Sanngjarnt að fresta afgreiðslu á sölu í HS Orku til Magma

Það er sanngjarnt og eðlilegt að verða við beiðni minnihlutans í borgarráði að fresta afgreiðslu á sölu HS Orku til Magma. Minnihlutinn lagði fram langan spurningalista - sem greinilega er að hluta til spurningar settar fram til að undirbyggja pólitíska frasa í umræðunni - en það er afar eðlilegt - ekki  hvað síst á kosningavetri.

Væntanlega munu svör við þeim spurningum liggja fyrir á næsta fundi borgarráðs þegar ráðið afgreiðir málið.

Síðan verður málið að sjálfsögðu hitamál á borgarstjórnarfundi þegar lokaafgreiðsla málsins fer fram.

Ég hef mikinn skilning á afstöðu Vinstri grænna og þess hluta Samfylkingarinnar sem telja að orkufyrirtækin eigi að vera í samfélagslegri eigu.  Það eru margir Framsóknarmenn sem telja slíkt hið sama, enda er það ekki kappsmál Framsóknarflokksins að selja einkaaðiljum hlut í orkufyrirtækjunum.

Ekki gleyma því að Orkuveitan er öflugt fyrirtæki í almannaeigu - fyrirtæki sem Framsóknarmenn hafa leikið lykilhlutverk í að byggja upp gegnum tíðina - og Framsóknarmenn munu af alefli standa vörð um að verði áfram í almannaeigu.

Ekki gleyma því heldur að það voru önnur sveitarfélög - sum undir stjórn Samfylkingarinnar - sem ákveða að einkavæða HS Orku - ekki Reykjavíkurborg.

Ekki heldur gleyma því að Orkuveitan sem er í almannaeigu ætlaði að eiga ráðandi hlut í HS Orku. Það voru samkeppnisyfirvöld sem skikkuðu Orkuveituna til að selja hlut sinn í HS Orku.

Framsóknarmenn eru löghlýðnir flestir upp til hópa og telja sig skylt að fara að lögum - þótt margir andstæðingar Framsóknarmanna í Samfylkingu og VG telji sig geta valið hvaða lögum eigi að fylgja og hvenær - jafnvel talið rétt að brjóta gegn landslögum í þessu tilfelli.

Við megum heldur ekki gleyma að ríkið og innlendir aðiljar hafa haft 6 mánuði til að koma með tilboð í hlut Orkuveitunnar. Það hefur ekkert tilboð komið annað en Magma. Áhuginn eða getan var ekki fyrir hendi.

Við megum heldur ekki gleyma því að frestur til sölu er einungis til áramóta.

Er það forsvarandlegt fyrir borgina að taka þá áhættu að missa af sölunni til Magma og að geta síðan ekki selt - nema þá á slikk á raunverulegri brunaútsölu 31. desember 2009?

Ég held ekki.

Að lokum.

Mér þótt dálítið broslegt þegar ég las Fréttablaðið í morgun - að það var gert stórmál úr því að einhverjir Framsóknarmenn væru hugsi yfir sölu Orkuveitunnar á hlut sínum í HS orku til erlends aðila - á meðan Fréttablaðið hefur þagað þunnu hljóði yfir því að forysta Samfylkingarinnar er klofin í herðar niður á afstöðunni til málsins.  Ráðherrar ríkisstjórnarinnar og þingmenn eru á því að það eigi að selja erlendum aðilja hlutinn - en borgarfulltrúarnir eru á móti.

Það skyldi þó ekki vera að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar séu á móti málinu af því að þeir telja sig geta slegið pólitískar keilur á málinu á kosningavetri - á meðan raunveruleg stefna Samfylkingarinnar er önnur?

En reyndar skil ég mismunandi áherslur Samfylkingarmanna í málinu - því eins og ég sagði - það eru margir Framsóknarmenn sem telja slæmt að Orkuveitan hafi þurft að selja erlendum einkaaðila hlut sinn í HS Orku, enda er það ekki kappsmál Framsóknarflokksins að selja einkaaðiljum hlut í orkufyrirtækjunum. 

En við þær aðstæður sem við búum við í dag - lagalegum og efnahagslegum - þá tel ég rétt að selja Magma hlut okkar í HS Orku. Um það er nokkuð breið samstaða innan hins fjölmenna borgarmálahóps Framsóknar - þótt sumir séu efins.

Okkur veitir ekki af fersku erlendu fjármagni og þær framkvæmdir sem munu fylgja inn í það slæma atvinnu- og efnahagsáastand sem við búum við. Fyrst Orkuveitan var skikkuð til að selja.


mbl.is Fresta afgreiðslu á sölu HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afkomutenging lána er áhugaverður kostur!

Það er gaman að sjá hugmynd sem ég setti fram á haustdögum til lausnar greiðsluvanda heimilanna komna á flug hjá prófessor Þórólfi Matthíassyni - og Morgunblaðinu! Afkomutenging lána svipað og afborgunarkerfi hjá LÍN er leið sem getur komi heimilunum til bjargar - og ætti jafnvel að vera grunnur að opinbera íbúðalánakerfinu.

Það gæti jafnvel orðið lausn á þeim kröfum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert til breytinga á lánareglum Íbúðalánasjóðs. Á það má reyna! Reyndar veit ég ekki hver afstaða ESA er til opinberra húsnæðislána nú eftir efnahagshrunið - en mér finns hugmyndin umræðunnar virði.

Lán Íbúðalanasjóðs yrðu þá þannig að þeir sem þau taka greiða afborganir sem hlutfall af tekjum. Lánin væru þá ekki miðuð við árafjölda.  Einungis ákveðna hámarksfjárhæð sem dugir til kaupa á hóflegu húsnæði - eins og hingað til hefur verið grunnhugmyndin í opinbera íbúðalánakerfinu.

Þeir sem lágar tekjur hafa eru lengi að greiða af lánunum.

En þeir sem eru með háar tekjur greiða lánin upp því mun fljótar - jafnvel á 10 - 15 árum.

Endurgreiðslan er því réttlát  - og fjárstreymi til Íbúðalánasjóðs tiltölulega jafnt þar sem sumir greiða lánin niður hratt - og aðrir hægt.

Það verður spennandi að sjá hvort stjórnvöld þróa áfram þessa hugmynd mína og Þórólfs!

 


mbl.is Grunnur að lausn á vanda heimila?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband