Yfirhylming eða hefðbundin tregða embættismannakerfisins?
28.2.2009 | 09:21
Yfirhylming eða hefðbundin tregða embættismannakerfisins - það er stóra spurningin!
Það voru skelfileg mistök af síðustu ríkisstjórn að setja ekki strax í október á fót embætti sérstaks ríkissaksóknara til að skoða bankahrunið - heimild dómsmálaráðherra til þess var til staðar.
Það hefði verið unnt að frysta eignir auðmanna sem grunaðir voru um saknæmt athæfi strax í nóvember ef ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefði staðið sig í stykkinu. Það er til þess lagaheimild.
Nú óttast menn að sú töf sem varð á skipan sérstaks saksóknara hafi orðið til þess að auðmenn sem mögulega voru með óhreint mjöl í pokahorninu hafi bæði komið undan eignum og falið slóð sína.
Hægagangur í skilum á gögnum til nýskipaðs saksóknara er afar slæmur og lyktar í nefi almennings sem yfirhylming.
Almenningur treystir ekki lengur embættismannakerfinu enda virðist sem ákveðinn hluti þess sé framlenging af Sjálfstæðisflokknum eftir allt of langa samfellda valdatíð þeirra - eins og fram kom í yfirliti DV á dögunum - án þess ég sé að kasta rýrð á einstaka embættismenn.
Þekki það mikið til þess ágæta kerfis til þess að vita að langstærsti hluti embættismanna eru heiðarlegir, vinnusamir og leggja mikla áherslu á jafnræði og fagleg vinnubrögð - þótt sumir hafi fyrst hugsað um Sjálfstæðisflokkinn og síðan um þjóðina.
Það breytir því ekki að almenningur treystir embættismönnum ekki allt of vel eins og fram kemur í könnun Gallup um traust hinna ýmsu aðilja og stofnana í samfélaginu.
Þess vegna er það afar slæmt að það sé upplýsingatregða frá eftirlitsstofnunum til sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins.
Það sem fyrst kemur upp í huga fólks er yfirhylming þó ég geri ráð fyrir að frekar sé um hefðbundna tregðu innan embættismannakerfisins að ræða.
Embættismannakerfið verður að bregðast við með því að skila málum og gögnum til ríkissaksóknarans eins hratt og vel og unnt er. Annars byggist upp alvarleg tortryggni sem erfitt verður að vinna bug á - hvað þá að endurreisa traustið.
Að lokum til þeirra sem væntanlega munu setja fram athugasemdir:
Já, ég veit að það eru fleiri en bara Sjálfstæðismenn í embættismannakerfinu!
![]() |
Tregða við upplýsingagjöf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)