Sjálfhverfir júristar og sægreifar!

Sjálfhverfir júristar og sægreifar hafa verið áberandi í líflegri umræðu um sameign þjóðarinnar á auðlindum Íslands.  Sægreifarnir sjálfhverfu hafa látið sem fiskurinn í sjónum sé eina náttúruauðlind Íslendinga og að þeir hafi nánast yfir að ráða þinglýstu afsali af hverri einustu styrtlu innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Sjálfhverfu júristarnir hafa látið sem þeir ættu sjórnarskránna.

Hvoru tveggja er fjarri sanni.

Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingum er ætlað að búa við.

Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá.

Fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar en ekki séreign útvegsmanna sem hafa yfir tímabundnum fiskveiðikvóta að ráða eins og sjálfhverfir sægreifar vilja vera láta. Kvótaeigendur eiga skilgreindan, tímabundinn afnotarétt af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er allt og sumt.

En ákvæðið um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar á ekki einungis um fiskinn í sjónum. Það á við allar auðlindir landsins sem ekki eru þegar skilgreindar sem einkaeign. Því er ekki nóg að hafa ákvæði um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar í lögum um stjórn fiskveiða því sem betur fer er fiskurinn einungis brot af auðlindum Íslands.

Þótt skiptar skoðanir kunni að vera á lofti um hvernig ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins sé best fyrir komið í stjórnarskrá Íslands, þá hefur fyrirliggjandi frumvarp forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að stjórnarskránna ákvæði um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar ótvírætt mikilvægt gildi. Það að stjórnarskrárbinda hugtakið sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins hefur svo sterkt pólitíst vægi sem stefnuyfirlýsing íslenskrar þjóðar, að vangaveltur um lagatæknileg atriði því tengdu eru hjóm eitt.

Svo er nú það!


Bloggfærslur 13. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband