Sigurður Ingi og Eygló öflugt pólitískt par
8.3.2009 | 15:13
Sigurður Ingi og Eygló Harðardóttir eru öflugt pólitískt par sem hafa víða skírskotun á Suðurlandi. Suðurnesjamaðurinn Eysteinn Jónsson klárar það sem klára þarf hvað það varðar. Sem "gamall tímabundinn Hornfirðingur" bíð ég eftir þingmannsefni úr Austur-Skaftafellsýslu - en hann kemur bara síðar!
Framsóknarflokkurinn á að ná góðum árangri á Suðurlandi með þennan lista.
En ég vil minna Sigurð Inga og aðra frambjóðendur Framsóknarflokksins á að þau hafa verið valin til þess að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins sem ákvörðuð var á síðasta flokksþingi. Þar er mikilvægt að hafa í huga það sem ég bloggaði um í morgun: Evrópustefna Framsóknar skýr - aðildarviðræður með skýrum markmiðum
![]() |
Sigurður Ingi í fyrsta sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Evrópustefna Framsóknar skýr - aðildarviðræður með skýrum markmiðum
8.3.2009 | 09:21
Evrópumál og gjaldmiðilsmál munu verða eitt af stóru kosningamálunum. Frambjóðendur Framsóknarflokksins hafa skýra stefnu í þeim málum eftir glæsilegt flokksþing á dögunum.
Framsóknarmenn vilja aðildarviðræður með skýrum markmiðum.
Leiðtogar allra framboðslista Framsóknarflokksins ber skylda til þess að berjast fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið á grunni eftirfarandi ályktunar flokksþings Framsóknarflokksins:
Ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið
Markmið
Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar.
Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.
Skilyrði
Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.
Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.
Fyrstu skref
Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið.
![]() |
Siv efst í SV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)