Löngusker langbesti kosturinn!
26.1.2008 | 18:13
Löngusker er langbesti kosturinn sem flugvallarstæði fyrir Reykjavíkurflugvöll framtíðarinnar. Að sjálfsögðu á að reisa íbúðabyggð í Vatnsmýrinni eins og frændi minn Gísli Marteinn vill. Íbúðabyggð í bland við fyrirtæki sem tengjast starfsemi háskólanna og starfsemi Ríkisspítala.
Á sama hátt er Sundabraut í göng langbesti kosturinn sem framtíðar vegastæði fyrir Vesturlandsveg inn á höfuðborgarsvæðið eins og frændi minn Björn Ingi Hrafnsson hefur margoft bent á.
Vonandi halda Faxaflóahafnir áfram að þrýsta á samgönguyfirvöld landsins í að leggja Sundabraut í göng og haldi boðinu um að sjá um framkvæmdina opnu undir nýrri styrkri stjórn frænda míns Júlíusar Vífils.
Það er tilvalið að nýta efni sem kemur upp við gangnagerð vegna Sundabrautar og gangnagerðar vegna ganga undir Öskjuhlíð í landfyllingu á Lönguskerjum fyrir flugvöll framtíðarinnar.
Þá á ekki að ljúka göngum Sundabrautar við norðurströnd Reykjavíkur. Að sjálfsögðu á að halda áfram akrein undir Reykjavík og upp við Reykjavíkurflugvöll á Lönguskerjum. Þaðan áfram á brú yfir á Álftanes þar sem Vesturlandsvegur tengist Reykjanesbraut.
Svo á að sjálfsögðu að leggja Hringbrautina í Vatnsmýrina í stokk. Hef aldrei skilið af hverju R listinn og samgönguyfirvöld heyktust á því á sínum tíma. Væntanlega hafa snillingarnir í Vegagerðinni eitthvað haft með það að gera - þótt ég muni það ekki.
Treysti því að Gísli Marteinn og Hanna Birna haldi áfram vinnu við að undirbúa framtíðarflugvallarstæði fyrir Reykjavíkurflugvöll á skynsömum nótum - þótt þau hafi lofað að sýna flugvöllinn í Vatnsmýrinni á skipulagsuppdráttum næstu 2 árin - enda hefði þeim uppdráttum hvort eð er ekki verið breytt fyrr en eftir þann tíma.
Mér þætti athyglisvert að sjá niðurstöðu viðhorfskönnunar þar sem spurt væri: "Hvar vilt þú að Reykjavíkurflugvöllur verði staðsettur ef hann verður færður úr Vatnsmýrinni?"
Viss um að stór hluti þeirra sem vill völlin í Vatnsmýrinni myndi velja Löngusker!
Vilja íbúðabyggð í Vatnsmýri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Facebook
Athugasemdir
Sjálfstæðismenn seldu sál sína í sinni valdagræðgi og eru búnir að lofa því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni a.m..k. til 2024. Þú talar um að skipulaginu verði breytt eftir 2 ár. En ef það verður gert er núverandi meirihluti fallinn, því málefni flugvallarins var eitt af aðalmálum Ólafs F. Magnússonar og í raun ástæða þess að hann fór í þetta nýja meirihlutastarf. Nýleg skoðanakönnun sýndi að mikill meirihluti vildi hafa flugvöllinn áfram þar sem hann er. Þannig að það er ekki hægt að spyrja svona um staðsetningu flugvallarins, því meirihlutinn vill ekki annað en hann verði í Vatnsmýrinni.
Jakob Falur Kristinsson, 26.1.2008 kl. 18:31
Tek undir flest sem þú segir í grein þinni, en ekki vil ég fluvöll á Löngusker, ef flugvöllur á að vera í Reykjavík, þá er hann best staðsettur á Hólmsheiði, eða þá bara nota Kópavogsflugvöllinn á Sandskeiði.
Það á að fylla úpp í Skerjafjörð út að Lönguskerjum allt frá Nautshól og út á Seltjarnarnes, og með því fengjum við framtíðarland fyrir íbúðabyggð, sem er nær eins stór og Reykjvík vestan Elliðaáar í dag. Það er skandall að ekki sé búið að tengja Reykjavík og Álftanes saman fyrir löngu, og svo í framhaldinu tengingu við undir Hafnafj. og koma út norðan við Álverið.
haraldurhar, 26.1.2008 kl. 18:31
Ég vil aðeins ítreka spurningu sem áður hefur verið spurt: Ef landrými er svo mikilvægt þarna í kringum háskólann og Lsp., og það þykir ekki tiltökumál hjá einhverjum lokuðum, pólitískum vinahópi að fylla upp undir flugvöll úti á Lönguskerjum, er þá ekki einfaldara að halda vellinum þar sem hann er og fylla upp svæðið kringum Löngusker undir þessa íbúða- og iðnaðarbyggð sem svo nauðsynleg er talin þarna?
Menn skyldu hafa í huga að eitt þeirra "fyrirtækja" sem "tengjast starfsemi háskólanna og starfsemi ríkisspítala" (orðrétt tilvitnað) nefnist sjúkraflug. Sú hugmynd sem stundum er nefnd, að flytja flugvöllinn upp á Hólmsheiði, ja, kallar hún ekki á byggingu hátæknispítala þar í grennd?
Mig minnir að þröngur hópur sjálfstæðismanna hafi viljað hafna öllum hugmyndum um blokkabyggð R-listans á Geldinganesi, vegna þess að hann (hópurinn) hugði gott til glóðarinnar að skipuleggja næsta snobbhill þar uppfrá. Nú heyrast þær hugmyndir ekki lengur, þar sem fyrirhugað vegstæði Sundabrautar er ætlað um Geldinganes og hver vill hafa snobbhill við hraðbrautina?
Ég held hins vegar að kastalabyggingar þær sem sá hópur sjálfstæðismanna sem aldrei hefur farið lengra út úr borginni en suður á Keflavíkurvöll, vill reisa í Vatnsmýrinni, yrðu miklum mun tilkomumeiri úti á Lönguskerjum.
Auðvitað að því gefnu að þeir sömu sjálfstæðismenn ætli ekki að "sóa" þessu "rándýra" byggingarlandi undir trefilvafða, eignalausa, námslánaþiggjandi námsmannahópa sem engu skila til flokksins nema hávaðahrópum af þingpöllum.
Að síðustu: Flugvöllurinn er ekki einkamál Reykvíkinga, og Reykjavík er ekki höfuðborg Reykjavíkur, heldur landsins alls. Það sama gildir um Landsspítalann - þess vegna heitir hann Lands-spítali. Nefnilega.......
Gunnar Th. (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 18:38
Það er höfuðatriði að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni fyrir landsbyggðina og Reykvíkinga. Hólmsheiði mun aldrei koma til greina því þá erum við komin alltof hátt og örfáar vélar munu geta lent þar og þær eingöngu blindflugsvélar því völlurinn verður alltaf í skýjunum, þar af leiðandi verður gert út um flugnámskennslu. Byggja ætti frekar hátt í loft heldur en út um allar endileysur. Þessar kvartanir yfir flugumferð sem verður að teljast mjög lítil á heimsmælikvarða og hefur meira að segja flugumferð verið bönnuð frá 23:30 til 07:00, öllu nema neyðarflugi. Menn ættu að líta á erlendar stórborgir og íhuga hvað aðrir mega búa við.
Það er höfuðmál fyrir landsbyggðina og Reykvíkinga að flugvöllurinn verði staðsettur í Vatnsmýrinni um ókomna framtíð. Sjúkrahús skammt frá og öll þjónusta sem landsbyggðin þarf að sækja og öfugt.
Það er að mínu mati óhugsandi að flytja völlinn. Einna helst má landsbyggðin ekki við því. Fólk ætti að koma út í sjávarþorpin og horfa á hvernig allt er smám saman að fara í eyði vegna þess að hér eru ekki atvinnutækifærin, launin og hvað er það annað en misréttindi að ég fái 3 milljónir fyrir húsið mitt hér fyrir austan en 30 í Reykjavík?
Menn ættu að reyna að hugsa um frekari uppbyggingu á landbyggðinni áður en það verður of seint.
Steingrímur Páll Þórðarson, 26.1.2008 kl. 18:53
Ágæti Gunnar.
Ein rökin fyrir því að ég tel Löngusker kost nr. 1 er einmitt sjúkraflugið - sem er mjög mikilvægt! Láttu mig vita það eftir að hafa búið úti á landi - þar sem öllu skipti að koma bráðveikum sjúklingum á hátæknisjúkrahús á eins stuttumtíma og unnt er. Því er Hólmsheiðin ekki góður kostur.
Jakob. Meirihælut þjóðarinnar vill Vatnsmýrina einmitt út af þessu - og vegna þess að landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið þurfa á snurðulausumflugsamgöngum að halda. Hins vegar er Vatn´smýrin of dýrmæt fyrir Reykvíkinga til að eyða henni í flugvöll - þess vegna eru Löngusker besti kosturinn - og ég þess fullviss um að landsbyggðin væri til í slíka málamiðlun um legu flugvallarins.
Hallur Magnússon, 26.1.2008 kl. 18:55
Ef Reykvíkingar vilja ekki flugvöll, þá kæmi til álita að skila 50 % af stjórnsýslunni til annarra sveitafélaga, þannig að ekki þurfi þessa miðstýringu, dreifa sérfræði þjónustau sjúkrahúsannna um landið, þannig að allir þegnar Íslands sitji við sama borð þegar þarf að sækja þessa þjónustu.
JJ (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 19:28
Ég ætla eins og vanalega að vera stuttorður. Ég styð Hall í hans hugmyndum.
Flugvöllurinn með þeim rökum að LSH sé þarna hinum veginn við götuna er bara kjaftæði ! Slysadeildin er í Fossvogi en ekki á gamla landspítalanum svo rökin við nálægðina við flugvöll eru enginn, einnig er það svo að flestir sem lenda í slysi úti á landi fá þyrluflug til reykjavíkur og hún lendir við borgarspítalan.. segi og skrifa BORGARSPITALANN því landspitalinn gamli hefur ekki þyrlupall. já ég veit að borgarspítali er lsh.. en það er orðhengislháttur því borgarbúar í reykjavík byggðu slysadeildina og sjúkrahúsið sem landsbyggðafólkið sækir í.
Flugvöllurinn á að fara þaðan sem hann er og löngusker eru frábær kostur því þá mundi verða gerð braut frá vatnsmýri yfir í Álftanes og þanan til Hafnarfjarðar. ÞEtta ásamt sundabraut mundi gera Reykjavík loksins að þeirri borg sem gott er að búa í. En sjálfstæðismenn virðast vilja vera afturhald með Óla Falska í broddi fylkingar, eins og suaðir með blindan forystusauð.
Flugvöllurinn er stærsti dragbítur á framþróun miðbæjarins sem hugsast getur. miðbærinn mun falla í gleymsku og dá með hugmyndum óla Falska.. ég meina þvílík mistök að vernda þessi djöfuls kofaskrifli og kosta til þess hátt í 800 milljónir. ! Miðbærinn hefði átt að fá að stækka út í vatnsmýri og sundabraut á að fara í göng og flugvöllinn út í hafsauga öllum til hagræðis !
Óskar Þorkelsson, 26.1.2008 kl. 19:29
Við eigum að nota Keflavíkurflugvöll og laga aðstæðuna á Sandskeiði fyrir einkaflug. Það er fínt hátæknisjúkrahús í Reykjanesbæ sem er sjálfsagt að nýta betur.
Mikil gróska er á "vellinum" þar er m.a. rekinn skóli sem nýtist allri landsbyggðinni, fínt að fljúga til Keflavíkur hvaðan sem er af landinu og keyra svo stutta stund í háskólaþorpið eða á sjúkrahúsið.
Ester Sveinbjarnardóttir, 26.1.2008 kl. 19:31
Þegar sjúkraflugvél lendir á Reykjavíkurflugvelli affermir hún sjúklinga sína ekki á sama stað og Flugfélag Íslands, heldur eru þeir settir í bíl við Flugskóla Íslands eða þar sem Ernir er með sína aðstöðu. (sem er þarna þar sem flugturninn er og hótel loftleiðir fyrir þá sem ekki vita) og þeir keyrðir stutta vegalengd á spítala. Hvort sem það er í Fossvogi eða á hinn spítalann því ekki eru öll tilfelli eins. Hjartasjúklingar fara ekki á sama stað og illa lemstraður maður eftir bílslys eða eitthvað álíka.
Því hvet ég menn til þess að kynna sér málefni og kosti flugvallarins áður en þeir tala út um rassgatið á sér. Flugvöllurinn er á besta stað hvað allt varðar fyrir flugvöll. Af hverju haldiði að þessi staður hafi eiginlega verið valinn á sínum tíma af bretunum?????
Ingvar (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 20:10
Ég stórefast um að reyndur flugmaður eða flugrekstraraðili fyrirfinnist sem hafi þá skoðun að Löngusker séu raunhæfur kostur, þótt við gefum okkur að hann hafi ekki snefil af umhverfiskennd. Saltbaðið eitt eða ágjöfin sem yrði þarna öllum stundum gerðu það að verkum að flugvélar fengjust vart tryggðar. Fyrir utan það er þetta yndisleg náttúra sem þið ættuð að prófa að heimsækja áður en þið ákveðið að urða bestu staði borgarinnar, ströndina og Löngusker.
Ívar Pálsson, 26.1.2008 kl. 20:27
Vá þvílíkt rugl að setja flugvöllinn á Hólmsheiði, ýmindið ykkur ég í útreiðatúr krkrkrnrnrnrknla geðveik læti í flugvel hesturinn rýkur ég dö.. auk þess er mjög oft mikið rok þarna og þoka eins og einn flugmaður sagði að þá yrði mjög sjaldan hægt að lenda þarna vegna veðurs!! ég held að það verði eitthvað að fara að huga að heilasellunum á þingmönnunum okkar, mun meira en helmingur borgarbúa vil hafa flugvöllinn í vatnsmýrinni. HÆTTIÐ GRÆÐGI minnihluti borgarbúa!!.
Guðrún (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 20:45
Ingvar, bretar völdu þennan stað ekki einir, þeir fengu dygga hjálp íslendinga til þess að velja þennan stað.. rauðhólarnir voru síðan brotnir niður fyrir flugvallarstæðið. ástæða þessað vatnsmýrin var valinn var fjarlægð frá byggð þess tíma og opið svæði. Hernaðarbygging sem er barn síns tíma.
Óskar Þorkelsson, 26.1.2008 kl. 20:47
Ef hægt er að hafa flugvöll á Lönguskerjum, er alveg eins hægt að byggja íbúðarhús á þeim stað. Hvernig halda menn annars að söngurinn hljómi eftir nokkur ár, þegar menn sjá ofsjónum vegna flugvallar á Löguskerjum og heimta þau undir íbúðabyggð, vegna þess að útsýnið sé svo ofboðslega frábært frá þeim stað í allar áttir.
Yfirleitt hafa flugvellir verið byggðir fjarri byggð, og síða er úthlutað ódýrum lóðum vegna ónæðis afl flugumferðinni, svo allt í einu er flugvöllurinn orðinn fyrir, þó hann hafi komið langt á undan íbúðarbyggðinni.
Sjáið Heatrow Airport í London. Nú er hann talinn ógna umhverfinu og íbúðarbyggð, þó var hann byggður langt út í sveit á sínum tíma.
Hvert er svo verðmæti Vatnsmýrarinnar. Er ekki búið að gefa fullt af lóðum þar til þess að einhverjir fáist til að byggj á svæðinu????
Vandi fylgir vegsemd hverri og það virðist augljóst, að nokkrir íbúar höfðuborgarinnar virðast ekki átta sig á því að Reykjavík er höfuðborg Íslands en Reykjavíkur. Ákvörðun um höfuðborg hvers ríkis er pólitísk ákvörðun, ekki náttúrulögmál, því er hægt að breyta þeirri ákvörðun fyrst þetta er að verða íbúunum svona íþyngjandi.
Ég er viss um að við íbúar Egilsstaða væru til í að taka við þeim kaleik, auk þess erum við nær menningunni í Evrópu.
Benedikt V. Warén, 26.1.2008 kl. 21:09
Ódýrasti og einfaldasti kosturinn er Keflavíkurflugvöllur og í grenndinni bráðadeild, enda er húsnæði fyrir hendi.
Síðan er hraðbraut til Reykjavíkur, eða járnbraut þar sem fargjöldum yrði stillt í hóf.
Svo mikill sparnaður yrði með þessu að vel gæti komið til greina að borgin kostaði alla fólksflutninga sem tengdust flugi á þessari leið.
Spár um hækkandi yfirborð sjávar á næstu áratugum eru ekki meðmæli með Lönguskerjum, hvorki til flugvallargerðar eða íbúabyggðar.
Árni Gunnarsson, 26.1.2008 kl. 21:44
Í famhaldi af því sem fram er komið hér að ofan legg ég til að Löngusker verði gerð að okkar Manhattan!
Gunnar Th. (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 22:17
Brim og selta á Lönguskerjum. Vonlaus staður.Það verða að vera 2 nothæfir flugvellir á sv.landi. Etv er nóg að hafa eina flugbraut í Reykjavík td. f. sjúkraflug og sem varaflugbraut f Keflavík. Setja innanlandsflugið til Keflavíkur og bæta samgöngur á milli. Þetta er nú ekki löng leið.
Hólmdís Hjartardóttir, 26.1.2008 kl. 23:10
Hallur minn, flugvöllurinn er tilbúinn, hann er á Reykjanesi í 40 mín. akstursfjarlægð frá miðbænum. Þeir sem búa í Hafnarfirði og Garðabæ eru ekki nema tæpar 30 mín. á leiðinni. Að mínu mati á að leggja rafmagnslest til að flytja fólk þessa vegalengd á 20 mín. Ég skil alls ekki rökin fyrir því að byggja nýjan flugvöll á Hólmsheiði, hvað þá Lönguskerjum. Varðandi sjúkraflutninga þá er þyrlupallur svarið.
Fæstum þykir það nokkuð tiltökumál að lenda á London Heathrow eða Stansted, Oslo Gardemoen eða Paris de Gaulle. Allir þessir flugvellir eru í ámóta fjarlægð frá viðkomandi miðborgum eða mun lengri ef í mínútum er talið.
Sumum landsbyggðarmönnum finnst það árás á sig að vilja flytja innanlandsflugið frá miðbæ Reykjavíkur. Ekki kvarta Reykvíkingar mikið yfir því að þurfa að fara til Keflavíkur í flug. Þó væri hægur vandi að lenda öllum þessum þotum á Reykjavíkurflugvelli.
Að lokum votta ég þér samúð mína með hvernig komið er fyrir flokknum þínum í Reykjavík. Lengi getur vont versnað!
Sigurður Hrellir, 26.1.2008 kl. 23:17
Siggi minn!
Þykir vænt um góð orð í garð gamla flokksins míns!
En fyrst þú ræddir um London - þá fer stór hluti innanlandsflugsamgangna í Bretlandi um flugvöll sem er rétt í jaðrinum - ekki Heathrow - hvað þá Stansted!
En verð að játa að mér hefur alltaf hugnast vel 20 ára gömul hugmynd Alfreðs Þorsteinssonar um hraðlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur - og þú tekur undir :)
Hallur Magnússon, 27.1.2008 kl. 00:36
Don Alfredo er örugglega ekki svo galinn miðað við aðra Framsóknarmenn sem hafa verið áberandi að undanförnu. Hins vegar er ég ekki alveg viss um að hann sé rétti maðurinn til að leiða flokkinn í næstu kosningum. Hefur þú nokkuð spáð í að gefa kost á þér? Ég vil nú helst ekki þurfa að sjá gamla vini mína með hnífasett í bakinu.
Kannski hefði Alfreð betur varið fjármunum OR í hraðlest. Betri hugmynd en rækjueldi.
Sigurður Hrellir, 27.1.2008 kl. 01:26
Það er alveg sorglegt þegar fólk sem hefur enga reynslu af flugi talar svona út um rassgatið á sér. Sigurður, þyrlur eru ekki svarið. Þyrlur eru mun hægfleygari, þær fljúga í minni hæð og geta oft ekki farið beinustu leið vegna krafa um lágmarkshæðir á leiðum sem flugvélar geta auðveldlega uppfyllt. Af þessum ástæðum er slösuðum flogið með þyrlu á flugvöll þar sem flugvél flýgur þeim til Reykjavíkur þrátt fyrir að þyrlan sé á leið þangað líka.
Þeir sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinu og vilja fljúga til höfuðborgarinnar þurfa þá að eyða enn meiri peningum í lest, leigubíl, rútu eða hvað ofan á hærra miðaverð þegar flugvélarnar fara að nota meira eldsneyti en nú er gert. Meira eldsneyti spyrja menn, Reykjavík er rétt hjá Keflavík. Það er bara ekki svo einfalt. Flugvélar á leiðinni til Reykjavíkur í dag geta notað Keflavík sem varaflugvöll en ef Reykjavíkurflugvöllur hverfur og flogið er til Keflavíkur þarf flugvélin að nota annan flugvöll sem varaflugvöll og bera það auka eldsneyti hvort sem varaflugvöllurinn verði notaður eða ekki en auka eldsneyti kostar peninga að flytja hvort sem það er notað eða ekki.
Ingvar (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 03:16
Mér finnst flugvallarmálið ekkert einkamál reykvíkinga, ég bý t.d í Garðabæ nánar tiltekið í Ásahverfinu og vil hann burt. Þessar flugvélar koma í aðflugi beint yfir höfðinu á okkur og maður heyrir alltaf vélahljóðið, Í kvöldkyrrðinni er þetta afar áberandi. Völlurinn má mín vegna fara burt upp á Hólmsheiði eða Miðnesheiði.
Frikkinn, 27.1.2008 kl. 20:22
Ég hef búið í vesturbænum og veit hvað flugvélagnýrinn er leiðinlegur, fyrir utan hættuna fyrir íbúa, ef illa fer.
Flugvöllur á ekki að vera í miðri íbúabyggð. Eins og Sigurður Hr bendir á er Keflavíkurflugvöllur ekki slæmur kostur, a.m.k. ekki fyrir Álftnesinga, Garðbæinga og Hafnfirðinga. Sums staðar í Hafnarfirði eru menn lengur á leiðinni á Reykjavíkurflugvöll en til Keflavíkur. Lestardæmið myndi síðan gera þann kost mun fýsilegri.
Theódór Norðkvist, 27.1.2008 kl. 21:54
Ágætu "athugasemdir"!
Kærar þakkir fyrir innlegg ykkar. Auðvitað sýnist sitt hverjum - en það mikilvægasta er að við náum góðri ásættanlegri lausn á þessum vanda sem lega Reykjavíkurflugvallar er. Spurningin er kannske fyrst og fremst - er fórnarkostnaðurinn af staðsetningunni meiri en hagnaðurinn - sem reyndar er nokkur fyrir landsbyggðina.
Hallur Magnússon, 27.1.2008 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.