Friðjón og bláu appelsínurnar til varnar Framsókn!

Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið sérstaklega í uppáhaldið hjá hinum skelegga Eyjubloggara Friðjóni R. Friðjónssyni sem bloggar undir heitinu Friðjón og bláu appelsínurnar. Hann getur reyndar verið afar naskur á snögga bletti Framsóknar!

Ýmsir hafa reynt að klína IceSave klúðrinu á Framsóknarflokkinn - eins ósanngjarnt og það nú er. Friðjón kemur Framsókn til varnar í bloggi sínu í dag - sem ég ætla að taka mér bessaleyfi að birta í heild sinni - en slóðin á blogg Friðjóns er www.fridjon.eyjan.is/ 

"Framsókn til varnar

Hinir og þessir á blogginu keppast við að kenna Framsóknarflokknum um IceSave fíaskóið. Það er ekki fyllilega sanngjarnt.

Það er rétt að þegar fyrstu Icesave reikningarnir voru stofnaðir, síðla hausts 2006, sat Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, í viðskiptaráðuneytinu.

Þannig að fyrstu 7 mánuðina bar Framsókn ábyrgð, þá var lítið sem benti til þess að þessir reikningar gætu valdið þeim skaða sem þeir gerðu.

Þar fyrir utan var kosningavetur og óhjákvæmilega var athygli formanns flokksins tvískipt, fyrst að ráðuneytinu en ekki síður að kosningabaráttunni.
Það vita allir, sem starfað hafa í stjórnarráðinu að síðasta hálfa árið fyrir kosningar eru ráðuneytin á nokkurskonar sjálfstýringu því athygli ráðherranna er ekki óskipt.

Þann 24. maí 2007 tók Samfylkingin og Björgvin G. Sigurðsson við bankamálaráðuneytinu. Næstu 17 mánuði voru Icesave-reikningarnir því á ábyrgð Samfylkingarinnar.

Á meðan gerðist það að:

  • Icesave reikningarnir stækkuðu og urðu að skrímslum á vakt Björgvins.
  • Icesave reikningar í Hollandi voru stofnsettir á vakt Björgvins.
  • Kaupthing opnaði sína Edge reikninga haustið 2007 á vakt Björgvins.
  • Spilaborgin hrundi á vakt Björgvins.

Björgvin G. Sigurðsson ber ekki einn ábyrgð, því fer fjarri.

En að láta sem Framsóknarflokkurinn hafi hugsað upp Icesave reikningana og þvingað saklausa sparifjáreigendur til að leggja peningana sína inn á þessa hávaxta áhættureikninga, það er ósanngirni og ósannindi.

Framsóknarflokkurinn hefur skipt út sínum forystumönnum. Jón, Guðni, Valgerður, Jónína eru öll hætt í stjórnmálum.

Björgvin G. Sigurðsson heldur áfram ótrauður og leiðir Samfylkinguna á þingi.

Hvor flokkurinn hefur axlað ábyrgð?

Hvor flokkurinn kemur heiðarlegar fram?

PS.
Andstaða mín við greiðslu Icesave hefur ekkert með það að gera hverjir sitja í stjórnarráðinu eins og sjá má á þessari færslu
Geðveiki!"


mbl.is Margir skrá sig gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi færsla Friðjóns vakti einmitt athygli mína. Mér finnst það einstaklega virðingarvert þegar fólk er málefnalegt og sanngjarnt í skrifum sínum - ekki síst þegar rammpólitískir menn eins og Friðjón eiga hlut að máli. Betur að fleiri væru eins og hann!

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 11:27

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þetta er mjög sanngjörn grein frá pólitískum andstæðingi okkar Framsóknarmanna. Það er gott til þess að vita  að fólk skuli mæla af skynsemi  og horfa á það sem blasir við.

Hins vegar er auðvitað pólitískt amstur  vegna yfirvofandi kosninga ekki afsökun fyrir því að hafa ekki staðið þá vakt sem nauðsynlegt er til að yfir Íslendinga hrynji ekki drápsklyfjar.  Það verður að fara fram uppgjör í öllum flokkum, ekki bara uppgjör þar sem fólki er skipt út og nýir koma inn heldur líka hreinskipt uppgjör þar sem fólk hjálpast að því að greina hvað gerðist, hvers vegna það gerðist og vegna hvers.

Ég hugsa að aðstæður í Framsóknarflokknum á þessum árum og hvernig Halldór Ásgrímsson stýrði flokknum síðustu ár sín sem formaður hafi haft sitt að segja til  að kæfa niður  gagnrýna hugsun og  þá aðgæsla sem hefði átt að koma frá grasrót flokksins.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.6.2009 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband