Formaður Guðni, félagi Össur og kvótakerfið
6.2.2008 | 09:21
Það vekur furðu mína að það vekji furðu sumra að Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins vilji breyta kvótakerfinu og leita sátta um skynsamlegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, nú þegar fram hefur komið að kvótakerfið í núverandi mynd kunni að brjóta í bága við mannréttindasáttmála.
Það er eðli Guðna - og Framsóknarmanna flestra - að ná skynsamlegu samkomulagi um meginatriði þjóðlífsins - þar með talið fiskveiðistjórnunarkerfið. Þá hafa verið um árabil skiptar skoðanir um útfærslu kvótakerfisins innan Framsóknarflokksins, þar sem menn hafa tekist á um leiðir, þótt það hafi ekki leitt til breytinga á opinberri stefnu flokksins - fyrr en nú.
Auk þess skipta mannréttindamál Framsóknarmenn miklu máli.
Félagi Össur tekur reyndar bakföll yfir skynsamlegri nálgun Guðna á bloggi sínu þar sem hann segir:
"Þess vegna rak mig í rogastans að heyra Guðna Ágústsson lýsa því yfir í Kastljósinu, að hann teldi það helsta kostinn til að breyta stjórnkerfi fiskveiða að skoða tillögur Samfylkingarinnar. Ég veit ekki hvort Guðni Ágústsson er með þessum einkennilegu sinnaskiptum að biðla til Samfylkingarinnar en ég er að minnsta kosti harðgiftur og ekki í skilnaðarhugleiðingum. Guðni Ágústsson er nýkominn úr ríkisstjórn, þar sem hann blessaði kvótakerfið kvölds og morgna, og lét Halldór Ásgrímsson berja sig til stuðnings við það einsog viljalaust verkfæri. Nú skiptir hann um eina skoðun daglega, og er í flestum málum kominn í fullkominn hring."Hver á að taka mark á svona flokki?"
Það er alltaf skemmtilegt að lesa pistla félaga Össurs - enda einn skemmtilegasti stjórnmálamaður landsins ásamt honum Guðna!
En sannleikurinn er hins vegar sá að Guðni var ekki að fatta upp á þessu í gær eða fyrradag. Stefna hans byggir á töluvert þroskaðri umræðu innan Framsóknarflokksins - þar sem sú leið sem Össur kallar leið Samfylkingarinnar - hefur verið áberandi í umræðunni innanflokks - þótt hún hafi ekki verið ofan á í stefnu flokksins hingað til.
Það eru nefnilega margar vistarverur í Framsóknarflokknum - enda áratuga hefð fyrir því að Framsóknarmenn séu sammála um að vera ósammála um einstök mál - án þess það sprengi flokkinn í tætlur. Má þar nefna td. afstöðuna til amríska hersins á sínum tíma - afstöðuna til Evrópusambandsins og - merkilegt nokk - afstöðuna til útfærslu á kvótakerfinu.
En grunneðli eðli Guðna - og Framsóknarmanna flestra - hefur verið það sama - að ná skynsamlegu samkomulagi um meginatriði þjóðlífsins - þar með talið um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Þess vegna er gott að hafa Framsóknarflokkinn með við stjórnvölinn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)