Grínið um Grana löggu sem sagt var upp í Spaugstofunni og sendur heim á nærbrókinni einni saman vegna fjárskorts lögreglunnar er háalvarleg vísbending um ófremdarástand sem er að skapast hjá íslensku lögreglunni. Það að lögreglustöðin við Hlemm skuli vera lokuð almenningi á kvöldin og næturna er önnur vísbending um ófremdarástand hjá löreglunni vegna fjárskorts.
Þótt hinn snaggaralegi lögreglustjóri Stefán Eiríksson, sem að mínu mati hefur staðið sig afar vel við erfiðar aðstæður, segi að lokunin hafi ekki áhrif á öryggi almennings, þá er ljóst að tilfinning almennings er önnur. Okkur líður eins og öryggi okkar sé minna!
Fagleg og öflug lögregla sem vinnur á grunni þess lýðræðis sem við byggjum samfélag okkar á er einn af hornsteinum samfélagsins. Þessi hornsteinn er að molna þar sem lögreglumenn eru hreint og beint að gefast upp vegna of mikils álags og allt of lágra launa.
Við verðum að hafa skilning á því að löggæslan kosti peninga - og ríkisvaldið verður að leggja það til sem tryggir faglega og góða löggæslu.
Ástandið á Suðurnesjum er skelfilegt! Við megum ekki veikja lögregluna svon - allra síst á svæði þar sem lunginn af alþjóðlegri farþegaumferð fer um!
Nýlegur dómur héraðsdóms - þar sem árásarmenn er gengu í skort á óeinkennisklæddum lögreglumönnum voru ekki dæmdir fyrir árás á valdstjórnina- bætir ekki úr skák, þótt ég sé frekar á því að menn eigi að njóta vafans í sakamálum en að vera dæmdir að ósekju. Staða löggæslumanna veikist við þetta - og þegar launin eru of lág - þá missum við bestu mennina. Við megum ekki við því!
Björn Bjarnason verður að fá félaga sína í fjármálaráðuneytinu til að taka upp budduna og bæta í launaumslag lögreglumannanna. Ég treysti Birni til þess!
Minni þjónusta til þess að spara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég hef því miður ekki tækifæri til að sjá Spugstofumenn,- en hinsvegar hef ég vaxandi áhyggjur af þróun mála heima á Íslandi,- bæði hvað varðar lögæslu og dómskerfið. Hvernig má það vera, í landi ekki fjölmennara en okkar, að dómarar geti gengið um göturnar, kinnroðalaust,- eftir niðurstöður hinna ýmsu mála að undanförnu?
Ég er algjörlega sjokkeruð, vægir dómar gegn nauðgurum,- skv þinni grein, enginn dómur yfir ofbeldismönnum sem ráðast gegn löggæslumönnum,- á sama tíma er ellefu ára stúlkubarn, með Aspbergeheilkenni, dæmt til að greiða kennara TÍU milljónir króna!!!???
Er þetta ekki með endemum??
Börnin mín búa enn heima, og ein meginástæða þess að mér er kleift að starfa erlendis, er sú að Ísland er öruggt, lítið um glæpi. Það er engin spurning að trú mín á að öryggis þeirra sé gætt, af yfirvöldum,- fer æ þverrandi.... Og það myndi engu um breyta þótt ég væri þar,- þetta er samt langt undir meðalmennskunni.
Skömm er að,- ég vona að maður fari nú fljótlega að sjá menn taka puttana úr rassgatinu,- og hugsa aðeins rökréttar.
Þakka þér fyrir góða grein Hallur, kveðja frá Kongó!!!
Steinunn
Steinunn Helga Snæland, 17.3.2008 kl. 11:03
Þetta var ég nú búinn að blogga um, ekki er nú eins og dóms, löggæslu og heilbrigðiskerfin skuli vera á hallandi fæti. Aðalvandamálið eru NAUTHEIMSKIR stjórnmálamenn, sem eru með hausinn svo illilega grafinn ofaní einhverri sandgryfju að í þau fáu skipti sem þeir ná að kreista útúr sér hljóð af viti. Þá eru þessar rolur bara að mylja undir eigið rassgat.
