Guðni meðflutningsmaður Birkis Jóns um þjóðaratkvæði um Evrópusambandið?

Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins hlýtur að fylgja stefnu Framsóknarflokksins um þjóðaratkvæði um það hvort ganga eigi til viðræðna við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu og verða meðflutningsmaður Birkis Jóns Jónssonar á boðaðri þingsályktunartillögu hans þess efnis.

Eins og kunnugt er sýndi Guðni leiðtogahæfileika sína þegar hann gekk fram fyrir skjöldu í Evrópumálunum og sameinaði fylgismenn Evrópusambandsins, andstæðinga þess og þann stóra hóp sem er beggja blands í Framsóknarflokknum með tillögu um að ákveða ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ganga ætti til viðræðna við ESB. Einnig að kjósa skuli um hvort ganga skuli í Evrópusambandið á grunni niðurstöðu samningsviðræðna eða ekki.

Nánast allir Framsóknarmenn fylktu liði bak við leiðtoga sinn í þessu máli og víðtæk sátt náðist um aðferðafræðina.

Nú ríður á forystuhæfileika Guðna í að koma þessu stefnumáli Framsóknarflokksins í framkvæmd á farsælan hátt. Það gerir hann best með því að standa að baki Birkis Jóns - þessa unga og öfluga þingmanns Framsóknarflokksins. Best væri ef Guðni yrði fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar - enda óskoraður leiðtogi flokksins sem á að vera í fararbroddi í framkvæmd helstu stefnumála flokksins!

Það þarf ekki að draga dul á það að skiptar skoðanir eru um afstöðu til Evrópusambandsins innan Framsóknarflokksins. Það er hins vegar algert aukaatriði í þessu máli - því málið snýst um að láta þjóðin ákveða hvort ganga skuli til viðræðna - en ekki um það að ganga í Evrópusambandið.

Sumir hafa haldið því fram að ganga þurfi frá breytingum á stjórnarskrá áður en unnt er að ganga til slíkra kosningar vegna valdaframsals. Það er alvarlegur misskilningur. Þessi atkvæðagreiðsla er um það hvort skuli ganga til viðræðna við Evrópusambandið. Ekki um það að Ísland afsali sér völd til Evrópusambandsins. Slíkt valdaframsal hefur farið fram - og reyndar má leiða rök fyrir að við höfum verið að brjóta stjórnarskrá undanfarin ár með því að taka upp tilskipanir Evrópusambandsins. Breyting á stjórnarskrá sé því óhjákvæmileg óháð þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Ég hef trú á Guðna sem raunverulegum leiðtoga Framsóknarflokksins. Einnig að flokksþing muni á komandi vori staðfesta formennsku hans - sem hann hlaut með því að taka við sem varaformaður Jóns Sigurðssonar þegar hann hélt á braut á sínum tíma - með því að kjósa Guðna sem formann. Það er afar mikilvægt fyrir Guðna að vera þannig óskoraður kjörinn formaður flokksins!

Framganga hans í þessu lykilstefnumáli Framsóknarflokksins - það er að þjóðin ákvarði beint hvort ganga skuli til viðræðna við Evrópusambandið - er ákveðinn prófsteinn á Guðna sem framtíðarformanns.

Því trúi ég og treysti að Guðni flytji þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæði á Alþingi í haust.


Framsókn: Alþingi samþykki þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við ESB strax!

Hinn ungi og öflugi þingmaður Framsóknarflokksins - Birkir Jón Jónsson - hefur aftur tekið af skarið í Evrópumálum. „Ég mun leggja fram þingsályktunartillögu í haust um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarviðræðna um Evrópusambandið” segir Birkir Jón í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Birkir Jón mun með þessu koma í framkvæmd stefnu Framsóknarflokksins um að ákvörðun um það hvort gengið verði til viðræða við Evrópusambandið verði tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þar með er hvorki Framsóknarflokkurinn né Birkir Jón að taka afstöðu til þess hvort ganga eigi í Evrópusambandið - slík ákvörðun verði ekki tekin fyrr en niðurstöður aðildarviðræðna liggi fyrir - enda verði sú ákvörðun einnig tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu!

Birkir Jón segir í frétt Viðskikptablaðsins:

 „Það kom skýrt fram að það væri hvorki lagalega né pólitískt hægt að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið,” en Birkir Jón Jónsson er einn nefndarmanna í Evrópunefndar ríkisstjórnarinnar sem fundaðu með embættismönnum í Brussel í vikunni.

"Þeir fundir sem við höfum átt hér hafa sannfært mig um að það sé algjörlega óraunhæft að taka upp evru án þess að ganga í ESB,” sagði Birkir Jón.

"Ég er enn sannfærðari um það en áður að það er ekkert annað í stöðunni en að hefja aðildarviðræður,” sagði Birkir og kvaðst telja slíkar viðræður eitt af brýnustu hagsmunamálum Íslands um þessar mundir, segir í frétt VB.

Það verður spennandi að sjá hvernig Alþingi bregst við þingsályktunartillögu Birkis Jóns. Samfylkingin mun að sjálfsögðu greiða henni atkvæði sitt ef sá annars ágæti flokkur meinar eitthvað með Evrópustefnu sinni.  Það gera 18 atkvæði.

Ég geri ráð fyrir því að þingflokkur Framsóknarflokksins mun allir styðja stefnu Framsóknarflokksins og greiða tillögunni atkvæði sitt. Það gera 7 atkvæði.

Jón Magnússon þingmaður Frjálslyndad flokksins mun greiða tillögunni atkvæði sitt ef hann ætlar ekki að víkja frá Evrópustefnu sinni - sem ég á erfitt með að sjá.   Gera má ráð fyrir að amk einn þingmaður Frjálslyndra muni fylgja honum.

Það ætti því að vera ljóst að 27 atkvæði með þingsályktunartillögunni séu trygg.

Ég trúi ekki öðru en þau Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson greiði atkvæði með tillögunni - Katrín af því að hún leggst ekki gegn lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu - og Árni Þór vegna þess að hann vill sjá niðurstöðu aðildarviðræðna.

Þá  eru komin 29 atkvæði.

Ég trúi ekki öðru en að nægilega margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins fylgi sannfæringu sinni og greiði atkvæði með tillögunni þannig að hún verði samþykkt!

Það eru því allar líkur á því að við göngum til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við eigum að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið vorið 2009!

Þökk sé frumkvæði Framsóknarmannsins Birkis Jóns Jónssonar!


Davíð sofandi eða íslenska krónan ekki tæk í viðskiptum?

Er Davíð Oddsson og félagar hans í Seðlabankanum ekki vakandi þessa dagana eða er íslenska krónan ekki lengur tæk í viðskiptum?

Einhver ástæða hlýtur að liggja að baki þess að íslenski seðlabankinn var skilinn útundan - samanber eftirfarandi frétt á mbl.is:

"Seðlabankar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hafa gert samning um aðgang að lausu fé hjá bandaríska seðlabankanum til að auðvelda skammtímafjármögnun í dollurum. Athygli vekur að íslenski seðlabankinn er ekki þátttakandi í samstarfinu. Norrænu bankarnir munu hafa aðgang að allt að 30 milljörðum dollara."

Nema að íslenska krónan sé svo öflugur gjaldmiðill og Seðlabankinn búinn að tryggja auðvelda skammtímafjarmögnun betur en norrænu seðlabankarnir - að ekki sé þörf á samkomulagi við bandaríska seðlabankann!


mbl.is Krónan styrkist lítillega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband