Ólafur Friðrik: 1, 2 og Réttarholtsveg í stokk!
29.2.2008 | 08:54
Ólafur Friðrik Magnússon borgarstjóri ætti að hefja samráðsverkefnið 1,2 og Reykjavík með því að taka undir með íbúum í Bústaðahverfi þegar þeir segja ! "1,2 og Réttarholtsveg í stokk" og "1,2 og öruggar gönguleiðir yfir Bústaðaveg!"
Reykjavíkurborg hyggst loka vinstri akrein af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut. Alfeiðing þess verður stóraukin umferð um Réttarholtsveg - þar sem umferð er nú allt of mikil og allt og hröð nú þegar.
Það eru ekki góð tíðindi að umferð um Réttarholtsveg aukist enda umferð gangandi barna og unglinga mjög mikil yfir þessa götu sem er í miðju íbúðahverfi og slítur sundur skólahverfi.
Reykjavíkurborg hyggst setja undirgöng undir Réttarholtsveginn sem mótvægisaðgerð vegna aukinnar umferðar. Undirgöng eru bara ekki nóg!
Íbúar vilja að akandi umferð um Réttarholtsveg verði sett í göng frekar en að byggð verði undirgöng fyrir gangandi vegfarendur. Þannig er einnig hægt að gera meira úr umhverfi svæðisins við Réttarholt, en á þessu svæði eru tveir grunnskólar, tveir leikskólar og félagsaðstaða fyrir aldraða.
Ef slíkt yrði gert mætti jafnvel bæta við tveimur sambærilegum íbúðarturnum fyrir íbúðir aldraðra og nú eru við Hæðargarð í tengslum við þjónustumiðstöð aldraðra þar!
Einnig stórbæta aðstöðu kring um Réttarholtsskóla - ekki veitir af!
Á íbúafundi í gærkvöldi kom skýrt fram að íbúarnir eru mjög uggandi um þessar breytingar og krefjast þess að mótvægisaðgerðun vegna þessa verði lokið áður en vinstri beygju verður lokað - ef henni verður lokað sem margir hafa efasemdir um að sé rétt að gera.
En það var fleira sem kom fram.
Íbúarnir ítrekuðu enn og einu sinni nauðsyn þess að setja göngubrýr og undirgöng á hina miklu umferðagötu Bústaðaveg - en Bústaðavegurinn slítur í sundur skólahverfi Réttarholtsskóla og félagshverfi Víkings - og hamlar þannig möguleika þeirra barna sem búa norðan Bústaðavegar að stunda íþróttir með Víkingi sem hefur aðstöðu sína í Víkinni - sunnan þessarar þungu umferðaræðar.
Ólafur Friðrik!
Ég treysti því að þú sýnir viljann í verki, takir á með okkur hinum í hverfinu þínu og segir: "1,2 og Réttarholtsveginn í stokk!" og einnig "1,2 og öruggar gönguleiðir yfir Bústaðaveg!"
... og ekki bara það - heldur sjáir til þess að þetta verði framkvæmt!
TIL ÍBÚA Í BÚSTAÐAHVERFI!
ENDILEGA SKRIFIÐ ÁLIT YKKAR Í ATHUGASEMDIR VIÐ ÞETTA BLOGG OG SÍNUM BORGARYFIRVÖLDUM AÐ OKKUR ER ALVARA!!!
Aukið samráð við íbúa borgarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:19 | Facebook
Athugasemdir
Ég tek heilshugar undir það að hér er þörfin brýn. Það er ótækt að stórar umferðargötur slíti í sundur skólahverfi og félagshverfi íþróttafélaga og er alls ekki í takt við nútíma hugsun og skipulag íbúðahverfa. Það er því von mín að nú verði tekist handa og þessi mál kláruð á réttan hátt.
Ólafur Friðrik, ég hvet þig því til að setja hag og öryggi barnanna okkar í forgang og sjáir svo um að hvorutveggja af ofangreindu komist til framkvæmda hið fyrsta. 1,2 or Réttarholtsveg í stokk og öruggar gönguleiðir yfir Bústaðaveg.
Guðlaug (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 09:32
Tek undir þetta þó ég sé landsbyggðarpakk. Ég fór ófáar ferðirnar þarna yfir misvakandi á leið í skólann og ek mikið þarna um enda býr fjölskyldan í hnapp í kring um Réttarholtsveg/Bústaðaveg.
Ég veit manna best hvað Bústaðavegurinn er hættulegur gangandi vegfarendum, enda var ég ekinn niður á gagnbraut þar sex ára gamall.
Það er sumsé mál að fara að gera hlutina. Ekkert hangs!
Hrannar (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 09:45
Hér kemur ályktun fundarins:
Ályktun íbúafundar Bústaðahverfis Opinn fundur íbúasamtaka Bústaðahverfis telur að samhliða umdeildri lokun beygju af Bústaðavegi til norðurs inn á Reykjanesbraut, verði að leggja í verulegar mótvægisaðgerðir við Réttarholtsveg. Ljóst er að með slíkum lokunum eykst umferð um Réttarholtsveg um a.m.k. 10%. Erfitt er að sjá að vegurinn þoli aukið álag bílaumferðar eins og staðan er í dag. Á svæðinu við Réttarholtsveg eru leikskólar, tveir grunnskólar og félagsstarf eldri borgara. Skilyrði fyrir lokun beygju af Bústaðarvegi, er að áður verði lokið við mótvægisaðgerðir við Réttarholtsveg.Anna Kristinsdóttir, 29.2.2008 kl. 12:12
Tek heils hugar undir ályktun fundarins. Umferðin um Réttarholtsveg, sérstaklega á álagstímum er allt of mikil. Hvað best er í framtíðarplönum, veit ég ekki, en það er ljóst að mótvægisaðgerðum verður að vera lokið, áður en lokun beygju af Nústaðavegi verður að veruleika.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 29.2.2008 kl. 13:44
Ég átti heima á horni Réttarholtsvegar og Bústaðavegar í háttnær 17 ár og styð allar hugmyndir sem snúa að því að bættu umferðaröryggi á þessu svæði. Sjálfur hefur núverandi borgarstjóri búið í Fossvoginum í mörg ár og átt börn í skólum beggja megin Bústaðavegarins þannig að hann hlýtur að sjá hagræðið í þessu.
En eru komnar einhverjar hugmyndir eða útfærslur eða teikningar af því hvernig þetta yrði „stokkað“ við Réttarholtsveginn?
Magnús V. Skúlason, 29.2.2008 kl. 15:22
Umræddur fundur í gærkvöldi var fróðlegur í marga staði. Þar kom fram að búið er að eyrnamerkja peninga í lokun vinstri beygjunnar af Bústaðavegi til norðurs á Reykjanesbraut sem og undirgöngin undir Réttarholtsveg. Umferðamælingar hafa gefið sólarhringsumferð um þessa beygju 2096 bíla og gert er ráð fyrri að 500 – 600 af þeim muni fara um Réttarholtsveg skv upplýsingum sem komu fram í kynningu borgaryfirvalda. Þetta mun samsvara um 10% aukningu á umferðarmagni Réttarholtsvegar. Hvað varðar aðra umferð kom ekki fram hvernig hún mun dreifast en gera má ráð fyrir að hún dreifist að einhverju leiti á Grensásveg, Tunguveg og Sogaveg auk þess sem hugsanlegt er að vegfarendur muni velja sér aðrar akstursleiðir en Bústaðaveg ef þeir koma lengra að. Í fljótu bragði mætti ætla að fyrirhuguð undirgöng væru nógar mótvægisaðgerð en þegar betur er að gáð gengur þetta of skammt. Í kynningu frá fulltrúum borgaryfirvalda kom fram að gert er ráð fyrir að göngin mundu gagnast þeim nemendum Breiðagerðisskóla sem búa í syðri hluta svæðisis, það er svæðinu sem liggur um það bil sunnan Langagerðis. Þetta er trúleg rétt mat og þá stendur eftir að aukin umferð verður áfram hættuvaldur fyrir þau börn sem búa norðan Langagerðis. Með göngum undir Réttarholts hæðina fæst samfellt svæði sem ætti að vera öruggt fyrir gangandi vegfarendur og nýtast til samafélagslegrar uppbyggingar að auki. Þetta mundi einnig minnka hættuna á umferðaraukningu á Tunguvegi og Sogavegi sem báðar eru 30 km götur mitt í íbúðahverfinu. Ég tek því undir áskorunina hér að ofan og segi „1,2 og Réttarholtsveginn í stokk“. Ennfremur ítreka ég ummæli mín frá því á fundinum í gærkvöldi og legg áherslu á að sett verði undirgöng fyrir gangandi vegfarendur á 4-5 stöðum á Bústaðaveginn frá Grensásvegi að Reykjanesbraut. Göngubrýr eru ekki fýsilegur kostur á Bústaðavegi þó þær gagnist vel á stórfljóti eins og Miklubraut. Ég vil því umorða seinni áskorunina á eftirfarandi máta „1,2 og öruggar gönguleiðir undir Bústaðaveg“
Þröstur Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 15:29
Þröstur!
Það er einn staður sem er fýsisilegur fyrir göngubrú - því hún fellur í landslagið - það er við Grímsbæ.
Kv
Hallur
Hallur Magnússon, 29.2.2008 kl. 21:52
Ég tek heilshugar undir þetta. Ég hef stundum hugsað að það sé ótrúlegt að ekki verði fleiri slys á þessu svæði, bæði vegna umferðarþunga og einnig vegna þess að algengt er að ökumenn blindist á Réttarholtsveginum rétt áður en þeir koma að gangbrautinni við Réttarholtsskóla. Ég þurfti sjálf að ganga þarna yfir um tíma þegar ég var í Breiðagerðisskóla og fannst næg umferð þarna um þá, oftar en ekki þurfti maður að hlaupa yfir því bílstjórar virtust ekki sjá mann. Núna hefur hún aukist og mig hryllir við því að hún verði meiri. Hraðinn er oft mikill, jafnvel eftir að settar voru hraðahindranir og hraðamælingar. Bústaðaveginn þekkir maður einnig vel og því miður hafa orðið hér mörg slys sem koma hefði mátt í veg fyrir með betri aðstöðu fyrir gangandi vegfarendur.
Júlíana , 1.3.2008 kl. 18:44
Ég er sammála þessum tillögum. Fundurinn í Réttarholtsskóla var gott framtak. Ég las fundarboðið í flýti og sá að það átti að loka fyrir umferð hjá Sprengisandi og gera göng undir Réttarholtsveg. Ég hélt að nú ætluðu borgaryfirvöld loksins að bregðast við óskum íbúa og loka á umferð inn á Bústaðaveg frá Reykjanesbraut og auka öryggi gangandi vegfarenda í hverfinu. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum, þegar á fundinum var kynnt ákvörðun um að auka umferð á Bústaðavegi og Réttarholtsvegi. Göngin eru síðan kynnt sem mótvægisaðgerð við þessari auknu umferð eins og það hafi ekki verið ærin ástæða fyrir, að gera göng eða brú. Sem betur fer er ekki byrjað á þessari framkvæmd og enn hægt að koma í veg fyrir mistök. Ég held að fyrirhuguð lokun á vinstri beygju af Bústaðavegi við Sprengisand sé ekki gáfuleg og heldur ekki til þess fallin að ná markmiðum um minni umferð á Bústaðavegi og Réttarholtsvegi.
Ég styð tillögur Halls og fleiri borgarbúa um að setja Réttarholtsveg í stokk og gera göng og brýr á Bústaðavegi.
Óskar Ármannsson (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 12:34
Styð ofangreindar tillögur. Allt sem getur aukið öryggi gangandi vegfarenda, sem fyrst og fremst eru börn á leið í og úr skóla, um Bústað og Réttarholtsveg er af hinu góða. Ég vil líka nota tækifærið og mótmæla því að hávær þrýstihópur úr öðru hverfi geti heft svo mikið ferðafrelsi íbúa Bústaðahverfis til þess eins að komast betur að sjálfir. Lokun vinstri beygjunar mun ekki einungis auka gegnum umferð um hverfið það mun skapa stíflur á Réttarholtsvegi og brúnni á Miklubraut. Það er bara verið að færa vandamálið til hins verra og íbúar Bústaðahverfis eru þeir sem þurfa að líða fyrir það. Ef betra flæði um Reykjanesbrautina er raunverulega ástæðan af hverju er þá ekki frekar byrjað á að loka vinstri beygjunni úr Súðavogi? Þar er önnur auðveld útakstursleið stutt frá og engin börn á leið í skóla sem eru í enn meiri hættu vegna rangra ákvarðanna?
Sigríður (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 11:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.