Framsókn missir mikla baráttukonu
18.8.2008 | 17:35
Það er sorglegt að Marsibil Sæmundardóttir gat ekki hugað sér að vinna í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn við framgang pólitískra hugðarmála sinna. Það hefði verið gott ef borgarbúar hefðu notið starfskrafta Marsibilar sem leiðtoga og formanns nefnda eða ráða sem vinna að málaflokkum sem falla undir helstu baráttumál Marsibilar.
En það ber að virða tilfinningar Marsibilar sem nánast stóð ein innan Framsóknarflokksins - gegn samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Það er því skiljanlegt að Marsibil kjósi að segja sig úr Framsóknarflokkun við þessar aðstæður. En það er missir af þessari miklu baráttu og hugsjónakonu sem hefði getað haldið áfram í flokknum ef hún hefði viljað. En það kemur maður í manns stað. Það er mikið til af öflugu Framsóknarfólki sem getur tekið við keflinu.
Afstaða Marsibilar endurspeglar reyndar tilfinningar margra Framsóknarmanna sem líta á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ekki sem óskasamstarf. Hins vegar standa flokksmenn þétt að baki Óskars í samstarfinu, enda ljóst að annar kostur var ekki í stöðunni, hvað sem klækjastjórnmálamenn annarra flokka reyna að halda fram.
Flestir Framsóknarmenn létu því tilfinningar sínar ekki ráða för - heldur ákváðu að gera skyldu sína með því að tryggja Reykjavíkurborg starfhæfan meirihluta og vinna að framgöngu þeirra málefna sem flokkurinn stendur fyrir. Væntanlega munu baráttumál Marsibilar verða meðal þeirra málefna þótt hún hafi kosið að yfirgefa flokkinn.
Marsibil segir á meðal annars í yfirlýsingu sinni:
"Ákvörðunin er ekki auðveld þar sem ég á marga góða félaga í framsóknarflokknum - enda er þar eins og í öllum flokkum margt frábært fólk. Ég er þakklát öllum þeim sem hafa unnið með mér þar og óska þeim velfarnaðar.
Ég legg áherslu á að þessi ákvörðun er ekki tekin með það að markmiði að skaða framsóknarflokkinn, heldur er ég tilneydd í þetta skref í þeirri stöðu sem komin er upp. Ég mun áfram eins og hingað til, styðja góð mál, hvaðan sem þau koma - en sem betur fer er samstaða í borgarpólitíkinni um flest mál og ég vona að við sem vinnum að borgarmálum Reykvíkinga berum nú gæfu til að setja þau í forgang. Ég ítreka að ég mun ekki stunda tækifærismennsku og fella meirihlutann komi til þess að Óskar Bergsson forfallist tímabundið. Slík tækifærismennska þjónar ekki hagsmunum borgarbúa.
Ég vona að Óskari Bergssyni, framsóknarflokknum og nýjum meirihluta í Reykjavík gangi vel að vinna saman að mikilvægum málefnum borgarinnar."
![]() |
Marsibil segir sig úr Framsóknarflokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hanna Birna á uppleið en Dagur á niðurleið!
18.8.2008 | 09:08
Hanna Birna er á uppleið en Dagur B á niðurleið í könnunum Fréttablaðsins um hvern borgarbúar vilja sjá í sæti borgarstjóra! Dagur B. trónir þó enn á toppnum þar sem 43% vilja sjá hann sem borgarstjóra á meðan 33% borgarbúa vilja að Hanna Birna Krtistjánsdóttir verði borgarstjóri.
Þetta er mikil fylgisaukning við Hönnu Birnu, sem varla komst á blað í könnun blaðsins í febrúar. Hinsvegar dvínar fylgi Dags verulega, eða úr tæpum 57 prósentum í febrúar, niður í tæp 44 prósent núna. Í þriðja sæti kemur Svandís Svavarsdóttir með 9,9 prósenta fylgi.
Hanna Birna hefur alla burði til þess að auka fylgi sitt sem borgarstjóri muni. En þá verður hún að láta verkin tala - sem hún hefur alla burði að gera í samstarfi við Óskar Bergsson.
Fylgi við Svandísi Svavarsdóttur kann einnig aukast þegar líður á enda röggsamur forystumaður. Dagur mun væntanlega einnig verða áfram vænlegur kostur í hugum margra borgarbúa og reynir nú á hvort hann nær að halda sjó eða hvort niðurleiðin haldi áfram í næstu skoðanakönnun.
Minni hans vegar á að skoðanakannanir eru eitt - og kosningar annað. Það eru úrslit kosninga sem ráða - en ekki fylgi í skoðanakönnunum!
Stuðningur við Hönnu Birnu endurspeglar það fylgi sem ég taldi að borgarbúar hefðu við nýjan meirihluta borgarstjórnar, en það kom mér á óvart seint í gærkvöldi þegar ég sá fyrri könnun Fréttablaðsins og þegar ég sá að fylgi við meirihlutan var undir 30%.
Í þeirri könnun var jákvætt að sjá að Óskar Bergsson hefur rúmlega tvöfaldað fylgi sitt frá því í könnun Gallups á dögunum. Hann á allt undir því að standa sig vel á næstu mánuðum - eins og Hanna Birna. Framtíð þeirra - og reyndar flokkanna þeirra - byggir á því.
Samfylkingin og Vinstri grænir verða aftur á móti að gera allt til þess að halda því mikla fylgi sem þau fá í skoðanakönnunum. Bæði Svandís og Dagur B. eru afar öflugir stjórnmálamenn sem munu væntanlega njóta sín vel í stjórnarandstöðu gegn 4. meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur.
Þetta verða því spenndandi mánuðir framundan í borgarmálunum - og stefnir í sögulegar kosningar eftir tæp tvö ár - hvernig sem allt mun þróast.
![]() |
Þriðjungur styður Hönnu Birnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)