Frekar rakt í sveitinni!

Það var frekar rakt í sveitinni um helgina þegar heimalandið í Hallkelsstaðahlíð var smalað!  Hrannar bróðir lenti á bólakaf í Fossánni þegar hrossið sem hann reið neitaði afar snögglega að ríða út í ánna í veg fyrir væn lömb sem stefndu sér í voða. Hrannar fauk af baki og út í á - og Stóri Hallur hélt á tímabili að hann þyrfti að skera utan af sér regngallann til að draga sauðinn - það er Hrannar bróður - í land.

Þetta var eflaust frekar erfitt í roki og slagviðri - og þrátt fyrir hetjulaga aðfarir Hrannars bróður - þá misstu menn tvo væna dilka í ánna!

Ég missti af smalamennskunni - en mætti með börnin  - og hana Ósk - í sveitina á sunnudeginum til að draga fé - meðal annars til slátrunar. Sem sagt fjárdráttur!

Strákarnir stóðu sig frábærlega - Styrmir 10 ára og Magnús 8 ára - í að eltast við lömbin. Eru búnir að læra heimamarkið - tvístíft aftan hægra!  Svo mismunandi mörk vinstra.

Gréta litla horfði bara á!

Mitt mark - tvístíft aftan hægra - hálft af aftan, fjöður framan vinstra. Erfði það eftir langafa minn!

Núna eru þetta plastplötur með númerum - en gömlu góðu mörkin á sínum stað!

Fjárdrátturinn gekk vel - og kjötsúpan hennar Stellu alveg frábær að vanda!

Það er reyndar rétt í fréttinni - það var ótrúlega mikið í vatninu - sjaldan séð það hærra - en fyrir ókunnuga þá getur orðið 7 metra munur á hæsta og lægsta vatnsborði!

Besti silungur á landinu í Hlíðarvatni!

Hér að neðan má sjá yfirlitsmynd af Hlíðarvatni og hluta heimalandsins að Hlíð - Hallkelsstaðahlíð!  Reyndar er stór hluti landsins land eyðibýlisins Hafurstaða - sem er við enda Hlíðarvatns - þar sem Geirhnjúkurinn gnæfir yfir!

Þarna er miðlungs mikið í vatninu - stærsti hluti Tanganna - hrauntanganna við enda vatnsins - voru komnir undir vatn!

Vel við hæfi að þetta dúkki upp í dag - því pabbi heitinn - Magnús Hallsson húsasmíðameistari - hefði orðið 70 ára ef hann hefði lifað! En þetta er einmitt æskuheimili hans - Hallkelsstaðahlíð - vatnið og Hnappadalurinn - og þessi fallega náttúra!

Það var sko ekki ónýtt að vera þarna í sveit sumar eftir sumar!

Mynd: Kjartan Pétur Sigurðsson


mbl.is Fé bjargað úr hólmum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Óska þér til hamingju með að eiga þessháttar bein tengsl við landið - og reynslu þína af sveitadvölinni.

Vona að þér takist að miðla sambandi við gengnar kynslóðir og meningar-arfinn og fjölskylduarfinn til barna þinna - - með hæfilegri viðkvæmni og virðingu.

Við sem erum enn á góðum aldri - - og getum byggt þessa brú - megum ekki klikka á því meðan börnin eru tilbúin og "eig nóg eftir af Guði" - í sínum óspilltu hugum.

Gangi þér vel

Benedikt Sigurðarson, 24.9.2008 kl. 20:40

2 identicon

Sæll vertu og takk fyrir síðast, já blautt og hvasst það eru orð síðustu smalamennsku. En allt í besta lagi núna 500 lömb farin í Skagafjörðinn og bændur og búalið allt að jafna sig.

Já í dag var mér hugsað til pabba þíns sem hefði svo sannarlega átt að vera enn á meðal okkar, en minningarnar um skemmtileg atvik eru alltaf dýrmætar. Svo að uppí hugann kom glettið augnaráð og að sjálfsögðu Rúna rauðsokka.

Kveðjur úr sveitinni.

Sigrún (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 21:51

3 identicon

Falleg mynd.Það er svo yndislegt í sveitinni.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband