Ég legg hugsjónir mínar í dóm þjóðarinnar

Ég er stoltur af því að vera einn hinna rúmlega 500 Íslendinga sem voru reiðubúnir að leggja sig, stefnumál sín og framtíðarsýn í dóm þjóðarinnar með því að bjóða sig fram til stjórnlagaþings.

Ég er ánægður yfir því hve fjölbreyttur hópurinn er og sérstaklega hve stór hluti frambjóðendanna eru venjulegt fólk víðs vegar úr samfélaginu og af öllum stéttum.

Það er nefnilega meira en að segja það að leggja sig, hugðarefni sín og vonir í dóm þjóðarinnar. Því það að vilja taka þátt í sköpun nýrrar stjórnarskrár er að leggja vonir sínar um framtíð Íslands og Íslendinga sem þjóðar í dóm þjóðarinnar.

Ég gleðst yfir því hve kosningabaráttan hefur verið hófsöm, jákvæð og uppbyggjandi. Þvert á kosningahefð þjóðarinnar þar sem átök, neikvæðni og niðurrif hefur verið fyrirferðarmeiri en jákvæðni og uppbyggjandi umræða.

Mér líður vel í því frelsi sem felst í því að bjóða mig fram alfarið á mínum eigin forsendum, með mínar skoðanir og stefnumál ómenguð. Sú upplifun treystir enn þá trú mína að viðhafa skuli persónukjör í kosningum á Íslandi.

Þótt ég berjist af alefli fyrir mínum hugsjónum og vil veg þeirra sem mestan þá finnst mér mikilvægt að á stjórnlagaþing verði kjörnir fulltrúar mismunandi sjónarmiða og mismunandi hugsjóna. Því stjórnlagaþing á að vera stjórnlagaþing þjóðarinnar en ekki stjórnlagaþing einstakra hugmynda og hópa.

Stjórnlagaþing þjóðarinnar verður stjórnlagaþing þjóðarinnar með því að fulltrúar með mismundandi bakgrunn og mismunandi hugmyndir takist á í uppbyggilegum umræðum og komi sér saman um meginreglur stjórnskipunar Íslands í tillögu til nýrrar, sterkrar stjórnarskrár. Traustri stjórnarskrá sem þjóðin geti í þjóðaratkvæðagreiðslu sammælst um að geti orðið leiðarljós þjóðarinnar á 21. öldinni.

Ég legg mínar hugsjónir, mínar áherslur og mína krafta í dóm þjóðarinnar undir auðkenninu #9541 í kosningum til stjórnlagaþings þjóðarinnar.


Bloggfærslur 26. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband