Mannlífi fórnað með fúski!

Það má vel vera að ég sé að verða gamall, smámunasamur nöldurseggur, en ég get bara hætt að láta fúsk í fréttum og tímaritsgreinum fara óendanlega í taugarnar á mér. Varð því frekar argur þegar ég las eintak af Mannlífi - sem ég greip með mér í fríið - þar sem áhugaverðu efni er fargað með fúski. Finnst hreinlega að þessu tölublaði af Mannlífi hafi verið fórnað með fúski!

Verð þó að taka fram að í blaðinu voru einnig mjög vandaðar og vel unnar greinar!

Það sem fyrst stakk í augun - og ég hefði fyrirgefið ef það hefði verið eina klúðrið - var í annars ágætu viðtali við Matt Beyon Rees - sem líkar Palestína betur en Wall Street - og skrifað hefur bók sem ég mun næla mér í við tækifæri: "Morðin í Betlehem".

Í greininni var sagt að Rees hafi verið blaðamaður á skoska blaðinu "The Schotsman".  Allir í blaðamannastétt ættu náttúrlega að vita að blaðið nefnist "The Scotsman" Hvaðan h-ið komst í titilinn í greininni veit ég ekki!

Mér féll hins vegar allur ketill í eld þegar ég fletti framar í blaðið og las hræðilega illa þýdda - og samhengislausa grein - um áhugavert viðfangsefni:  "Smán í lokuðum samfélögum strangtrúaðra" þar sem fjallað er um öldu sifjaspella og kynferðisglæpa meðal heittrúaðra Haredi gyðinga í Ísrael.

Greinin er unnin upp úr heimildum frá Times og Wikipedia.org. Greinin er bara ekki birtingarhæf í því formi sem hún er! Hráar þýðingar og samhengislausar tilvitnanir!

SME verður að taka sig á - því í öflugu blaði eins og Mannlífi - þá má ekki fórna gæðunum með því að slaka á kröfum um vönduð vinnubrögð.

Að lokum - þótt ég hafi tekið Mannlíf fyrir að þessu sinni - þá er það ekki verra en önnur tímarit - þvert á móti - en mér finnst fúsk vera allt of algengt í íslenskum dagblöðum og tímaritum. Eins og að kalla bænahús múslíma moskvur - en ekki moskur! Það var á einhverjum netmiðlinum um daginn - ekki Mannlífi!


Bloggfærslur 19. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband