Innantóm ákvörðunarfælin ríkisstjórn?
8.4.2008 | 11:17
Ég hafði mikla trú á ríkisstjórninni þegar hún tók við og vonaðist til þess að mikill þingstyrkur Samfylkingarinnar yrði til þess að koma áfram ýmsum gagnlegum málum sem Framsóknarflokkurinn hafði ekki komið í gegn.
En eftir því sem liðið hefur á hafa runnið á mig tvær grímur og fyrir sjónum mér nú virðist blasa innantóm ákvörðunarfælin ríkisstjórn!
Helsta "afrek" ríkisstjórnarinna eru verðbólgufjárlög sem urðu til þess að skvetta olíu á verðbólgubálið með þeim afleiðingum sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Að öðru leitin virðist nánast ekkert vera að gerast annað en innantóm orð án aðgerða. Sem betur fer eru á þessu einstaka undantekningar - en yfir það heila þá hrópar aðgerðarleysið á okkur!
Þetta aðgerðarleysi er enn háværara í ljósi þeirra kröftugu yfirlýsinga sem ráðherrar Samfylkingarinnar höfðu í upphafi - en ef eitthvað hefur gerst - þá hefur það einungis verið skugginn af þeim heitstrengingum.
Forsætisráðherrann sem ég bar mikla virðingu fyrir sem stjórnmálamanns og leiðtoga segist alltaf vera að ræða málin, hugleiða og undirbúa aðgerðir - sem aldrei virðast vera tímabærar. Ákvörðunarfælnin algjör - og ekkert gerist!
Er þetta innantóm ákvörðunarfælin ríkisstjórn - eða er ríkisstjórnin raunverulega að vinna eitthvað bak við tjöldin?
Við skulum vona að ríkisstjórnin sé ekki hol og innantóm - heldur sú sterka framfarastjórn sem hún hafði alla burði til að vera þegar hún tók við. En þá verðum við að fara að sjá einhverjar raunhæfar aðgerðir - ekki endalaus innantóm orð!
![]() |
Innantómur fundur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |