Leiðir Guðni Framsókn lýðræðis eða Framsókn flokksræðis?
19.3.2008 | 11:03
Samband ungra framsóknarmanna endurspeglar viðhorf stórs hluta Framsóknarmanna - sérstaklega hinna yngri - sem vill láta á það reyna í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þjóðin vilji ganga til viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þá er ekki þar með sagt að innan Sambands ungra framsóknarmanna séu menn sammála um afstöðuna til Evrópusambandsins. Því fer fjarri - eins og innan Framsóknarflokksins í heild.
En SUF hefur sýnt þann þroska - sem sumir flokksmenn unga fólksins mættu taka sér til fyrirmyndar - að láta þjóðina ákveða beint hvort rétt sé að fara í aðildarviðræður. Ef þjóðin vill fara í aðildarviðræður yrði næsta skref að ræða við Evrópusambandið.
Þegar niðurstaða þeirra viðræðna liggur fyrir - þá getur þjóðin fyrst tekið upplýsta ákvörðun um það í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu - hvort Ísland skuli ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þetta er lýðræðisleg leið - leið unga fólksins í flokknum.
Væntanlega munu rísa upp á lappirnar forhertir andstæðingar Evrópusambandsins innan Framsóknarflokksins - sem ekki treysta þjóðinni til að taka sjálf ákvörðun um framtíð Íslands - og berjast með kjaft og klóm gegn þessari tillögu Sambands ungra framsóknarmanna.
Sem betur fer eru þess háttar Framsóknarmenn í minnihluta - en þeir geta verið háværir. Verði þeir ofaná - og Framsóknarflokkurinn í heild sinni mæli EKKI með því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það HVORT skuli fara í aðildarviðræður - þá hefur lýðræðishugsunin orðið undir í Framsóknarflokknum.
Nú reynir á Guðna Ágústsson.
Ætlar hann að stýra Framsóknarskútunni gegnum skerjagarðinn og inn í framtíðina með því að taka undir með Sambandi ungra framsóknarmanna - og leiða Framsóknarflokkinn áfram á grunni lýðræðis - eða ætlar Guðni að taka botnlokuna úr Framsóknarskútunni með því að leggjast gegn þessari tillögu um lýðræði - og leiða flokkinn inn á braut flokksræðis sem getur ekki annað en endað með brotlendingu á hafnlausri strönd Suðurlands.
Ég hvet Guðna til að fara leið lýðræðis - kalla saman flokksþing ekki síðar en í haust - og láta Framsóknarmenn kjósa um inntak þessarar lýðræðislegu tillögu Sambands ungra Framsóknarmanna - þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.
SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki bara svarið við spurningunni í fyrirsögninni þinni Hallur að Guðni leiði Framsókn hjá eldri borgurum á Kanarí, sbr. frétt mbl.is í gær.
Haraldur Bjarnason, 19.3.2008 kl. 11:46
Það þarf að sinna því líka!
Hluti af lýðræðinu.
Þar með er ekki sagt að hann geti ekki unnið með SUF og lýðræðinu.
Þetta kemur allt í ljós! Prófsteinn ekki satt?
Hallur Magnússon, 19.3.2008 kl. 11:55
Mikið rétt, Pelli vinur minn af Héraði er nýfarinn til Kanarí, þeir verða góðir saman þar.
Haraldur Bjarnason, 19.3.2008 kl. 11:58
Já en hvað svo með það ef Guðni færi nú að þínum ráðum og kallaði saman flokksþing Framsóknarmanna þar sem þessi tillaga yrði borin undir flokksþingið. Segjum svo að þetta yrð fellt þar reyndar kolfellt eins og ég held að yrði niðurstaðan. Mynduð þið þá þessir svokölluðu "lýðræðissinnuðu" Evrópusambands stuðningsmenn í Framsóknarflokknum þá ekki segja það að Guðni væri að tala fyrir lýðræðinu þegar hann talaði fyrir andstöðu Íslands við Evrópusambandið.
Nei þið mynduð sko aldeilis ekki segja það. Því það er alveg sama hvernig málin eru þið hættið aldrei þessu sívri ykkar. Þið reynið að koma okkur þarna inn með góðu eða illu og þið beitið til þess hvaða meðölum sem er. Lýðræðiskjaftæði ykkar er þar eitt þeirra en það er eins og annað hjá ykkur bara þegar það hentar. Því hjá ykkur í þessum málum er það tilgangurinn einn sem helgar meðalið. Því miður.
Lifi frjálst og fullvalda Ísland.
