Kaupum alinn Ítalanna - Kristján Möller - og borum stórt gat á Mið-Austurland!
Þær fréttir berast að unnt sé að kaupa einn ítalskan al sem notaður var til að bora aðveitugöng að Fljótsdalsvirkjun á hrakvirði - 10%-12% af upphaflegu kaupverði. Kaupverð og kostnaður við viðhald og kaup á nýrri borkrónu á þennan öfluga jarðgangnabor mun geta numið samtals innan við einn milljarð króna - en aðferðafræðin með að bora jarðgöng með risaal mun spara að minnsta kosti 20% af þeim kostnaði sem hefðbundinn jarðgangnagerð kostar.
Að sjálfsögðu eigum við að kaupa alinn Ítalanna - og bora stórt gat á Miðausturland - til að tengja Eskifjörð, Norðfjörð, Mjóafjörð og Seyðisfjörð. Þegar því er lokið á að sjálfsögðu að halda áfram af Héraði til Vopnafjarðar.
Kristján Möller. Nú átt þú leik. Gakktu í málið - náðu samstöðu fyrir austan og í ríkisstjórn - tryggðu fjármagn - þess vegna með einkaframkvæmd ef það er gjaldið til að fá Sjálfstæðisflokkinn með þér í verkefnið - og tryggðu þetta stórkostlega byggðaverkefni.
Ef þú klárar þetta - þá legg ég til að göngin verði nefnd Möllersgöng!
PS. Var að lesa eftirfarandi á Visir.is. Gott ef satt er! Boltinn samt enn hjá Möller - hann þarf að fá ríkisstjórnina til að samþýkkja að bora stórt gat á Mið-Austurland!:
"Vegagerðin er komin í samstarf með Austfirðingum og Norðmönnum í könnun á hagkvæmni þess að nota risabor við heilborun jarðganga fyrir þjóðvegi."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.3.2008 kl. 14:48 | Facebook
Athugasemdir
Það var rétt Hallur. - Það yrði "stórslys" að láta þennan bor fara úr landi því mér skilst að langt sé eftir af líftíma hans. Með því að nýta hann í tengingu frá Héraði um Seyðisfjörð, Mjóafjörð, Norðfjörð og alveg til Eskifjarðar eða Reyðarfjarðar þá yrði loks hægt að tala um að virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi sé lokið. Þessi milljarður sem kostar að "græja" borinn er smotterí miðað við margt annað sem verið er að skutla milljörðunum í hérlendis þessa dagana. - Jarðgangagerð er án efa eitt arðbærasta verkefni íslensks þjóðfélags.
Haraldur Bjarnason, 1.3.2008 kl. 21:49
En Hallur minn, þú hefur nú líklega tekið eftir hvað við (Íslenska þjóðin) erum glettilega lunkinn við þá "sér í lagi" ríkisstjórnariðju að (glutra öllu hagkvæmu) niður í eitthvert dægurþras.
Eiríkur Harðarson, 1.3.2008 kl. 22:18
eigum við ekki að klára sundabrautina með göngum og tilheyrandi til hagsbóta fyrir 180.000 manns áður en við borum fyrir 8000 manns fyrir austan ?
Óskar Þorkelsson, 1.3.2008 kl. 22:25
Óskar þetta er ekki bara spurning um að bora fyrir 8000 manns. - Þessi ítalski alin er á svæðinu og verður fluttur frá hálendinu niður á firði í veg fyrir skip. Þetta er frekar spurning um að nýta þetta undratæki. Sem sagt rúlla honum í gegnum fjöllin í leiðinni. - Svo er nú þetta með höfðatöluna, þessir 8.000 eru nú örugglega búnir að leggja sitt að mörkum fyrir þessi 180.000 og nýting ítalska borsins ætti ekki að koma í veg fyrir aðrar samgöngubætur.
Haraldur Bjarnason, 1.3.2008 kl. 22:37
Óskar... hvaða 8000 manns er þetta sem þú ert að tala um? Fá semsagt ekki allir austfirðingar að nýta göngin?
Annars þætti mér að vita hversu þjóðhagslega hagkvæm bygging tónlistarhússins í Reykjavíkurhöfn er t.d.? Já og má semsagt ekki gera tvennt í einu, þ.e. vinna að hagsbótum fyrir landsbyggðina og höfuðborgina samtímis?
Alveg óskiljanleg þessi landsbyggðarhræðsla sem hrjáir suma borgarbúa. Ath, ég er borgarbúi sjálfur.
Snæþór Halldórsson (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 22:39
kemur landsbyggðarvælið ...
Óskar Þorkelsson, 1.3.2008 kl. 22:48
Óskar. Góð rök sem þú færðir fyrir máli þínu.... geturðu ekki betur en þetta?
Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 2.3.2008 kl. 00:29
Ruglið um Sundabrautina er farið að jaðra við þráhyggju. Þörf á samgöngubótum í Reykjavík er stórlega ýktar, eingöngu þarf að leggjast í skipulag á vinnutíma borgarbúa, svo menn séu ekki allir á ferðinni á sama tíma.
Reykjavík er að verða eins og gamalt úrelt fjós, þar sem mjaltir voru hjá öllum beljunum á sama tíma, - tvisvar á sólahring.
Heppilegustu samgöngubætur er gjaldfrjáls strætó og það minnkar einnig mengunina í Reykjavík, sem er í sögulegu hámarki nú um stundir. Þetta ætti að vera sumum meira kappsmál, en að hafa stöðugar áhyggjur af því sem er að gerast utan þeirra eigin bæjarmarka.
Það væri nær að nýta það fjármagn, sem á að fara í Sundabrautarævintýrið, til þess að gera miðlæg jarðgöng á Austurlandi og stórbæta vegakerfið á Vestfjörðum. Vegagerð í þessum fjórðungum hefur lengi setið á hakanum.
Það þarf einnig að ljúka því verki sem skellt var inn í fjórðunginn, það er ekki nóg að koma með eitt stykki álver, eitt stykki virkjun, ef fólkið kemst svo ekki á milli til að vinna verkin.
Benedikt V. Warén, 2.3.2008 kl. 09:57
Það eru til öflugir verktakar á Íslandi sem geta auðveldlega keypt þennan Bandaríska bor, sem Kínverjarnir hafa verið að keyra, fyrir Ítalska fyrirtækið.
Það skiptir engu þó þetta brotajárn fari úr landi, kostnaðurinn við það að taka hann í sundur, flytja á nýjan verkstað, setja saman, leggja að honum nógu öflugar flutningslínur fyrir rafmagn og sprengja fyrstu tugi metrana til að koma bornum inn og af stað er mjög mikill, þá er eftir að bæta við kostnaðinum við nýja borkrónu.
Að kaupa gamlan bor er sparnaður sem fljótt getur horfið við fyrstu bilanir, að gera ráð fyrir að það verði ekkert mál að bora þessi göng með bornum og spari 20%, eru einkennilegar fullyrðingar, þegar horft er til reynslunnar af notkun þeirra, mánaða langar tafir við bergþéttingar, til að borinn geti unnið og svo veit ég ekki til þess að búið sé að gera rannsóknarboranir til að finna bestu leiðina né kanna þannig svæðið.
Ég er mjög hlynntur borun gangna og tengingu byggðarlagana, en ég sé ekki ástæðu til að stökkva á brotajárn frá Ítalska verktakanum Impregilo.
Það eru til Íslenskir verktakar, sem hafa starfað með góðum árangri við gangnagerð, bæði hér heima og erlendis, og skilað góðu verki, þeir kaupa svona tæki ef næg vinna er til staðar og hagkvæmt er að nota svona al.
Það er enginn ástæða fyrir sveitarstjórnamenn eða aðra stjórnmálamenn, til að álíta að þeir viti betur, eða að þeir geti farið að stjórna gangnagerð, frekar en að geta rekið eigin sveitarfélögum, eins og þeim var falið.
Stjórnmálamennirnir eiga að fá samþykkta gangnagerð, fjármagna og mynda samstöðu um framkvæmdina, en láta verkfræðingum og jarðfræðingum um að útbúa útboðsgögnin, bjóða verkið út og hafa eftirlit með framkvæmdinni.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 2.3.2008 kl. 09:58
gott svar Þorsteinn.
Óskar Þorkelsson, 2.3.2008 kl. 13:34
Þorsteinn!
Þú segir:
"Stjórnmálamennirnir eiga að fá samþykkta gangnagerð, fjármagna og mynda samstöðu um framkvæmdina, en láta verkfræðingum og jarðfræðingum um að útbúa útboðsgögnin, bjóða verkið út og hafa eftirlit með framkvæmdinni."
Þetta er hárrétt og kjarni málsins.
Það er þetta sem ég er að óska eftir að Möller vinni að!
Hallur Magnússon, 2.3.2008 kl. 13:40
Verk í venjulegri sprengivinnu ganga á mjög mismunandi hraða og ekki er fljótlegt að vinna laust berg með spengiefni, svo ekki sé minnst framvinduna þegar vatnsgangur er mikill í göngum.
Hvað varðar "brotajárn" eins og Þorsteinn kýs að kalla borinn má það ef til vill til sanns vegar færa. Borinn sjálfur talsvert burðarvirki og ætti ekki að þurfa svo mikið viðhald sem slíkur. Mótorar, legur, tjakkar og þess háttar ganga að sjálfsögðu úr sér. Stofnkostnaðurinn við að kaupa þennan bor er ekki mikill og ef verktakar telja að hér sé stóra tækifærið, - hví þá ekki að nota það??
Benedikt V. Warén, 2.3.2008 kl. 14:07
Alveg makalaust hvað Óskar og hans skoðanbræður hafa miklar áhyggjur af því hvað landsbyggðin eru mikill baggi á þjóðfélaginu. Skatttekjur ríkisins af skylgreindri landsbyggð, er 27% af heildartekjum en útgjöld þar eru á móti 15%. Í Reykjavík eru hinsvegar 75% af útgjöldum ríkisins en þaðan koma 40% tekna.
Og varðandi Sundabraut, þá ætti að fresta henni í svona tuttugu ár. Þá legg ég til að almenningssamgöngukerfið verði dregið upp úr skítnum og gert nothæft. Þegar það er komið í lag og eðlilegar tölur komnar á umferðamagn, þá má skoða frekari gatnagerð. Og hættið þið svo að miða afkastagetu gatna við hámarks álagstoppa. Það er hvergi gert í heiminum.
Sigurður Jón Hreinsson, 2.3.2008 kl. 14:46
Jæja, þið smalar í göngum! - Þegar gerð eru göng þá er það kallað gangagerð - Annars eru þetta skemmtileg skoðanaskipti en menn mega ekki sökkva sér í svartsýni. - Er ekki seinkun Sundabrautar núna einfaldlega vegna þess að ríkisvaldið veit aldrei hver er í forsvari fyrir Reykjavíkurborg og hvern eigi því að semja við. - Varðandi rannsóknir fyrir austan þá hlýtur að vera hægt að byggja á einhverju af því sem til er. - Þetta hefur jú verið rannsakað meira eða minna í yfir þrjá áratugi. - Mig minnir að það hafi verið 1978, sem umræður um göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar um Mjóafjörð og þaðan til Héraðs um Slenjudal, fóru hvað hæst. Það voru Jónas Hallgrímsson, þáverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði og Logi Kristjánsson, þáverandi bæjarstjóri í Neskaupstað, sem fóru fyrir þeirri umræðu. - Þannig að jarðgangagerð á þessari leið er ekkert ný í umræðunni. - Möllerinn hlýtur að láta skoða þennan möguleika rækilega.
Haraldur Bjarnason, 2.3.2008 kl. 14:56
Ég hef ekkert áhyggjur af því að landsbyggðin sé baggi á þjóðféwlaginu Sigurður jón, ég hef aftur á móti áhyggjur af því ða stórreykjavíkursvæðið er ALLTAF látið mæta afgangi. Rvk borgar margfalt meira til vegamaála en landsbyggðin en fær langminnst í sinn hlut.. þegar sundabrautin og 2+2 til selfoss er kominn er mér slétt sama um hvort að landsbyggðin bori gat í gegnum hvert og eitt einasta fjall til þess að bæta samgöngur sinar við Reykjavík. Furðulegt raus endalaust frá landsbyggðarfólki.
Óskar Þorkelsson, 2.3.2008 kl. 15:31
... það mætti líka bora gat á Reynisfjall við Vík!
Þar er stundum leiðindarhaft á þjóðvegi no 1
Hallur Magnússon, 2.3.2008 kl. 15:49
Það er merkilegt að verða aftur og aftur vitni af málflutningi eins og Óskars, þar sem hann áttar sig ekki á því, að nær allar samgöngubærur á þjóðvegi eitt koma Reykvíkingum góða. Það er verið að bæta aðkomu til borgarinnar til að auðvelda viðskipti við fyrirtæki og þjónustuaðila sem eru staðsettir innan borgarmarkanna.
Það nálgast nattúrulögmál að allur innflutningurinn til Íslands þurfi að fara um götur Reykjavíkur, helst um gatnamótin á Kringlumýrarbraut og Miklubraut.
Nær öll ríkisreknu apparötin eru þar s.s. sjúkrahús, ráðuneyti og skólar. Þar eru aukheldur aðalstöðvar banka og stórra fyrirtækja og tekjur renna nær óskiptar inn til borgarinnar, þó allir landsmenn leggi sinn skerf til starfanna. Hverjir greiða fyrir flutning á vörum um þjóðvegakerfið og hverjir ferðast mest með flugfélögunum innanlands? Hvert renna síðan tekjurnar?
