Takmörkun lánshlutfalls vegna brunabótamats á útleið?
19.3.2007 | 11:39
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra vill afnema þá reglu að takmarka lánsfjárhæð Íbúðalánasjóðs við brunabótamat íbúðar að viðbættu lóðarmati. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttir á Alþingi á dögunum.
Í svarinu kemur fram að þetta mál hafi verið til athugunar í félagsmálaráðuneytinu og hjá Íbúðalánasjóði og vilji sé til þess að afnema þetta skilyrði. Engin ákvörðun liggi þó enn fyrir um hvort eða hvenær ráðist yrði í þessa breytingu. Ákvörðun í því efni verði meðal annars tekin í samráði við fjármálaráðuneytið með hliðsjón af stöðu efnahagsmála.
Þessi afstaða félagsmálaráðherra ætti að kæta Ingibjörgu Þórðardóttur formanns Félags fasteignasala, sem hefur ítrekað hvatt til þess í viðtölum að undanförnu að framangreint við brunabótamat verði afnumið.
Ingibjörg hefur bent á að 90% lán Íbúðalánasjóðs sé sjaldnast 90% lán á höfuðborgarsvæðinu. Í nýlegu fréttaviðtali sagði Ingibjörg meðal annars:
... hámarkslánið fer aldrei umfram brunabótamat og lóðamat hjá Íbúðalánasjóði og það má segja að þær séu teljandi á fingrunum þær íbúðir sem að geta farið í gegnum þetta nálarauga að lánið nái 90% af kaupverðinu En brunabótamatið er sem sagt sá akkilesarhæll sem Íbúðalánasjóður býr við og sníður þeim þar af leiðandi afar þröngan stakk.
Þetta er rétt hjá Ingibjörgu, því á árinu 2006 voru einungis veitt 78 lán á höfuðborgarsvæðið sem raunverulega náðu gildandi hámarksláni, 90% fyrri hluta ársins og 80% síðari hluta ársins. Þetta er aðeins 1,3% af heildarfjölda útlána Íbúðalánasjóðs.
Ákvæðið um viðmið við brunabótamat var á sínum tíma ekki ætlað að takmarka almennar lánveitingar Íbúðalánasjóðs enda var verð íbúða sjaldnast yfir brunabótamati fyrr en eftir að húsnæðisverð fór að hækka verulega upp úr árinu 1998. Því var það undantekning að ákvæðið skerti hámarkslánshlutfall.
Ákvæðinu var fremur ætlað að vera kostnaðarviðmið í þeim tilfellum sem ekki var um lánveitingar vegna kaupa að ræða heldur þegar veitt voru greiðsluerfiðleikalán eða lán til endurbóta.. Þá var ákvæðið ákveðinn öryggisventill vegna mögulegra málamyndagerninga við kaup og sölu íbúðarhúsnæðis.
Þess má geta að Glitnir auglýsir nú 90% lán sem ekki eru takmörkuð af brunabótamati
Svo er nú það!
Undirstrikað skal að bloggfærslur á síðunni endurspegla eingöngu mín eigin viðhorf, sbr. http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/145053/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)