Er Evrópusambandsaðild margfalt verðmætari en EES aðild?
9.2.2008 | 15:43
Aðild Íslendinga að Evrópusambandinu og að evrunni sparar íslenskum heimilum 50 til 100 milljarða á ári á meðan aðalforsendan fyrir EES samningnum á sínum tíma var 4 til 5 milljarða króna tollafríðindi á fiski. Þetta kom fram hjá Árna Páli Árnasyni eins öflugasta Alþingismanns Samfylkingarinnar á ráðstefnu norsku Evrópusamtakanna.
Það er alveg ljóst að íslenska krónan er ekki gjaldmiðill 21. aldarinnar eins og ég hef margoft bent á. Ef við viljum endilega halda í krónuna - þá skulum við skipta yfir í færeysku krónuna.
Þótt það sé ekki á dagskrá ríkissjórnarinnar - þá verðum við að taka afstöðu til þess hvort við viljum hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og taka upp Evruna. Það skaðar okkur að ýta þeirri umræðu og þeirri ákvörðun á undan okkur - eins og ríkisstjórnin virðist ætla að gera - þótt skýr vilji hafi komið fram hjá ráðherrum bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um að upptaka Evru sé æskileg.
Minni einnig á tímabærar vangaveltur hinnar öflugu framsóknarkonu Valgerðar Sverrisdóttur á sínum tíma um að skoða beri möguleika á þvi að taka upp Evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Geri ráð fyrir því að Valgerður sé sammála mér að við ættum að hefja aðildarviðræður ef ekki er mögulegt eða hagkvæmt að taka upp Evru einhliða - án þess ég viti það. Hún hafði myndugleik og hugrekki til að taka þá umræðu upp á sínum tíma.
Mín skoðun er nefnilega sú að hag okkar sé betur farið innan Evrópusambandsins - og að við eigum að hefja viðræður hið snarasta.
Ég áskil mér hins vegar rétt til þess í þessu máli sem öðrum að skipta um skoðun ef fram koma gild rök sem sýna framá að ég hafi rangt fyrir mér - en hingað til hafa þau ekki komið fram - ekki einu sinni hjá vini mínum og félaga Bjarna Harðarsyni.
Við megum ekki láta misskilið þjóðarsstolt flækjast fyrir okkur í þessu máli - frekar en öðrum.
Að þessum orðum sögðum held ég fullur þjóðarstolts á þorrablót með Hornfirðingum og gæði mér á hákarli og súrmeti eins og sönnum Íslendingi sæmir.
Írleg frétt um ræðu Árna Páls er að finna á Eyjunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:50 | Facebook
Athugasemdir
Ég er eindreginn stuðningsmaður EU ! vil sækja um sem fyrst því vaxtaokrinu verður að linna ogh krónan má sigla sinn sjó ásamt kvótagreifunum.
Óskar Þorkelsson, 9.2.2008 kl. 16:13
Rökin hafa löngu komið fram, Hallur, sumir taka bara ekki eftir eða gefa sér ekki tímann til að hugleiða málið í kjölinn. Það eru líka mörg vandkvæði við að taka upp evru, í 1. falli útheimtir það mörg ströng skilyrði í fjármálastjórn og efnahagsmálum, í 2. lagi ESB-aðild, og í 3. lagi myndi það þrengja mjög kosti okkar til sveigjanleika vegna okkar sérstöku atvinnuvega. "50 til 100 milljarða" fullyrðingin er jafnmikið út í hött eins og hún er hlægilega ónákvæm; Árni Páll veit greinilega miklu skemmra sínu nefi um þessi mál.
Jón Valur Jensson, 9.2.2008 kl. 23:04
Sammála Jóni Val.Þurfum að uppfylla ákvæði varðandi vexti og verðbólgu sem myndi til að mynda kosta okkur margfalt þessa 50-100 miljarða sem er svoldið ruglingsleg tala í máli Árna Páls.Og ekki sýst þær fórnir varðandi yfirráð yfir okkar náttúruauðlindum.Gott og vel krónan er kannski ekki gjaldmiðill framtíðarinnar en það er heldur ekki upptaka Evru að óuppfylltum skilyrðum.Því ekki Jen eða Franka?Spyr sá sem ekki veit.
jósep (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 01:51
Rökleysan í þeim sem eru á móti aðild er algjör; það að þurfa að uppfylla ströng skilyrði í fjármálastjórn er einmitt það sem Ísland þarf!, og sparnaðurinn fyrir Íslensk heimili að losna við það verðbólgu og verðtryggingar vaxtaokur sem við lifum við nú er einmitt ein stærsta ástæðan fyrir því að innganga í ESB er mjög góður kostur fyrir Ísland. Það stenst enga skoðun að íslandi sé að hætta náttúruauðlindum sínum við ESB inngöngu, við þyrftum meira að segja ekki að breyta fiskveiðikerfinu okkar við inngöngu og myndum sitja ein að fiskveiðiauðlindinni okkar, rétt eins og við gerum nú - áhugasamir geta lesið skýrslu forsætisráðherra um ESB síðan á síðasta ári, þetta kom ágætlega fram þar, sérstaklega í áliti Ágústar og Össurar. Þó er alltaf gott að slá varnagla til að róa Íslensku þjóðina og LÍÚ, og setja samningsmarkmið fyrir Ísland sem tryggja að þetta kerfi muni halda sér til framtíðar fyrir okkur Íslendinga. Ég þori að veðja að þeir samningar verði hagstæðir, rétt eins og samningur Finna um undanþágur fyrir landbúnaðinn þeirra.
.
Ísland er í ESB - við eigum bara eftir að taka upp gjaldmiðilinn, landbúnaðarstefnuna (sem er með lægri ríkisstyrki en Íslenska landbúnaðarstefnan) og tollamálin sem myndu færa okkur mun lægra matarverð. Ávinningurinn af inngöngu er algjör, og það er frábært að sjá Framsóknarmenn vera enn á þeirri skoðun að Evrópusambandsaðild sé réttur kostur, þrátt fyrir að sumir þingmenn flokksins hafi verið út á þekju í þessu máli upp á síðkastið.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.2.2008 kl. 03:58
Íslensk heimili eru búin að fara útí þá óráðsíu að skuldsetja sig uppí topp til að geta leyft sér munað einsog dýrar utanlandsferðir bíla og dýrt innbú. það voru mörg dæmi þess að þegar að bankarnir hófu að bjóða uppá svokallaða endurfjármögnun, þá gjörsamlega klikkaðist almenningur og henti öllu útúr húsum sínum og endunýjaði alltsaman útá lán Sko lán þarf alltaf að borga til baka og það með vöxtum, þetta eru ekki ný sannindi og glórulaust að heimta upptöku annars gjaldmiðils þegar að kemur að skuldadögum. þá er einfaldlega að vinna meira og spara til að greiða niður lánin. Fólk verður að átta sig á því það er ekki hægt að taka lán fyrir sumarfríum og sófasetti, svoleiðis útgjöld verður að greiða af bankabók, það vita allir þjóðverjar og norðmenn
Vestur-Evrópusambandslöndin eiga ekki sæluna í framtíðinni. Fyrirtæki einsog Nokia pakkar saman allri sinni framleiðslu í Þýskalandi og flytur hana til Rúmeníu þar sem réttindi verkafólks til sumarfría og veikindadaga eru engin á við vestræn réttindi og mánaðarlaun rúm 20 þúsund. Er eitthvað því til fyrirstöðu að önnur fyrirtæki elti Nokia? hver verður staða evru eftir 10 ár? nei takk ekki ESB fyrir okkur við höfum séð það miklu svartara hérlendis, Framundan eru mörg stór verkefni svosem bygging háskólasjúkrahúss og stórverkefni í vega og gangagerð, þessi verkefni hafa verið á bið á meðan að þenslan er að ganga til baka. Vestur-Evrópa er í byrjun stórrar kreppu sem að ekki sér fyrir endann á, flótti fyrirtækja yfir til austur-Evrópu og og yfirtaka ódýrs vinnuafls á atvinnulífinu þýðir bara aukið atvinnuleysi, svo ekki sé nú minnst á hrikalegt ástand fiskistofna aðildarlanda ESB. Evrópustjórnmálin eiga vanda fyrir höndum núna þegar að vald Pútíns eykst óðum. Við höfum hreinlega nóg með okkur hér á Íslandi, við höfum engan áhuga eða burði til að létta undir með ESB. Íslenska þjóðin hefur verið á klikkuðu neyslufylleríi og það er sárt að láta renna af sér án þess að fá ESB afréttara en mikið betra þegar að til lengri tíma er litið
Guðrún Sæmundsdóttir, 12.2.2008 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.