Velferðarráð veitir 180 milljónum til styrkja og þjónustusamninga

Við í Velferðarráði gengum frá almennum styrkjum til velferðarmála í dag. Við lögðum áherslu á að styðja sérstaklega við þá aðila sem búast má við að álag muni aukast á í versnandi árferði s.s. Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstofnun kirkjunnar.

Styrkur til Fjölskylduhjálpar Íslands verður afgreiddur sérstaklega af ráðinu þegar úttekt á starfsemi samtakanna liggur fyrir sem vonandi verður á næstu dögum.

En því miður var ekki unnt að styðja öll þau mikilvægu verkefni sem í gangi eru á sviði velferðarmála í borginni, en vegna efnahagsástandsins hafði Velferðarráð takmarkað fjármagn til almennra styrkja. 

Þrátt fyrir erfitt árferði þá gat Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti 24 nýja styrki til velferðarmála alls að upphæð 33 milljónir króna.

Þá hafði aðgerðarhópur borgarráðs áður lagt til aukið fjármagn til Rauða Kross Íslands, Stígamóta og Kvennaathvarfsins.

En þótt ekki hafi verið unnt að veita nema 33 milljónum til nýrra styrkja á árinu er vert að halda því til haga að geta að á árinu ver borgin tæpum 180 milljónum króna til styrkja og þjónustusamninga vegna velferðarmála.

Alls njóta 60 aðilar sem sinna verkefnum og þjónustu á sviði velferðarmála styrkja frá velferðarráði og þjónustusamninga við Velferðarsvið á árinu.

Það er því ljóst að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand þá erum við að verja Velferðarþjónustuna eins og nokkur kostur er.


Stöndum vörð um Íbúðalánasjóð

Stöndum vörð um Íbúðalánasjóð. Oft var þörf en nú er það þjóðarnauðsyn. Það er raunveruleg hætta á því að stjórnvöld geti skaðað Íbúðalánasjóð verulega með illa ígrunduðum aðgerðum sem ætlaðar eru til að aðstoða heimilin í landinu og til þess að aðstoða banka og sparisjóði.

"Íbúðalánasjóður" hefur verið lausnarorð forsætisráðherrans við öllu því sem viðkemur íbúðalánum og stöðu heimilanna í landinu. Víst er Íbúðalánasjóður öflugur og vel rekinn sjóður sem leikur lykilhlutverk í húsnæðismálum Íslendinga. En það er unnt að eyðileggja hann þótt viljinn sé góður.

Við skulum ekki gleyma Byggingarsjóði verkamanna sem var ofarlega í huga núverandi forsætisráðherra á sínum tíma, en Byggingarsjóður verkamanna var illilega gjaldþrota á sínum tíma þótt hann hafi ekki verið gerður upp.

Staða sjóðsins ógnaði reyndar opinbera húsnæðislánakerfinu, en neikvætt eigið fé sjóðsins var nætti 30 milljarðar króna á núvirði. Sjóðurinn hafði étið upp eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins, þannig að stofnfé Íbúðalánasjóðs byggðist einungis á eigin fé húsbréfadeildar þegar Íbúðalánasjóður hóf starfsemi 1. janúar 1999.

Hugmyndir um að öll íbúðalán bankanna og reyndar allra fjármálafyrirtækja landsins verði færð inn í Íbúðalánasjóðs. Það getur verið stórhættulegt og stefnt núverandi styrk og jafnvægi Íbúðalánasjóðs í hættu. Við megum ekki skaða það góða og sterka sem við þó höfum.

Reyndar skil ég ekki af hverju færa á íbúðalán ríkisbankanna yfir í Íbúðalánasjóð. Auðvitað eiga bankarnir að halda áfram um lánin.

Ég hef lagt það til frá degi eitt að ef íbúðalán banka og sparisjóða verði fært til Íbúðalánasjóðs þá ætti ekki að setja þau inn í núverandi sjóð, heldur inn í dótturfyrirtæki Íbúðalánasjóðs sem yrði í hlutafélag alfarið í eigu sjóðsins. Þar fari endurskipulagning lánasafnsins fram, mögulega með nauðsynlegu framlagi ríkisins til eigin fjár dótturfyrirtækisins.

Þegar frá líður gætu bankar og sparisjóðir komið að slíku hlutafélagi sem gæti þróast í að verða fjármögnunaraðili fyrir banka og sparisjóði án beinnar ríkisábyrgðar. Íbúðalánasjóður haldi hins vegar áfram starfsemi á núverandi grunni með beinni ríkisábyrgð - sterkur Íbúðalánasjóður þjóðarinnar.

Hugmyndir þessar ríma við áherslu og tillögu Mats Josepssonar formanns nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, sem vill að komið verði á fót eignasýslufélagi,  sem muni hafa það hlutverk, annars vegar, að styðja endurreisn stærri fyrirtækja sem gegna mikilvægu hlutverki í íslensku efnahagslífi og, hins vegar, að endurskipuleggja félög og bjarga verðmætum sem glatast ef félögum fara í þrot.


mbl.is Unnið að endurreisn kerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafrænt einelti útbreiddara og alvarlegra en menn grunar

Rafrænt einelti er útbreiddara og alvarlegra en menn grunar. Börnin okkar eru því miður berskjölduð fyrir því bæði á netinu og í farsímunum. Slíkt alvarlegt einelti hef ég séð og þurft að taka á.

Því er mikilvægt fyrir foreldra að fylgjast með netnotkun barna sinna og kanna SMS skilaboð á farsímum barna. Eins og með annað einelti þá getur sá er lendir í rafrænu einelti brugðist við með því að beita samsvarandi ofbeldi á aðra og þannig myndast keðjuverkun.

Foreldrar verða að taka höndum saman og vinna gegn rafrænu einelti eins og öðru einelti, hvetja börn sín til þess að láta vita ef þau verða fyrir árásum á netinu eða gegnum sms skeyti og ekki síður ræða við börn sín um alvarlegar afleiðingar þess að beita aðra slíku einelti.

Það er eins í þessu og öðru - samvinna er lausnarorðið.


mbl.is „Ég mun alltaf muna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband