Vextir íbúðalána rétt yfir meðallagi!
29.11.2007 | 11:41
Mikið er rætt um afar háa vexti íbúðalána um þessar mundir, en staðreyndin er sú að vextir íbúðalána Íbúðalánasjóðs eru rétt yfir meðallagi tímabilsins 1993-2007. Þá ber að hafa í huga að vextir banka og sparisjóða hafa ekki enn náð því háa vaxtastigi sem var á slíkum lánum bankanna fyrir ágústmánuð 2004. Það er heldur ekki lengra síðan en í águst 2002 sem raunvextir húsbréfalána voru hærri en núverandi útlánavextir Íbúðalánasjóðs.
Reyndar eru núverandi vextir Íbúðalánasjóðs heilum 4% lægri en hæstu raunvextir húsbréfalána sem náðu 9,5% á tímabili árið 1991.
Staðreyndin er sú að vextir húsbréfalána voru iðulega á bilinu 5,5%-6,05% eins og sjá má á meðfylgjandi töflu sem byggir á upplýsingum frá Seðlabankanum um ávöxtunarkröfu húsbréfa og útlánavexti Íbúðalánasjóðs tímabilið 1993-2007.´
Ástæða þess að almenningur áttar sig ekki á þessu er eðli húsbréfakerfisins sem lagt var af sumarið 2004. Húsbréfin báru fasta vexti, en raunverulegir vextir komu fram í afföllum - eða yfirverði - á hverjum tíma fyrir sig. Afföllin voru ekkert annað en fyrirframvaxtagreiðsla á mismuni fastra vaxta húsbréfanna - lengst af 5,1% - og raunvöxtum sem birtust í ávöxtunarkröfunni - sem oft var á bilinu 5,5% - 6,05% - og var reyndar 7,6% í upphafi þess tímabils sem meðfylgjandi tafla sýnir.