Eiríkur Harðarson, 17.3.2008 kl. 12:58
Hallur nú er ekki tími útgjaldaaukningar, heldur þarf að fara skera spik af ríkisapparatinu. Löggæslan á Suðurnesjum má skera niður min vegna um helming, og hætta þessari vitleysu við innritun í flugstöðina og öllu þessu sýndar öryggisgæslu í flugstöinni, sem er mér og öllum sem um hana ferðast til stórra leiðinda og tímatafa. Það eina er ég tel ekki rétt að draga stórlega úr, er tollgæsla við heimkomu.
haraldurhar, 17.3.2008 kl. 23:25
Sæll Hallur.
Ég er að velta því fyrir mér á meðan ríkissjóður er rekinn með tuga miljarða hagnaði. Hvers vegna má ekki kosta til eðlilegri löggæslu, auka öryggi borgara. Á sama hátt bæta heilbrigðisþjónustu bæta umbun umönnunarstétta. Félagþjónustu - bæta hag þeirra heimilislausu. Menntamál- bæta skólana, gera kennslustörf áhugaverð. Það er athugunarvert að í velferðarríkinu Noregi sem ekki veit sinna aura tal eru sömu spurnigar uppi. Eru kjör þessara þátta í velferðarríkinu ögrandi við stöðugleika í ríkisfjármálum. Hvað finnst þér?
Jón Tynes (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 23:52
Í fyrsta lagi Hallur; Maður gengur í skrokk á einhverjum þegar maður lemur hann. Þú gengur ekki í skort á mér þótt þú færir að lumbra á mér. Hvað sem því líður, þá ættir þú að lesa pistil Björns Bjarnasonar um þessi og svipuð mál með tilvísun til þess, sem Ríkisendurskoðun hafði látið frá sér fara um stofnanir ríkisins, sem fara stórum fram úr fjárlögum. Þegar Alþingi er búið að ákveða hversu stórum hluta af skattpeningum almennings er varið í hin ýmsu verkefni, þá eiga forstöðumenn ríkisstofnana að fara eftir því, ekki fara hundruð milljóna fram úr fjárlögum. Þá eru þeir farnir að gera það sem Alþingi á að gera og þeir hafa enga lagalega heimild til. Voðalega er ég hræddur um að þú myndir hafa önnur orð um þetta ef við íslendingar yrðum einhverntíma svo ólánsamir að framsóknarmaður yrði dómsmálaráðherra (sem ég vona að Guð gefi að verði aldrei og sem betur fer eru góðar horfur á að sú ósk mín rætist).
Ellismellur (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 07:42
Ágæti Ellismellur!
Auðvitað gengur maður í SKROKK á einhverjum! Takk fyrir ábendinguna - þetta er ásláttarvilla :)
Ekki gleyma því að fjárlagaramminn kemur frá ríkisstjórninni inn á Alþingi - þótt Alþingi samþykki fjárlög.
Þótt þú hafir séð ásláttarvillu - þá sýnist mér að þú hafir ekki lesið það sem ég skrifaði. Það hefur minnst með dómsmálaráðherrann að gera - en ég ber mikla virðingu fyrir dómsmálaráðherra - og ég yrði síðastur manna að gera lítið úr þeim manni.
Ég segi:
"Við verðum að hafa skilning á því að löggæslan kosti peninga - og ríkisvaldið verður að leggja það til sem tryggir faglega og góða löggæslu."
Það er kjarni málsins - og þá skiptir ekki máli hvort það er Sjálfstæðismaður eða Framsóknarmaður í dómsmálaráðuneytinu.
Málið er einfaldlega það að ríkisvaldið - ríkisstjórnin með fjárlagafrumvarpi sínu og Alþingi með samþykkt þess - hafa skammtað löggæslunni allt of lítið fé til þess að standa undir þeirri löggæslu sem samfélagið þarf á að halda.
Óþarfi að blanda ríkisendurskoðanda í það mál - enda hef ég sossum gagnrýnt þann góða og hæfa mann í bloggi mínu
... ég frábið mér aðdróttanir um að ég hefði önnur orð um þessa stöðu þótt í sæti ráðherra væri maður úr öðrum flokki. Málið snýst ekki um flokka - heldur hornstein samfélagsins!
Hallur Magnússon, 18.3.2008 kl. 21:55
Stöndum vörð um lögregluna,eða biðjum fyrir löggunni...........ekki veitir af.
Kormakur (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 12:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.