1,2 og skíðaparadís í Bláfjöllin!
16.3.2008 | 08:40
Veðurguðirnir hafa verið skíðafólki á höfuðborgarsvæðinu hliðhollir í vetur. Nægur skíðasnjór í Bláfjöllum og oft á tíðum frábært skíðaveður! Sit hér framan við tölvuna sæll og sólbrenndur eftir frábæran dag í Bláfjöllum í gær - og dagurinn í dag lofar góðu!
Þegar ég stóð ofan við Kóngsgil og horfði yfir skíðasvæðið - og reyndar yfir allt höfuðborgarsvæðið og upp á Snæfellsnes - þá rifjaði ég upp ferlegan skíðavetur í fyrra. Þá var ástandið þannig í lok desember og köldum janúar - að ekki var unnt að opna skíðasvæðið þar sem snjórinn var allt of þurr og þjappaðist ekki. Það voru ekki margir skíðadagarnir í fyrra - og enn færri árið áður!
Þessu er unnt að breyta. Eftir að hafa búið í Noregi þar sem snjóbyssur eru í hverri brekku - og eftir að hafa skíðað á Akureyri á tilbúnum snjó í fyrra - þá æpir á mann vöntunin á snjógerðartækjum í Bláfjöllum. Við getum ekki treyst á veðurguðina eina saman! Ég skora á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að taka höndum saman og koma upp snjógerðarkerfi í Bláfjöllum fyrir næsta vetur.
Þannig getum við tryggt góðar aðstæður fyrir heilbrigða fjölskylduíþrótt í Bláfjallaparadísinni!
Ólafur Friðrik og félagar í borgarstjórn Reykjavíkur! 1,2 og skíðaparadís í Bláfjöllin!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)