Félagslegar lánveitingar Íbúðalánasjóðs 1999-2006
20.11.2007 | 19:42
Uppáhalds vinstri græni þingmaðurinn minn - Katrín Thoroddsen Tulinius Möller Jakobsdóttir - bað um utandagskrárumræðu um húsnæðismál í þinginu í dag.
Ég ætla ekki að taka afstöðu til pólitískra álitamála í umræðunni - en verð - vegna þess að fram hefur komið sá misskilningur að Íbúðalánasjóður hafi ekki sinnt félagslegum lánveitingum á starfstíma sínum - að birta upplýsingar um lánveitingar sjóðsins til félagslegra og almennra leiguíbúðalána á tímabilinu - sem og félagsleg lán til fjölskyldna undir skilgreindum tekju og eignamörkum.
Ástæða þessa er sú að ég vil gjarnan að hin pólitíska umræða byggi á staðreyndum - en ekki því sem fólk hefur pikkað gagnrýnilaust úr slagorðakenndri umræðu.
Fyrst ber að halda til haga að á tíma hinna félagslegu viðbótarlána 1999-2004 veitti Íbúðalánasjóður lán til alls 13.500 fjölskyldna sem féllu undir félagsleg viðmið um tekju og eignamörk.
Auk þessa hefur ekki staðið á lánveitingum til leiguíbúða, hvorki almennra né félagslegra.
Þá ber einnig að halda til haga að félagsmálaráðherrar tveir, þeir Páll Pétursson og Árni Magnússon gerðu samninga við fjármálaráðuneytið um niðurgreiðslu lána til félagslegra leiguíbúða svo unnt væri að byggja upp öflugan, faglegan leiguíbúðamarkað sem taki einnig tillit til félagslegra aðstæðna fólks.
Reyndar má bend á að Íbúðalánasjóður hefur aldrei, ég endurtek, aldrei náð að veita lán til félagslegra leiguíbúða í takt við lánsfjárheimildir, vegna þess að ekki hefur verið næg eftirspurn eftir slíkum lánum. Það er fyrst nú árið 2007 sem stefnir í að heimildir til slíkra lánveitinga verða fullnýttar.
Eftirfarandi er yfirlit yfir annars vegar fjárhæð leiguíbúðalána Íbúðalánasjóðs frá stofnun sjóðsins 1999 og hins vegar fjöldi leiguíbúðalána sama tímabil. Hafa ber í huga að fjöldi leiguíbúða er mun hærri en fjöldi leiguíbúðalána þar sem stundum hefur verið veitt eitt lán til heilla leiguíbúðablokka.
Fjólubláu súlurnar sýna félagsleg leiguíbúðalán - en bláu súlurnar almenn leiguíbúðalán. Það kemur skýrt fram að mun hærri fjárhæðir hafa verið veittar til félagslegra leiguíbúðalána en almennra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2007 kl. 16:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.