Sjálfhverfir júristar og sægreifar!
13.3.2007 | 08:58
Sjálfhverfir júristar og sægreifar hafa verið áberandi í líflegri umræðu um sameign þjóðarinnar á auðlindum Íslands. Sægreifarnir sjálfhverfu hafa látið sem fiskurinn í sjónum sé eina náttúruauðlind Íslendinga og að þeir hafi nánast yfir að ráða þinglýstu afsali af hverri einustu styrtlu innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Sjálfhverfu júristarnir hafa látið sem þeir ættu sjórnarskránna.
Hvoru tveggja er fjarri sanni.
Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingum er ætlað að búa við.
Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá.
Fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar en ekki séreign útvegsmanna sem hafa yfir tímabundnum fiskveiðikvóta að ráða eins og sjálfhverfir sægreifar vilja vera láta. Kvótaeigendur eiga skilgreindan, tímabundinn afnotarétt af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er allt og sumt.
En ákvæðið um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar á ekki einungis um fiskinn í sjónum. Það á við allar auðlindir landsins sem ekki eru þegar skilgreindar sem einkaeign. Því er ekki nóg að hafa ákvæði um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar í lögum um stjórn fiskveiða því sem betur fer er fiskurinn einungis brot af auðlindum Íslands.
Þótt skiptar skoðanir kunni að vera á lofti um hvernig ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins sé best fyrir komið í stjórnarskrá Íslands, þá hefur fyrirliggjandi frumvarp forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að stjórnarskránna ákvæði um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar ótvírætt mikilvægt gildi. Það að stjórnarskrárbinda hugtakið sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins hefur svo sterkt pólitíst vægi sem stefnuyfirlýsing íslenskrar þjóðar, að vangaveltur um lagatæknileg atriði því tengdu eru hjóm eitt.
Svo er nú það!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.3.2007 kl. 12:28 | Facebook
Athugasemdir
Hammurabi er ekki að taka afstöðu til gildis ofangreindrar breytingar en hann vill tæpa á tvennu sem skiptir hér máli.
Það er ekki erfitt að breyta stjórnarskránni, þvert á móti er það mun auðveldara hér á landi en í nágranna löndum okkar. Þrátt fyrir það hversu auðvelt er að breyta stjórnarskránni, hefur hún fengið að standa nokkuð óbreytt, ef undan er skildar mannréttinda-viðbæturnar 1995.
Stjórnarskráin er skjöldur alþýðu þessa lands gegn valdníðslu og offorsi ofga-skoðuna stjórnarherra. Hún er ekki pólitískt stefnu-plagg. Það eru til fjöldi leiða að koma með stefnulýsingar, stjórnarskráin er ekki sá vetvangur.
Loks vill Hammurabi tala stutt um "sameign þjóðarinnar". Í Ástralíu fyrir alls ekki löngu vildi bóndi nokkur lýsa sig sjálfstætt land, og segja sig úr lögum við Ástralíu. Hæstiréttur þarlendis sagði hann ekki hafa heimild til þess þar sem hann ætti í raun ekki landið, heldur einungis um varanlegan leigusamning við Ástralíu að ræða. Segja má að hið sama gildi um auðlindir þær sem rætt er um hér. Allt það sem kalla má Ísland, hvort sem það er mold, fugl eða fiskur er eign Íslands, þeirra kynslóða sem fyrir hafa gengið og niðja þeirra sem nú lifa.
Þannig er nú það!
Hammurabi, 15.3.2007 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.