn lán færðust yfir til bankanna.
Þannig að innkoma bankanna væri viðbragð við 90% lánum ÍLS er bull. Innkoman varð í reiðikasti - nánast óundirbúin- þegar ESA hafði úrskurðað starfsemi ÍLS stæðist ríksistyrktarreglur EES. Bankarnir trúðu því að ÍLS yrði hent út af almenna íbúðalánamarkaði - og að þeir gætu komið inn á miklu mun hærri vöxtum en þeir gerðu á sínum tíma.
Hallur Magnússon, 1.7.2008 kl. 09:26
Sæll Hallur
Ég get tekið undir með þér að bankarnir hafa jafnan verið að horfa til þess að losna við ÍLS útaf markaðnum með gagnrýni á að starfsemin standist ekki ríkisstyrktarreglurnar.
Reiðkast bankanna - það kann e.t.v. að vera hluti af skýringunni. Bankarnir buðu áður íbúðalán á vöxtum sem voru engan veginn samkeppnishæf við ÍLS og eins og þú rekur að ofan var markaðshlutdeild þeirra í beinum íbúðalánum lítil.
Sá hlutur bankanna á lánamarkaði sem 90% lánin hefðu hugsanlega hoggið í var ekki sá sem laut að íbúðalánum með veð í þeirri eign sem fólk var að kaupa. Fólk fékk gjarnan lánað 65-70% hjá ÍLS, en átti oft ekki nægt fé til að brúa bilið. Bankarnir höfðu haft umtalsverð viðskipti af því að lána fólki fyrir því sem uppá vantaði. Sérstaklega held ég að það hafi verið algengt hjá ungu fólki (ég þekki af eigin reynslu og fleiri í kringum mig) að brúa það sem uppá vantaði með því að fá "lánað" veð, t.d. hjá foreldrum o.s.frv. og fá þannig lánafyrirgreiðslu hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Einnig þekktist að fólk væri jafnvel að fjármagna hluta af íbúðakaupum með yfirdráttarlánum, sem bankarnir auðvitað mylja gull á.
Það eru einmitt þessi viðskipti sem ég held að bankarnir hafi séð fram á missa. Mig grunar að það hafi fyrst og fremst verið yngra fólk sem var að kaupa minni eignir, e.t.v. sína fyrstu íbúð, sem hafi notað þessa leið. Og þetta er einmitt fólkið hefði haft mest gagn af 90% lánunum. Því get ég ekki tekið undir skýringu þína Hallur að 90% lánin hafi ekkert haft með þetta að gera.
Bankarnir eru auðvitað bara að slást við ÍLS á þessum markaði og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það. Þeir höfðu aðgang að ódýru fjármagni erlendis og það var einnig forsenda þess að þeir gætu yfirhöfuð komið svona sterkt inn. Það höfðu þeir ekki haft áður. Það má þó að sjálfsögðu gagnrýna þá fyrir að hafa farið fram af óskynsemi í að ausa erlendu fjármagni inn í hagkerfið. Þar átti hins vegar Seðlabankinn að stöðva þá, en því miðust brást það. Mér finnst mjög mikilvægt að menn gleymi ekki hlut þeirra sem setja leikreglunar fyrir bankana og ÍLS. Ef einhverjir eru sökudólgar í málinu eru það ekki ÍLS eða bankarnir, heldur miklu fremur stjórvöld og Seðlabankinn.
Persónulega er ég eins og staðan er í dag á móti því að leggja niður ÍLS. Þar sem fákeppni er mjög mikil á bankamarkaði held ég að neytendur á íbúðamarkaði yrðu afar illa settir án ÍLS. Að mínu áliti kemur það vart til greina að breyta hlutverki ÍLS yfir í gegna eingöngu félagslegu hlutverki, nema ljóst sé að alvöru samkeppni ríki á lánamarkaðnum. Sú samkeppni mun varla koma nema erlendis frá. Það mun þó vart gerast fyrr en við höfum tekið upp annan gjaldmiðil.
Þakka annars fyrir góða umræða og skjót svör.
Hinrik
Hinrik Pálsson (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 02:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.