Seljum ekki frelsi okkar og fullveldi fyrir 30 silfurpeninga.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 13:03
Heh við erum löngu búin að afsala okkur frelsi og fullveldi og fengum ekki túnskilding fyrir, við innleiðum um 90% löggjafar ESB og það án þess að hafa nokkur áhrif á mótun hennar. Við virðumst sitja uppi með illa farna fiskistofna og getum engum kennt um nema okkur sjálfum og gjaldmiðil sem hagnast ekki almenningi heldur einungis útflutningsaðilum.
Held að við hefðum fengið meir en 30 silfurpeninga ef við hefðum samið um þetta....
Skaz, 19.3.2008 kl. 13:45
Gunnlaugur.
Ef flokksþing fellir tillöguna - þá er afstaða Framsóknarflokksins skýr. Flokkurinn vill þá ekki að þjóðin ákveði hvort farið verði í aðildarviðræður - án skuldbindinga. Guðni - á grundvelli fulltrúalýðræðis Framsóknarflokksins - og flokkurinn yrði að fylgja þeirri stefnu. Slíkt fæli reyndar í sér skipstrand Framsóknarflokksins - sem þá vill ekki vinna eftir gamla grunngildi samvinnuhugsjónarinnar - einn maður eitt atkvæði - og tryggja virkt lýðræði. En sú ákvörðun um skipstrand flokksins sem málssvara virks lýðræðis væri þó tekin á lýðræðislegan hátt!
Það er betra að ákvörðun um framtíð Framsóknarflokksins sem lítils 5%-10% í anda td. norska Miðflokksins í stað möguleikans á stórum, lýðræðislegum Framsóknarflokks með svipaða stöðu og hins danska Venstre, sé tekin á lýðræðislegan hátt á flokksþingi - en ekki með þröngu flokksræði andstæðinga þess að beita raunverulegu lýðræði við ákvörðun um helsta hagsmunamáls þjóðarinnar.
Mér þykir miður að þú gefir lýðræðinu langt nef í þessum pistli þínum - og ég frábið mér ásakanir um að ég sé ekki talsmaður raunverulegs lýðræðis! Minn pólitíski ferill endaði 1995 þegar ég tók þátt í prófkjöri þar sem ég hafði ma. stefnuna - einn maður eitt atkvæði - með tillögu um Ísland sem eitt kjördæmi. Vissi að það væri ekki vel liðið innan Framsóknarflokksins - eins og kom á daginn. En við verðum á 21. öldinni að snúa baki við 19.aldar fulltrúarlýðræði og beita eðlilegu nútímalýðræði - á grunni samvinnuhugsjónarinnar - einn maður eitt atkvæði!
Hallur Magnússon, 19.3.2008 kl. 13:54
kæri hallur - það eru margar vörður á þessari leið og það er vissulega rétt að ef þetta stæði til - þ.e. að hefja esb-viðræður væri sjálfsagt að styðja kröfu sem þessa, þ.e. forkosningu,- en eins og á stendur ekki. við erum ekkert að keyra á kosningum um eitthvað sem er ekki á dagskrá sitjandi ríkisstjórnar. ég er sammála sveitunga mínum gunnlaugi en langar líka að benda á að lýðræðishalli esb er meiri en nokkurrar annarrar valdastofnunar í hinum vestræna heimi - eins og til dæmis samfylkingarmaðurinn stefán jóhann stefánsson fjallar ágætlega um í þessum pistli. sannast sagna sárnar mér svolitið hvernig þú talar um þá okkar framsóknarmanna sem eru á móti esb-aðild (t.d.: "Væntanlega munu rísa upp á lappirnar forhertir andstæðingar Evrópusambandsins innan Framsóknarflokksins - sem ekki treysta þjóðinni til að taka sjálf ákvörðun um framtíð Íslands - og berjast með kjaft og klóm gegn þessari tillögu Sambands ungra framsóknarmanna.") Ég er væntanlega einn þessarra forhertu manna en reyndin er að það er einfaldlega okkar vilji að Íslandi verði áfram stjórnað af Íslendingum en ekki ólýðræðislegri evrópskri embættismannastofnun og í því sjónarmiði felst í raun og veru engin fyrirlitning gagnvart lýðræðinu enda svoldið stórt að eigna okkur slíkt. og fráleitt að það væri skipstrand framsóknarflokksins að kjósa á flokksþingi gegn esb-aðild eða undirbúningi að esb-aðild,- það væri einmitt upprisa! en við skulum spara stóru orðin hver um annan og vinna saman að því að fá flokksþingið til að taka ákvörðun. kær kv. og gleðilega páska. -b.
Bjarni Harðarson, 21.3.2008 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.