Það er stöðugt látið líta þannig út, að vegir (jarðgöng), sem eru ekki beinlínis innan borgarmarkanna séu styrkur til landsbyggðarinnar. Þvílíkt bull. Keflavíkurvegurinn (Reykjanesbrautin) er ekki innan borgarmarkanna og samt eru það rúmleg helmingur þjóðarinnar sem notar þann veg til að komast af bæ og býr innan borgarmarka í landnámi Ingólfs.
Í raun er það löngu úrelt að úthluta Reykjavík fjármunum til samgöngubóta. Þetta fjársterka samfélag á að geta séð um sínar götur af eigin tekjustofnum, í stað þess að sjúga úr fjárvana samfélagssjóðum fé í innanbæjarfamkvæmdir.
Það eru ekki forréttindi að hafa samgöngur, - það eru mannréttindi, eins og einhver bloggaði annarstaðar.
Benedikt V. Warén, 2.3.2008 kl. 16:33
Benedikt.. ég fór síðast akandi til austfjarða árið 1994.. er ekki alveg að kaupa það að göng þar í gegnum alla hóla og fjöll komi reykvíkingum til góða.. ég fer aftur á móti talsvert í mína heimabyggð fyrir vestan og það e utan vegar númer eitt og er álíka afskiptur af vegamálastjórn eins og suðvestur hornið og stingdu þessum orðum þínum þangað sem þau eiga heima.. dimmum og þröngum stað.
Óskar Þorkelsson, 2.3.2008 kl. 17:41
Óskar. Þegar fjallað er um þjóðveg eitt, er ekki verið að fjalla um "göng þar í gegnum alla hóla og fjöll". Ég var einfaldlega að benda á að þegar hlutirnir eru ekki innan borgarmarkanna skrifa menn eins og þú og hafa "aftur á móti áhyggjur af því ða stórreykjavíkursvæðið er ALLTAF látið mæta afgangi". Þett er einfaldlega röng fullyrðing.
Hér fyrr bloggaði ég einnig um að: "Það væri nær að nýta það fjármagn, sem á að fara í Sundabrautarævintýrið, til þess að gera miðlæg jarðgöng á Austurlandi og stórbæta vegakerfið á Vestfjörðum. Vegagerð í þessum fjórðungum hefur lengi setið á hakanum."Nær allar samgöngubætur á þjóðvegi eitt koma reykvíkungum einnig til góða og auðvelt að rökstyðja það. Ég var jafnframt að benda á að stórt, öfluflugt og ríkt samfélag eins og Reykjavík er, á ekki að þurfa að fá ríkisstyrk til samgöngubóta innanbæjar.
Hér er verið að fjalla um vegi á milli bæjarfélaga ekki innanbæjargötur. Þær samgöngubætur kunna hins vegar í einhverjum tilfellum, að verða hvati til frekari sameiningar minni sveitarfélaga . Í lokin vil ég nefna, að það er áhugavert að upplifa þína sérstöku kurteisi.
Benedikt V. Warén, 2.3.2008 kl. 18:24
þú ert á villigötum Benedikt því þótt stórreykjavíkursvæðið sé öflugt og hagkvæmara í rekstri en fámenn byggðalög úti á landi þá borga reykvíkingar miklu meira til vegamála en landsbyggðin gerir, ástæðan er einföld, það búa miklu fleiri á suðverstur horninu en restini af landinu.
hér þarf samgöngubætur strax til þess að þjóðfélagið í heild sé ekki að tapa peningum á óþarfa biðtíma tugþúsundamanna í bílaröðum í reykjavík. að eitthvað byggðarlag fái göng eins og bolungarvík (mín heimabyggð) er hreinlega þjóðhagslega óhagkvæmt og sérstaklega´i ljósi þess að þessi byggð er að deyja af völdum kvótaskerðinga eins og önnur lítil byggðarlög á landinu. Göngin út í b.vík kosta 1/3 af því sem sundagöng mundu kosta.
Óskar Þorkelsson, 3.3.2008 kl. 12:25
Legg til að Sundagöngum verði fresta í bili, uns gengið hefur verið til sameiningarkosninga sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu.
Það yrði þá farið yfir svæðið sem eina heild og samgöngur skipulagðar sem slíkar.
Varðandi laust berg og vatnsflæði í gangnagerð, þá borar maður inn í bergið og dælir sementsefju til að stöðva lekann, ef mikið er af lausa bergi er betra að borar og sprengja lausa bergið, því krónan á bornum virkar ekki nema bergið sé sæmilega þétt.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 5.3.2008 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.