Svandís Svavarsdóttir þarf að snúa sér til orkukaupenda ekki orkusala

Svandís Svavarsdóttir nýr umhverfisráðherra reynir nú að slá keilur í fjölmiðlum með því að segjast vilja beita sér fyrir því að leynd, sem hvíli yfir orkuverði til stóriðju, verði aflétt.

Svandís veit það fullkomlega að ástæða leyndarinnar er ekki tilkomin vegna hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur - enda hefur hún setið í stjórninni undanfarið - heldur vegna óska viðsemjenda.

Svandís verður því að snúa sér að viðsemjendum Orkuveitunnar til að fá orkuverðið uppgefið - ekki Orkuveitunnar.

Vill Svandís ganga gegn samningsfrelsi á Íslandi og banna lögaðilum að setja trúnaðarákvæði í samninga sín á milli ef þeir kjósa það?

Telur hún að samningsstaða orkusöluaðilja á Íslandi styrkist við slíkt?

Þótt ég gagnrýni Svandísi aðeins í þessu bloggi - þá er alveg ljóst að það er mikill styrkur af henni fyrir ríkisstjórnina sem er því miður heilt yfir tiltölulega veik.

Svandís er afar öflugur stjórnmálamaður og hefur unnið vel og af heilindum fyrir borgina og borgarbúa sem borgarfulltrúi. Þar hefur hún lagt sitt af mörkum í samvinnu meirihluta og minnihluta í borginni - en eins og fólk veit þá hefur meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn lagt áherslu á breiða samvinnu og samráð við minnihlutan við stjórn borgarinnar. Það hefur gengið afar vel og á Svandís ekki hvað síst þátt í því sem oddviti VG.

Það verður vandfyllt skarðið sem Svandís skilur eftir í borgarmálunum.


mbl.is Verður að virða umsaminn trúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB aðildarviðræður enginn vandi fyrir Framsókn

Aðildarviðræður að Evrópusambandinu verða enginn vandi fyrir Framsóknarflokkinn. Stefna flokksins er skýr. Sækja skal um aðild að Evrópusambandinu og leggja aðildarsamning fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Framsóknarflokkurinn setti fram skýr og skynsamleg skilyrði sem halda skal á lofti í aðildarviðræðunum. Það er einfalt fyrir Samfylkinguna og ríkisstjórnina að gera þau skynsamlegu skilyrði að samningsmarkmiðum og kalla forystu Framsóknarflokksins með að samningsborðinu með ríkisstjórninni.

Það hefur enginn þingmaður Framsóknarflokksins umboð til að leggjast gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu sé ofangreindum skilyrðum uppfyllt. Enginn.

Málið er því í höndum Samfylkingarinnar. Vilji hún aðildarviðræður þá veit hún hvað þarf að gera til að tryggja stuðning Framsóknarflokksins. En ef Samfylkingin fer í einhvern asnaskap og vinnur málið ekki í góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna - þá gætu efasemdarmenn innan þingflokks Framsóknar fengið svigrúm til að sveigja af skýrri stefnu Framsóknarflokksins.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra er því með framtíð aðildarviðræðna við Evrópusambandið í hendi sér. Ekki vill hann klúðra því tækifæri?


mbl.is Evrópumálið setur alla í nokkurn vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband