Óásættanlegt fyrir Framsókn að vera innan við 10%!
1.5.2008 | 19:33
Það er óásættanlegt fyrir Framsóknarflokkinn í stjórnarandstöðu að vera innan við 10% í skoðanakönnun á sama tíma og Samfylkingin missir verulega fylgi. Eðlileg staða miðað við hrakfarir ríkisstjórnarinnar að undanförnu ætti að vera að að minnsta kosti 15%. Þess í stað hirða VG fylgi Samfylkingar.
Það hlýtur að vera krafa Framsóknarmanna að fylgi flokksins verði að minnsta kosti 15% í skoðanakönnunum þegar kemur að flokksþingi næsta vor.
Vinur minn Guðni Ágústsson verður að bretta upp ermarnar og rífa upp fylgið. Ég er sannfærður um að ef hann leggst á sveif með Magnúsi Stefánssyni, tekur af skarið og leggur fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli hefja samningaviðræður við Evrópusambandið - þá fer fylgið að tikka upp á ný. Það ættu allir að geta sameinast um slíka tillögu - hver sem afstaða þeirra er til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
Guðni getur hafið nýja framsókn á miðstjórnarfundi um helgina. Hann hefur ár til þess að sýna styrk sinn og Framsóknarflokksins og ná þessum 15% í skoðanakönnunum - helst 20% - fyrir flokksþing!
Fylgi við Samfylkingu og ríkisstjórn minnkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Að leggja fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu þegar niðurstaðan hefur engin áhrif á stefnu flokksins er fáránlegt. Framsókn væri á móti inngöngu hver sem niðurstaðan yrði. Það að Framsókn mistekst að næla í meira fylgi sýnir best hve baráttumál þeirra eru á skjön við vilja almennings.
sigkja (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 23:59
SigKja!
Því fer fjarri að halda fram að Framsóknarflokkurinn verði á móti inngöngu hver sem niðurstaða samningaviðræðna við Evrópusambandið yrði. Ef niðurstöður verða ásættanlegar eru allar líkur á því að meirihluti flokksmanna gæti hugsað sér inngöngu. Það færi hins vegar eftir niðurstöðunni - eðlilega!
Ekki gleyma því að 60% þeirra sem studdu Framsóknarflokkinn í skoðanakönnun á dögunum taldi til greina koma að ganga til aðildarviðræðna við ESB. Ég get lofað þér því að hlutfall meðal þeirra sem horfið hafa frá stuðningi við Framsóknarflokkinn á undanförnum misserum er hærra!
En málið snýst ekki um það hvort Framsóknarflokkurinn vill eða vill ekki inngöngu í ESB - heldur hvort flokkurinn vilji leið lýðræðisins og leggja ákvörðunina fyrir þjóðina!
Framsóknarflokkurinn fór illa út úr því að berjast gegn leiðréttingu vægi atkvæða með breytingu kjördæmaskipan hér fyrir áratugum síðan. Hann mun fara illa út úr því að berjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslu gegn aðildarviðræðum ef flokkurinn tekur þann pólinn í hæðina.
Hallur Magnússon, 2.5.2008 kl. 08:27
Hallur minn; fylgi við Framsókn mun ekki aukast við það að breyta stefnu flokksins í Evrópumálum. Það er mikill einföldun og í raun ótrúlegt að þú skulir halda því fram. Heldur þú að það séu Evrópusinnarnir í Samfylkingunni sem vilja nú kjósa VG ?
Miklu nær væri fyrir Framsókn; þ.e. helstu talsmenn hans að standa saman og tala einni röddu og þá í takt við flokkssamþykktir hvað þessi mál varðar. Flokkurinn er ekki EU- flokkur eins og Samfylkingin og væri miklu nær fyrir forystu flokksins að taka af allan vafa um það og lýsa því yfir að flokkurinn mun ekki styðja aðildarumsókn að EU.
Eysteinn Jónsson (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 09:43
Eysteinn.
Við erum ekki að tala um aðild að Evrópusambandinu. Við erum að ræða um það að þjóðin taki ákvörðun um það hvort farið verður í aðildarviðræður. Það er allt annað mál.
Þetta er spurning um virkt lýðræði.
Já, Eysteinn, ég held að hluti þeirra sem áður studdu Samfylkinguna og styðja nú VG séu Evrópusinnar! Hlutfall þeirra sem styðja VG og vilja skoða aðildarumsókn að ESB hefur hækkað verulega - er nú um helmingur stuðningsmanna VG.
Þetta er alvarleg skilaboð til Framsóknarflokksins! Af hverju kom fylgið ekki til Framsóknar?
Ef forystan mun lýsa því yfir að flokkurinn muni ekki styðja aðildarviðræður að ESB - þá er við hæfi að halda miðstjórnarfundinn í kirkju og tími til að taka fram rekurnar. Framsóknarmenn eiga að koma fram og segja hvernig staðan er! Skoðanir gagnvart mögulega aðild að ESB séu skiptar og að það sé fullkomlega eðlilegt - enda bæði rök með og á móti. En hins vegar sé kominn tími á það að þjóðin ákveði HVORT ganga eigi til samningaviðræðna við ESB eða ekki! Framsóknarflokkurinn muni hlýta niðurstöðu þjóðarinnar!
Hallur Magnússon, 2.5.2008 kl. 10:48
... og Eysteinn!
Ertu ekki sammála að það sé óásættanlegt að fylgi Framsóknarflokksins sé innan við 10% eftir ár í stjórnarandstöðu - og þá erfiðu stöðu sem ríkisstjórnin er í?
Hallur Magnússon, 2.5.2008 kl. 10:51
Sígandi lukka er best. Framsóknarflokkurinn verður að fylgja eftir sinni stefnu og með einurð og ábyrgri stjórnarandstöðu munum við ná eyrum kjósenda smátt og smátt og toppa fyrir næstu kosningar. Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem VG stekkur upp í 20%, en það mun aldrei verða kjörfylgi þeirra undir núverandi forystu. Það er auðvelt að sækja sér fylgi í skoðanakönnunum með upphrópunum og skæruhernaði eins og VG gerir en það endist þeim ekki. Ég er sammála Eysteini um að stefnubreyting í Evrópumálum er ekki töfralausn til að auka fylgið. Það er raunar eins og hann segir, mikil einföldun, og raunar skaðleg einföldun. Hins vegar styð ég að Framsóknarflokkurinn leggi til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn, enda er ekki um neina stefnubreytingu þar að ræða. Fylgistap Samfylkingarinnar tel ég fyrst og fremst tengjast vonbrigðum með samstarf við Sjálfstæðisflokk og áhyggjur af stöðu velferðarkerfisins. það er eðlilegt að slíkt fylgi leiti í vonbrigðum sínum lengra til vinstri en við munum ná okkar hluta af því þegar fram líða stundir.
Stefán Bogi Sveinsson, 2.5.2008 kl. 12:33
Hallur minn, það er að mínu viti skrítið að það séu yfir höfuð 10% sem styðja Framsóknarflokkinn og stórundarlegt að það séu 37% sem styðja, hmmm.... "flokkinn minn" Sjálfstæðisflokkinn. Þessir tveir flokkar bera ábyrgð á ástandinu í dag með misheppnaðri hagstjórn síðustu ára. Samfylkingin lekur fylgi yfir í Vinstri græna og hafa að mörgu leiti fengið mest að finna fyrir reiði fólks, þó segja má að þeir beri minnsta ábyrgð í því eldsmaturinn var uppsafnaður til fleirri ára og þeir voru svo óheppnir að vera í byggingunni þegar kviknaði í.
Stærsti "flokkurinn" í dag eru þeir sem eru "óákveðnir". Maður finnur til mikillar reiði og gremju meðal fólks og að mörgu leiti réttmætrar til allra stjórnmálamanna. Held raunar að enginn flokkur hafi grætt sérstaklega á þessu nema þá Vinstri grænir, en það má með sanngirni segja að þeir hafa varað við þessu.
Einn góður vinur minn sem er gegnumsýrður framsóknarmaður í fleirri ættliði sagði mér fyrir nokkrum árum þegar á skall auglýsingaherferð um fjölskyldustefnu Framsóknarflokksins fyrir kosningar. Ég var að spauga með þetta við hann enda hafði flokkurinn þá um áraraðir verið í ríkisstjórn og stýrt félagsmálaráðuneyti ....... Hann sagði þá að það væri heimskulegt að ofmeta greind kjósenda. Ég held sem betur fer Hallur að þú sért hér að vanmeta greind kjósenda. Það er sem betur fer ekkert náttúrulögmál að flokkar stækka af því að vera utan stjórnar.
Guðni Ágústsson er ekki rétti maðurinn í brúnni hjá ykkur, hann getur verið skemmtilegur á árshátíðum og er pólítískur trúður. Ég held að það hefði verið mun farsælla að halda fyrverandi formanni sem er miklu mun hæfari og fólk hefur meira traust á honum. Þó hann sé ekki eins duglegur að blaðra.
Held að fólk á Íslandi þoli að heyra sannleikann og þurfi að segja því sannleikan. Rikistjórnin hefur ennþá ekki komið nein ráð/plön hvað á að gera. Svigrúmið er lítið. Það er ekki er hægt að lána sig frá þessu, þá gröfum við undan krónunni og verðbólgan fer á skrið og við erum bundin við krónuna um langa hríð. Margir eru ofskuldugir og ráða ekki við auknar vaxta greiðslur. Ef þú ræður ekki við lán til 40 ára þá getur þú varla framlengt þau til 60 eða 80 ára??? Við erum með stórlega ofmetinn fasteignamarkað og offramboð þetta vandamál er ekki ennþá komið fram en það er bara tímaspursmál. Ríkissjóði er spáð 7 % halla miðað við verga þjóðarframleiðslu um 2010 vegna minkaðra veltuskatta og annara útgjalda. Ekki hjálpar það krónunni ef ríkið þarf einnig að fara að lána til rekstrar. Það getur vel verið skynsamlegt að stefna inn í Evrópubandalagið en það er virðist engin eining um þetta og klofningur um þetta í öllum flokkum. Því miður eru margir sem tjá sig um þetta sem hafa ákaflega litla þekkingu á Evrópubandalaginu og sjá evruna í hyllingum enda er krónan strönduð. Það að fyrrverandi rikisstjórnir skyldu ekki hafa byggt upp stóran gjaldeyrisvarasjóð eru mistök sem ekki er hægt að rétta núna í dag. Fólk hefur miklu meiri áhuga að heyra hvað á að gera. Þar hafa því miður engir flokkar komið með neinar trúverðulegar áætlanir þrátt fyrir gaspur á Alþingi og fjölmiðlum.
Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera núna í efnahagsmálum? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað á neinn trúverðugan hátt ennþá.
Gunn (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 12:47
Ágæti/a Gunn!
Enn kemur þú með vandað og málefnalegalegt innslag í umræðuna! Takk fyrir það.
Ég er reyndar ekki sammála þér um allt í greiningunni - en glettilega margt þó!
Stefán Bogi!
Sígandi lukka er best. Það er rétt!
Ítreka enn og aftur að það er ekki stefnubreyting Framsóknarflokksins í Evrópumálum að leggja það fyrir þjóðina hvort við eigum að fara í aðildarviðræður eða ekki.
Því fer fjarri! Þetta frekar spurning um afstöðu til lýðræðisins!
Vandamálið er að heitir andstæðingar ESB óttast það eins og pestina að niðurstaðan verði að þjóðin vilji láta reyna á viðræður við ESB - og í kjölfarið náist góður samningur sem tryggir helstu hagsmuni Íslendinga betur en núverandi EES samningur!
Þótt ýmsir haldi annað - þá fer því fjarri að ég telji rétt að ganga í Evrópusambandið - þótt ég telji líkur á að okkur sé betur borgið innan þess en utan! En ég vil sjá niðurstöðu samningaviðræðna til þess að geta tekið endanlega afstöðu! Ef niðurstaðan tryggir hagsmuni okkar og við náum góðri lendingu í lykilmálum - þá vil ég ganga inn. Ef ekki - þá vil ég vera fyrir utan.
En ég vil fá stöðuna naglfasta upp á borðið - ekki gefa mér niðurstöðu fyrirfram - eins og svo margir andstæðingar þess að þjóðin ákveði hvort við hefjum aðildarviðræður eða ekki - virðast gefa sér. Oft á hæpnum forsendum.
Hallur Magnússon, 2.5.2008 kl. 13:35
Ég er sammála þér að það er rétt að athuga með aðild að ESB. Það virðist því miður ríkja almenn fákunnátta um þetta mál hjá mörgum og ég leyfi mér að fullyrða stór hluta landsmanna veit ákaflega lítið um ESB og EES samninginn.
Það á að vera öllum ljóst að Íslendingar koma ekki til með að "græða" neitt fjárhagslega á aðild að ESB, þeir koma til með að þurfa að greiða háar upphæðir í sjóði bandalagsins fyrir hin fátækari ríki sem eru gengin í eða munu ganga í bandalagið. Það er einungis hluti ESB aðildarlanda sem hafa Evru. Lönd eins og Danmörk og Svíþjóð hafa enn sem stendur valið að standa utan við og ef Norgur gengi í bandalagið efast ég um að þeir tækju upp Evru. Íslendingar fullnægja í dag ekki skilyrðum myntbandalagsins um upptöku Evru, sem mér heyrist vera höfuðástæða aðildar hjá mörgum á Íslandi í dag.
Ef Íslendingar gerðust aðilar þá myndi það vera af pólítískum ástæðum, við værum þá búin að velja Evrópu. Við myndum missa mikið af okkar eigin sjálfstæðu utanríkisstefnu hvað varðar fríverslunarsamninga. Okkar rödd væri þar meðal hundruða miljóna og við hefðum væntanlega takmörkuð áhrif hvort sem við erum innan eða utan bandalagsis. Það myndi kosta okkur talsvert mikið í bæði greiðslum til bandalagsins auk þess þyrftum við að halda uppi fjölmennum sendinefndum í Evrópu. Kosti og galla aðildar verður síðan að meta og það er einnig háð því hvaða niðurstaða kæmi úr tvíhliða samningum við bandalagið.
Það má segja að við Íslendingar hafa hingað til komist furðu vel frá þessu fjárhagslega með EES samningnum sem hin fyrverandi EFTA lönd gerðu. Hinu má ekki gleyma að það var Framsóknarflokkurinn sem á sínum tíma barðist mest mót EFTA aðild Íslands, en sem betur fer voru skynsamari öfl sem fengu því ráðið á þeim tíma.
Það er klárlega engin lausn á okkar efnahagsvanda að ganga í ESB, ...... eða greiða atkvæði/þjóðaratkvæði um ESB!!! Þá erum við eins og strúturinn, að stinga hausnum ofan í sandinn.
Góða helgi Hallur!
Gunn(ar) (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 15:19
Hallur er ekki bara ágætt að hafa Framsóknarmaddömmuna svona litla og netta?
Haraldur Bjarnason, 2.5.2008 kl. 15:46
Sælir Hallur og Stefán Bogi
Bara svo það sé á hreinu þá er Evrópusambandsaðild íslands ekki mér að skapi. Fyrir því eru ýmis rök, það er t.d. alveg á hreinu að ákvörðun um heildaraflamark í íslenskri landhelgi flyst til Brussel, frá þessari reglu er ekki hægt að víkja af hálfu EU. Þetta hefur verið margítrekað staðfest af fulltrúum EU og óþarfi að vera að blekkja íslensku þjóðina um að það sé hægt að semja um undanþágu hvað þetta varðar. Það hefði verið fróðlegt að fylgjast með síðustu loðnuvertíð ef Commiser í Brussel hefði þurft að taka þær ákvarðanir sem sjávarútvegsráðherra þurfti þá að taka.
Ég hef einnig áhyggjur af því að með inngöngu í EU erum við að festa núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi endanlega um aldur og ævi í sessi. Eftir inngöngu munu möguleikar okkar í framtíðinni til að gera breytingar á því hvernig fiskveiðiheimildum er úthlutuð takmarkast verulega. Þetta dregur úr sveigjanleika kerfisins og þar með hagkvæmni þess til framtíðar. Ég minnist þess t.d. í kosningunum 2003 fór ég á framboðsfund með Ingibjörgu Sólrúnu á Selfossi, í hennar ræðu talaði hún um að Ísland ætti að gerast aðili að EU, í sömu ræðu talaði hún um fyrningaleið í sjávarútvegi. Gefum okkur að Ingibjörg hefði komist til valda og fengið að ráða; þá væri staðan í dag sú að við værum í EU og fiskveiðiheimildir í íslenskri landhelgi væru boðnar upp til hæstbjóðenda innan EU! Er þetta virkilega framtíðarsýn okkar á það hvernig nýta ber auðlindina í sjónum ? Þá munum við aldrei komast upp með það að banna EU-þjóðum að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi eins og nú er.
Önnur rök gegn aðild Íslands að EU snúast um landbúnað og sjálfstæða peningamálastefnu Íslands. Of langt að rekja það hér. Sjáumst á morgun.
Kv.
Eysteinn
Eysteinn Jónsson (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 16:28
Ágæti Eysteinn!
Gott innlegg.
Kemst því miður ekki á morgun - nema þá í mýflugumynd!
Foreldraráð 6. flokks Víkings er að halda heilsdags knattspyrnumót fyrir 7. flokk í Laugardalnum - og ég verð að dæma meira og minna allan daginn. Svo er yngri guttinn að spila!
Reyni samt að kíkja inn milli leikja - enda tiltölulega stutt að fara! Reyndar hefði Laugarneskirkjan hentað mér betur en Háteigskirkjan!
Hallur Magnússon, 2.5.2008 kl. 18:42
Þetta er allt rét hjá þér Hallur.Liðin eru tvö ár frá síðustu sveitastjórnar kosningum.Þá fékk Framsóknarflokkurinn skell.Það eru tvö ár í næstu sveitastjórnarkosningar.Ef Framsóknatflokknum tekst ekki að rétta hlut sinn í þeim, þá er við engu öðru að búast en að fylgið verði innan við tíu prósent í næstu Alþingiskosningum.Það er líka athyglisvert að það skulu vera sextíu prósent af þeim tíu prósentum sem segjast munu kjósa Framsókn sem styðja Evrópusambandsaðild.Ef einhver flokkur hlustar ekki á kjósendur sína þá fara þeir bara eitthvert annað.Og má Framsóknarflokkurinn við því að missa þessi sextíu prósent af þeim tíu sem segjast munu kjósa hann nú.Nei.Þá væri fylgið komið niður í fjögur prósent og flokkurinn þurkaður út. Það getur hæglega gerst.Menn eiga að hætta því rugli að flokkurinn komi alltaf betur út í kosningum og að flokkurinn sé þjóðlegur flokkur.Það eru allt aðrir tímar nú en fyrir tuttugu árum, meira að segja aðrir en fyrir fjórum árum.Skipta þarf um formann í flokknum ekki síðar en þegar eitt ár verður í næstu sveitastjórnarkosningar.Það er að sjálfsögðu eðlilegt að nánustu samstarfsmenn formannsins séu sömu skoðunar og hann og reyni að halda uppi stefnu hans.Það er bara eðlilegt, en best er fyrir Framsóknarflokkinn að þessi mál séu gerð upp sem fyrst.
Sigurgeir Jónsson, 3.5.2008 kl. 08:53
Það er líka umhugsunarefni að sumir andstæðingar Evrópusambandsaðildar sem segjast vera Framsóknarmenn, eru stöðugt með á vörunum að þjóðnýta þurfi sjávarútveginn, og tala þá gjarnan um fyrningarleið, og gera þurfi það áður en hugað sé að Evrópusambandsaðild.Þjóðnýting sjávarútvegsins, eða annara atvinnuvega hefur aldrei verið á stefnuskrá Framsóknarflokksins , hann hefur barist gegn slíku hingað til.Slík þjóðnýting þýðir ekkert annað en hrun og kæmi fyrst og fremst niður á landsbyggðinni.Við getum rétt ímyndað okkur hver staða Íslands væri í fjármálaheiminum nú ef staða sjávarútvegsins væri eins og hún var fyrir 1990.Stuðningsmenn núverndi formanns Framsóknarflokksins í þéttbýlinu við Faxaflóann hafa lengi barist fyrir þjóðnýtingu sjávarútvegsins, er ekkert nýtt, en hvorki formaðurinn né stuðningsmenn hans hafa stuðning þorra framsóknarmanna til slíks í kjördæmi formannsinsLíka mætti formaður Framsóknarflokksins og hans fylgismenn hans huga að því hvort að það sé stefna ESB að þjóðnýta sjávarútveg í aðildarríkjunum.Svo er ekki og íslendingar þyrftu að henda slíku fyrir borð áður en við fengjum inngöngu í ESB.
Sigurgeir Jónsson, 3.5.2008 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.