Leiðir Guðni Framsókn lýðræðis eða Framsókn flokksræðis?
19.3.2008 | 11:03
Samband ungra framsóknarmanna endurspeglar viðhorf stórs hluta Framsóknarmanna - sérstaklega hinna yngri - sem vill láta á það reyna í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þjóðin vilji ganga til viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þá er ekki þar með sagt að innan Sambands ungra framsóknarmanna séu menn sammála um afstöðuna til Evrópusambandsins. Því fer fjarri - eins og innan Framsóknarflokksins í heild.
En SUF hefur sýnt þann þroska - sem sumir flokksmenn unga fólksins mættu taka sér til fyrirmyndar - að láta þjóðina ákveða beint hvort rétt sé að fara í aðildarviðræður. Ef þjóðin vill fara í aðildarviðræður yrði næsta skref að ræða við Evrópusambandið.
Þegar niðurstaða þeirra viðræðna liggur fyrir - þá getur þjóðin fyrst tekið upplýsta ákvörðun um það í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu - hvort Ísland skuli ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þetta er lýðræðisleg leið - leið unga fólksins í flokknum.
Væntanlega munu rísa upp á lappirnar forhertir andstæðingar Evrópusambandsins innan Framsóknarflokksins - sem ekki treysta þjóðinni til að taka sjálf ákvörðun um framtíð Íslands - og berjast með kjaft og klóm gegn þessari tillögu Sambands ungra framsóknarmanna.
Sem betur fer eru þess háttar Framsóknarmenn í minnihluta - en þeir geta verið háværir. Verði þeir ofaná - og Framsóknarflokkurinn í heild sinni mæli EKKI með því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það HVORT skuli fara í aðildarviðræður - þá hefur lýðræðishugsunin orðið undir í Framsóknarflokknum.
Nú reynir á Guðna Ágústsson.
Ætlar hann að stýra Framsóknarskútunni gegnum skerjagarðinn og inn í framtíðina með því að taka undir með Sambandi ungra framsóknarmanna - og leiða Framsóknarflokkinn áfram á grunni lýðræðis - eða ætlar Guðni að taka botnlokuna úr Framsóknarskútunni með því að leggjast gegn þessari tillögu um lýðræði - og leiða flokkinn inn á braut flokksræðis sem getur ekki annað en endað með brotlendingu á hafnlausri strönd Suðurlands.
Ég hvet Guðna til að fara leið lýðræðis - kalla saman flokksþing ekki síðar en í haust - og láta Framsóknarmenn kjósa um inntak þessarar lýðræðislegu tillögu Sambands ungra Framsóknarmanna - þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.
![]() |
SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)