Ekki nauðga Viðey!!!
8.3.2008 | 19:44
"Áhugamenn" um Sundabraut hafa lagt fram tillögur um nauðgun Viðeyjar - þessarar perlu okkar Reykvíkinga!
Röksemdin er að spara nokkrar krónur í lífsnauðsynlegum samgöngubótum fyrir landsbyggðina - og merkilegt nokk - höfuðborgarsvæðið.
"Áhugamennirnir" vilja hætta við Sundagöng en þess í stað leggja Viðey í rúst vegna þess að það er örlítið ódýrara!
Í fréttum Stöðvar 2 segir eftirfarandi:
"Áhugamenn um Sundabraut hafa lagt fram nýja tillögu að Sundabraut sem er mun ódýrari en fyrirhuguð Sundabraut með göngum en hópinn skipa brúarsmiðir, byggingaverktakar og jarðvegsfræðingar.
Hugmynd hópsins er sú að frá Laugarnesi verði reist lág brú sem lægi yfir í Skúlahól í Viðey og yrði sú brú að hluta byggð með skerjum. Þaðan myndi vegurinn liggja með suðurströnd Viðeyjar, að hluta til á uppfyllingu.
Frá Viðey lægi síðan skipgeng hábrú yfir í Gufunes og vegur með ströndinni yfir í Eiðsvík. Vegurinn yrði þaðan tengdur Geldingarnesi með lágbrú og að lokum lægi vegurinn yfir Geldingarnes og þaðan yfir í Álfsnes með annarri brú.
Frá Viðey lægi síðan skipgeng hábrú yfir í Gufunes og vegur með ströndinni yfir í Eiðsvík. Vegurinn yrði þaðan tengdur Geldingarnesi með lágbrú og að lokum lægi vegurinn yfir Geldingarnes og þaðan yfir í Álfsnes með annarri brú."
Er ekki kominn tími til að klára þessa framkvæmd - á besta hátt með Sundabrautargöngum - í stað þess að koma endalaust með vondar tillögur sem einungis verða til þess að fresta nauðsynlegum samgöngubótum!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Framsóknarmenn með aðild að Evrópusambandinu!
8.3.2008 | 00:14
Framsóknarmenn eru með aðild að Evrópusambandinu! Ekki allir - en afar margir!
Einn glæsilegasti leiðtogi Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, hefur undanfarin misseri nálgast Evrópumálin af skynsemi eins og hennar er von og vísa - og flutti hún ákaflega málefnalega og góða ræðu um Evrópumálin á Iðnþingi á dögunum.
Þar sagði hún meðal annars:
Við erum Evrópuþjóð og eigum sögulega og menningarlega samleið með Evrópu. Langstærstur hluti viðskipta okkar er við Evrópuþjóðir. Vegna þessara nánu tengsla ákvað Ísland árið 1994, ásamt öðrum EFTA-ríkjum, að gerast þátttakandi í Evrópusamrunanum. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu var mjög umdeilt mál á sínum tíma en nú eru í raun allir sammála um að aðild hafi verið rétt ákvörðun.
Mér segir svo hugur að eins muni það verða ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Það verður umdeilt í aðdragandanum og að einhverju leyti á meðan á aðildarviðræðum stendur, en ef við næðum samningi sem þjóðin teldi hagstæðan og myndi samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, hef ég þá trú að niðurstaðan myndi verða okkur farsæl.
Það sem fyrst og fremst fengist með slíkri aðild er að mínu mati aukinn stöðugleiki og meira öryggi til framtíðar.
Þessi afstaða er mjög lýsandi fyrir stóran hluta Framsóknarflokksins.
Björn Ingi Hrafnsson kom fram á ritvöllinn í dag eftir langt hlé og rifjaði upp afstöðu Halldórs Ásgrímssonar í bloggfærslu sinni, "Rætist spádómurinn fyrr en margur hugði?".
Björn Ingi segir meðal annars:
"Um þessar mundir eru liðin tvö ár frá því Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, setti fram þá spá á Viðskiptaþingi að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu fyrir árið 2015. Spádómur þessi vakti mikla athygli þá og töldu einhverjir slíkt tal æði fjarstæðukennt. Í ljósi þess sem síðan hefur gerst, er fróðlegt að rifja upp rök þáverandi forsætisráðherra fyrir aðild og velta upp þeirri spurningu, hvort vera kunni að spádómur hans muni rætast fyrr en margur hugði."
Einnig:
"Vitað er að innan Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru margir ötulir talsmenn þess að Ísland gangi í ESB. Jafnframt er að finna marga af heitustu andstæðingum aðildar. Segir sína sögu, að í báðum flokkum er að finna stjórnarmenn í Heimssýn, samtökum þeirra sem vilja ekki aðild, og Evrópusamtökunum, sem styðja hana eindregið. Vinstri grænir virðast alveg einhuga í andstöðu sinni við aðild, sem og Frjálslyndi flokkurinn."
Þá bloggaði Framsóknarmaðurinn Friðrik Jónsson í dag "Vala víkingur og staða Framsóknar". Friðrik segir þar meðal annars:
"Það er nokkuð ljóst að innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir um afstöðuna til ESB...
...Hvað stefnu flokksins í Evrópumálum varðar, er líka nokk óumflýjanlegt að á næsta flokksþingi verði mörkuð framtíðarstefna flokksins. Leiðin hefur í reynd þegar verið vörðuð, en skýrari niðurstaða í þeim efnum mun án efa hafa veruleg áhrif á samsetningu og fylgisaukningarmöguleika flokksins til frambúðar. Kurteisiskomprómí á flokksþingum hingað til, sem einkum hafa verið til að friðþægja mestu afturhaldsöflin í flokknum, hafa lítið hjálpað."
Málið er nefnilega að þótt vinur minn Bjarni Harðarson hafi komið þvi inn í kollinn á Íslendingum að Framsóknarflokkurinn sé á móti inngöngu í Evrópusambandið, þá er það einfaldlega rangt!
Þótt Bjarni Harðarson sé holdgervingur andstöðunnar gegn Evrópusambandinu - þá er fjarri því að afstaða hans sé lýsandi fyrir Framsóknarflokkinn!
Bjarni er talsmaður minnihluta Framsóknarmanna - þe. harðra andstæðinga Evrópusambandsins.
Annar minnihlutahópur eru Evrópusinnarnir sem er að líkindum ekki minni en hópurinn hans Bjarna.
Þessi hópur fer óðum stækkandi á kostnað þess þriðja - og líklega stærsta - sem eru þeir sem eru beggja blands - eru reiðubúnir að skoða aðild að Evrópusambandinu - en setja það ekkert sérstaklega á oddinn.
Minni á Evrópuumræðuna á þarsíðasta flokksþingi - þar sem Evrópumálin voru áberandi - flokkurinn skiptist nánast í tvennt - og sátt náðist um það að Framsóknarmenn væru ósammála um Evrópumálin.
Einnig skýrslu Evrópunefndar Framsóknarflokksins frá því í fyrra!
Framsóknarmenn eru í grunninn skynsamir - og styrkur flokksins felst í því að ná samkomulagi um erfið mál. Ég spáí því að flokkurinn muni verða lykillinn í að ná ásættanlegri lausn við inngöngu Íslands í Evrópusambandið - hvað sem vini mínum og fyrrum kollega í blaðamennskunni - Bjarna Harðarsyni finnst!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)