Vönduð vinnubrögð Viðskiptablaðsins!!!
14.3.2007 | 10:43
Vinir mínir á Viðskiptablaðinu gera mér þann heiður í dag að vitna í skrif mín um sjálfhverfa júrista og sægreifa! Ég verð að segja að ég er dálítið upp með mér!
Finnst þar af leiðandi ekki mikið mál að Viðskiptablaðið kýs vísvitandi að taka skrif mín gróflega úr samhengi - og bæta um betur með ummælum nafnlauss blaðamanns um meinta afstöðu mína til stjórnarskrárinnar. Þessháttar útúrsnúningur nær þó ekki að sjatla þá ómældu ánægju að sjá vitnað í bloggið mitt á fallega bleikum síðum þessa virta blaðs.
En til að lesendur Viðskiptablaðsins sem ekki lásu frumtextan í blogginu mínu um sjálfhverfu júristana og sægreifanna gangi ekki með ranghugmyndir um innlegg mitt í umræðuna um stjórnarskrármálið byggðum á útúrsnúningi Viðskiptablaðsins, er mér ljúft og skylt að draga aftur fram raunverulegt innihald skrifa minna.
Í blogginu segi ég:
"Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingur er ætlað að búa við."
Einnig segi ég:
"Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá."
Þetta undirstrikar þá skoðun mína að hugtak sem kann að hafa vafasamt lögfræðilegt gildi eitt og sér, öðlast klárlega lögfræðilegt gildi sé það tekið upp í stjórnarskrá. Um það eru margir lögfræðingar mér sammála.
En þegar hinir vönduðu blaðamenn Viðskiptablaðsins höfðu farið höndum um framangreinda setningu stóð hún svona eftir:
"Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli."
Þeir bættu reyndar eftirfarandi, nafnlausri athugasemd við, væntanlega hefur auðkenni blaðamannsins fallið út í prentun:
"...þykir Halli einu gilda hvort stjórnarskráin hafi lögfræðilegt gildi eður ei!"
Já, þetta er góður dagur - ég er á síðum Viðskiptablaðsins með bloggið mitt!!!
Svo er nú það!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Facebook
Athugasemdir
Já það getur verið gefandi þegar menn taka eftir skrifum manns, en miðað við lýsingu þína á gróflegum vísvitandi misskilningi og viðbótum sem ekki voru þínar, tja, þá fer nú að verða spurning hvort manni finnst það eftirsóknarvert.
Jón Þór Bjarnason, 14.3.2007 kl. 11:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.